Harpa hafði bara komið í Vesturbæinn til að tapa fyrir KR áður en hún varð skólastjóri Melaskóla.
Harpa hafði bara komið í Vesturbæinn til að tapa fyrir KR áður en hún varð skólastjóri Melaskóla. — Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa segir að í sér hafi alltaf blundað skólamanneskja þótt hún hafi ekki áttað sig á því strax enda hafi hún fyrst reynt fyrir sér í öðru námi áður en hún fór að læra kennarann. „Ég er fædd og uppalin á Akureyri og útskrifaðist sem stúdent frá MA tvítug

Harpa segir að í sér hafi alltaf blundað skólamanneskja þótt hún hafi ekki áttað sig á því strax enda hafi hún fyrst reynt fyrir sér í öðru námi áður en hún fór að læra kennarann.

„Ég er fædd og uppalin á Akureyri og útskrifaðist sem stúdent frá MA tvítug. Eftir það lá leið mín til Barcelona þar sem ég starfaði sem au pair. Eftir Spánardvölina fór ég á hönnunarbraut í Iðnskólanum og stefndi á að verða arkitekt. Ég vann svo á arkitektastofu í eitt sumar og tók u-beygju eftir það.“ Harpa bætir við, svolítið kímin á svip, að arkitektinn sem hún vann hjá hafi átt barn í Melaskóla og þegar hann hitti hana sagði hann að það væri honum að þakka að hún væri núna skólastjóri. „Það hafði alltaf blundað í mér að verða kennari þótt ég hafi ekki alveg áttað mig strax á því. Ég skráði mig í lögfræði og Kennaraháskólann og ákvað bara daginn áður en skólinn byrjaði að fara frekar í Kennó. Ég hef aldrei séð eftir því. Ég útskrifaðist 2004 sem stærðfræðikennari og fór þá að vinna í Réttarholtsskóla og var þar til haustsins 2007 en þá eignaðist ég mitt fyrsta barn. Í kjölfarið flutti ég til Svíþjóðar og eignaðist tvo drengi til viðbótar,“ segir hún og bætir við að hún hafi eignast þrjá drengi á þremur og hálfu ári. „Fæðingarorlofið í Svíþjóð er bara eins og fæðingarorlof eiga að vera og ég var því heima með drengina þessi fyrstu ár eftir að við fluttum út.“

Íslenskur stærðfræðikennari að kenna spænsku á sænsku í Svíþjóð

Þegar Harpa steig sín fyrstu skref í kennslunni í Svíþjóð byrjaði hún á því að kenna spænsku. „Ég var ekki alveg komin með sænskuna þegar ég byrjaði að vinna og þess vegna fór ég fyrst að kenna spænsku. Ég var sem sagt íslenskur stærðfræðikennari að kenna spænsku á sænsku í Svíþjóð, sem var alveg áskorun. Ég var að vinna með spænska texta sem ég þurfti að þýða yfir á íslensku og svo yfir á sænsku til að kenna Svíum spænsku á sænsku, þetta var oft erfitt. Það var hollt fyrir mig að byrja svona á núllpunkti, ég hafði reyndar áður upplifað að vera mállaus í nýju landi, en það var á Spáni. Mér finnst ég búa að þessari reynslu og eiga auðveldara með að setja mig spor þeirra sem eru í svipaðri stöðu hér á Íslandi. Þegar ég var svo orðin betri í sænskunni fór ég að kenna stærðfræði líka, aðallega á unglingastigi og aðeins á miðstigi. Síðustu árin var ég svo líka komin í stjórnunarverkefni sem er svipað og deildarstjórar hér í skólakerfinu og svo var ég líka í stjórn skólans.“

Aldrei fundist hún gera eins mikið gagn og þegar hún vann með innflytjendabörn

Harpa bjó í Helsingborg í sex ár og sjö ár í litlum bæ rétt fyrir utan Uppsala en hún segir skólana sem hún starfaði við í þessum borgum hafa verið mjög ólíka. „Í Helsingborg var ég að vinna í innflytjendahverfi með mikið af flóttabörnum, sum þeirra höfðu komið ein til landsins og höfðu ekkert bakland. Þetta var mikil reynsla fyrir mig og gat verið mjög krefjandi. Börn eru eins hvar sem þau eru í heiminum, þau eiga sér drauma og hafa væntingar til framtíðarinnar. Ég var umsjónarkennari í þrjátíu nemenda bekk og það var enginn Svíi í hópnum. Sumir þessara nemenda kviðu sumarfríinu sem við hlökkum yfirleitt til, því þau áttu engan að, þau fengu alla vega eina heita máltíð í skólanum á dag. Mér hefur sjaldan fundist ég gera eins mikið gagn og þegar ég vann þarna. Margir af þessum nemendum hafa plumað sig vel og einhver þeirra eru í sambandi við mig, sem er dýrmætt. Hinn skólinn sem ég vann í var í hverfi sem er töluvert líkt Vesturbænum, þar var velmegun og hátt menntunarstig. En auðvitað líka fjölbreytileiki og vandamál, bara öðruvísi vandamál sem við þekkjum hér hjá okkur eins og kvíði og einhver vanlíðan.“

