Kaupmannahöfn. Margrét Þórhildur, Vigdís Finnbogadóttir og Hinrik á svölum Amilíuborgar.
Kaupmannahöfn. Margrét Þórhildur, Vigdís Finnbogadóttir og Hinrik á svölum Amilíuborgar. — Úr safni Morgunblaðsins/Nordfoto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján Jónsson kris@mbl.is Hinn 14. janúar mun Friðrik krónprins setjast í hásæti dönsku koungsfjölskyldunnar og taka við embætti sem Friðrik 10. Danakonungur. Margrét Þórhildur Danadrottning tilkynnti í nýársávarpi sínu á gamlársdag að hún hefði tekið þá ákvörðun að láta gott heita og afsala sér völdum.

Sviðsljós

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hinn 14. janúar mun Friðrik krónprins setjast í hásæti dönsku koungsfjölskyldunnar og taka við embætti sem Friðrik 10. Danakonungur. Margrét Þórhildur Danadrottning tilkynnti í nýársávarpi sínu á gamlársdag að hún hefði tekið þá ákvörðun að láta gott heita og afsala sér völdum.

„Hinn 14. janúar 2024, 52 árum eftir að ég fylgdi í spor míns heittelskaða föður [Friðriks IX] mun ég stíga til hliðar sem Danadrottning og láta Friðriki krónprins hásætið eftir,“ sagði Margrét II meðal annars í ávarpinu.

Margrét Þórhildur tók við 14. janúar árið 1972 og var þá 31 árs gömul en hún fæddist í Kaupmannahöfn í hernuminni Danmörku 16. apríl árið 1940 eða viku eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku í síðari heimsstyrjöldinni. Hún heitir Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid fullu nafni. Eiginmaður hennar Hinrik eða Henri de Laborde de Monpezat lést árið 2018.

Í ávarpi hennar mátti greina auðmýkt gagnvart hækkandi aldri og sagðist hún til að mynda ekki lengur ráða við ýmislegt sem hún gat áður leyst af hendi. Hún gekkst undir aðgerð á baki á síðasta ári og hafi þá sú spurning orðið áleitnari í sínum huga hvort tími væri kominn til að fela næstu kynslóð ábyrgðina. Segist hún viss um að nú sé rétti tíminn runninn upp.

Á hálfri öld sem þjóðhöfðingi Danmerkur hefur Margrét Þórhildur átt í samskiptum við fjóra forseta Íslands: Kristján Eldjárn, Vigdísi Finnbogadóttur, Ólaf Ragnar Grímsson og Guðna Th. Jóhannesson. Öll nema Guðni komu í heiminn þegar Ísland var enn hluti af Danmörku. Fyrsta opinbera heimsókn Vigdísar eftir kjör hennar árið 1980 var til Danmerkur í febrúar 1981 og vakti talsverða athygli þar sem tvær konur hittust sem þjóðhöfðingjar.

Krýningu fylgir lítið umfang

Friðrik krónprins heitir réttu nafni Frederik André Henrik Christian og verður sem konungur kallaður Friðrik X. Hann fæddist í Kaupmannahöfn 26. maí árið 1968 og er því á fimmtugasta og sjötta aldursári. Friðrik er hálfur Dani og hálfur Frakki því Hinrik faðir hans var franskur.

Mary Donaldsson eiginkona Friðriks er frá Ástralíu en þau hittust á pöbbarölti meðan á Ólympíuleikunum í Sydney stóð sumarið 2000. Þau giftu sig fjórum árið síðar og eiga fjögur börn, tvo drengi og tvær stúlkur. Sá elsti heitir Kristján eins og margir forfeðurnir og er 18 ára. Hann verður væntanlega næstur í röðinni sem arftaki þegar faðir hans tekur við.

Samkvæmt mælingum nýtur Mary vinsælda og álitsgjafar í Danmörku telja að staða konungsfjölskyldunnar verði nokkuð sterk þegar Friðrik tekur við þótt viðbrigðin verði mikil eftir 52 ár með sama þjóðhöfðingja sem hefur notið mikilla vinsælda. Friðrik verður settur í embætti í Amalíuborg þar sem aðsetur dönsku konungsfjölskyldunnar er. Ekki er hefð fyrir krýningu með miklum tilþrifum hjá Dönum eins og til dæmis Bretum en Karl III var krýndur Bretakonungur á síðasta ári. Tilkynning mun berast 14. janúar þegar Friðrik verður tekinn við.

Friðrik krónprins hlaut stórkross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996. Margréti móður hans hlotnaðist sami heiður árið 1958 en árið 1973 fékk hún stórkross með keðju.