Var veidd í skólastjórastarfið eftir að hún flutti heim

Hvernig kom það svo til að hún hafi orðið skólastjóri í Melaskóla? „Við fluttum heim árið 2021 og þá hafði Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla samband og bauð mér að koma og kenna í Réttó. Ég var mjög spennt fyrir því þar sem ég þekkti til skólans og vissi hvað var verið að vinna gott starf þar. Stuttu seinna hafði Jón Pétur aftur samband og nú til að spyrja hvort ég vildi verða aðstoðarskólastjóri í Melaskóla en hann hafði verið skipaður skólastjóri þar til eins árs. Ég þurfti ekkert að hugsa mig lengi um því mér finnst gaman að takast á við áskoranir og spennandi að vinna með góðu fólki. Ég vissi að við hefðum svipaða sýn á margt í skólamálum þótt við getum líka alveg verið ósammála, sem er gott. Það hafði aldrei verið neinn draumur hjá mér að verða skólastjóri en ég var spennt fyrir því að vinna með Jóni Pétri og takast á við þetta verkefni.“

Miklar áskoranir að koma inn í rótgróinn skóla með sterkar hefðir

Harpa segir það hafa verið krefjandi að koma inn í rótgróinn skóla þar sem hafi verið miklar en góðar hefðir. „Ég held að það hafi í raun verið kostur að ég þekkti lítið til í hverfinu, nýkomin heim eftir 13 ára dvöl erlendis, því það voru allskonar áskoranir þetta ár sem við Jón Pétur störfuðum hér saman. Hér var kraftmikið og gott starfsfólk en það hafði vantað svolítinn stöðugleika í stjórnunina. Skólinn hafði samt alltaf haldist á floti þar sem skólasamfélagið var öflugt, byggt á góðum kennurum og starfsmönnum. Eftir þetta ár fór Jón Pétur aftur í Réttarholtsskóla og mér var boðið að taka við sem skólastjóri. Ég viðurkenni að ég þurfti alveg að hugsa mig um,“ segir Harpa svolítið ákveðin. „Ég hef aldrei sóst eftir því að stjórna hópi af fólki og vera einhver stjóri, ég er ekki þannig stjórnandi. En það var eitthvað sem heillaði mig við þetta verkefni. Mér var vel tekið af samfélaginu þótt þetta hafi verið sársaukafullar aðgerðir sem við fórum í. Ég upplifi þetta samfélag svolítið eins og þorp úti á landi, það eru u.þ.b. 600 manns sem eru í og starfa við skólann á hverjum degi. Það er fyndið að segja frá því en ég hafði varla komið í Vesturbæinn nema til að tapa fyrir KR í Kaplaskjóli,“ bætir hún við svolítið glettin og segir að sig hafi langað til að vera áfram á þessum stað.

Mest krefjandi að vinna með skóla án aðgreiningar

Harpa þarf ekki að hugsa sig um þegar hún er spurð hvað sé mest krefjandi verkefnið í skólastarfinu. „Mér finnst helsta áskorunin vera að grunnskólarnir starfa eftir stefnu um skóla án aðgreiningar og það getur stundum verið flókið að koma til móts við ólíkar þarfir fjölbreytts nemendahóps. Mér finnst við ekki alltaf geta sinnt öllum eins og þeir þyrftu á að halda, það vantar stuðning og úrræði í sumum tilfellum, til að framfylgja stefnunni. Þetta getur verið mjög krefjandi.“

Hefur töluverðar áhyggjur af samskiptum og tengslamyndun barna á tæknitímum

Hún bætir við að margt hafi breyst hér heima og raunar í heiminum öllum á þeim þrettán árum sem hún var í Svíþjóð og nefnir tæknina í því sambandi. „Ég hef áhyggjur af samskiptunum og tengslamyndun barna í þessum nýja veruleika og hvernig við sem heild tökumst á við þessi tæki. Hér í skólanum er símabann sem gengur ágætlega enda nemendur ungir. Mér finnst brýnt að skólinn sé griðastaður barna og við eigum að verja þau gegn þessu áreiti, það er reyndar líka verkefni foreldranna. Við verðum að takmarka skjátíma eins og við getum og síminn er truflandi þótt hann sé ofan í tösku. Ég meina það er ekki gott að barn komi heim og sé búið með skjátímann í skólanum. Við erum með spjaldtölvur sem nemendur á miðstigi vinna í og þeir eiga einungis að vera að sinna skólaverkefnum enda reynum við að slökkva á öllu sem hægt er en þau komast samt inn á allskonar síður og í leiki. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að þessi freisting sé ekki til staðar í skólanum.“

Barn fær stanslausa umbun í símanum án þess að þurfa að hafa fyrir neinu

Tal okkar um símanotkun heldur áfram og berst að áreitinu og áhrifunum sem þeir hafa. „Við fullorðna fólkið ráðum ekki einu sinni alltaf við tækin. Ég meina það getur alveg stundum verið gott að kúpla sig út og fara í símann en áður en þú veist af er kannski liðinn klukkutími. Síminn gerir það að verkum að barn þarf ekkert að beita sér, það fær stanslausa umbun án þess að gera mikið, eins og tilfellið er í sumum tölvuleikjum. Þetta er kannski ágætis afþreying en ég er skeptísk á að þetta komi í staðinn fyrir hefðbundið nám þar sem nemendur þurfa að einbeita sér og sökkva sér niður í verkefni. Ég óttast að krakkar geti misst hæfileikann til að einbeita sér og þau hætti að vera forvitin. Börnum er eðlislægt að skoða og uppgötva heiminn sjálf, þau læra að ganga og tala, þau fæðast fróðleiksfús.“

Ef foreldrar lesa ekki er ólíklegra að börnin grípi bók

Mikið hefur verið rætt um læsi og hnignandi lesskilning íslenskra barna undanfarið en Harpa er mikil talskona bóka. Hún telur að grunnskóli eins og Melaskóli eigi að leggja gríðarlega áherslu á lestrarkennslu og lestrarþjálfun en bætir við að skólinn geri það ekki einn heldur sé þörf á miklu og góðu samstarfi við foreldra. „Lestur er númer eitt, tvö og þrjú og við höfum átt í góðu samstarfi við foreldra en lestur þarf að þjálfa og halda við. Einnig er áríðandi að gera lesturinn að einhverju jákvæðu, að hann sé ekki kvöð eða fimmtán mínútur á dag sem þarf að klára. Það er brýnt að skapa jákvæða upplifun af lestri og þar erum við foreldrarnir mikilvægar fyrirmyndir, ef við lesum ekki þá er ólíklegra að börnin okkar grípi bók og fari að lesa.“ Harpa segir það í raun ekki hafa komið sér á óvart að lesskilningi hafi hrakað þar sem við lesum miklu minna en áður. „Það er engin önnur leið en að lesa ef maður ætlar að verða betri í lesskilningi og við þurfum líka að reyna að kenna nemendum að gefast ekki upp. Það er svo mikilvægt að þau geti sökkt sér ofan í bók og gleymt sér, það má ekki taka það frá þeim.“

Er í bókaklúbbi með 12 ára syni sínum til að örva hann til lestrar

Samfélagið þarf að leggjast á eitt til að hjálpa börnum að verða betur læs segir Harpa og bætir við að þetta geti verið mikil vinna en ýmislegt sé hægt. „Þegar börn eru orðin læs má ekki hætta, það má til dæmis lesa fyrir börnin þótt þau séu orðin stór, það finnst öllum notalegt að láta lesa fyrir sig. Það er líka sniðugt að lesa saman, ég er til dæmis í bókaklúbbi með 12 ára syni mínum. Við veljum alltaf saman bækur og tökum tvö eintök að láni, svo lesum við sömu bókina á sama tíma. Við þetta skapast oft umræður um bækurnar og það verður smávegis keppni á milli okkar. Þannig að ég er búin að lesa svona bækur eins og Mamma klikk og Pabbi prófessor sem sonur minn hefur valið og svo fæ ég að velja bækur eftir Guðrúnu Helgadóttur og bækurnar um Elías,“ bætir Harpa brosandi við.

Börn sem lesa bækur verða vel máli farin og læra að setja sig í spor annarra

Hún segir svo og að þetta búi til sameiginlega upplifun á milli þeirra. „Lesskilningurinn er svo mikilvægur og með því að stuðla að og styðja barnið sitt til dáða í lestrinum þá eru foreldrar að ýta undir að barninu gangi vel. Með lestri læra börn líka ýmislegt annað eins og að verða vel máli farin og að setja sig í spor annarra, þau læra líka að tjá skoðanir sínar og hlusta á aðra og rökstyðja.“ Harpa segist geta haldið endalaust áfram að ræða hversu mikilvægt það sé að lesa bækur og undirstrikar að lestur sé grunnurinn að nánast öllu.

Vill samræmt mat í skólum landsins, annað sé ekki sanngjarnt gagnvart nemendum

Í framhaldinu berst umræðan að niðurstöðum PISA-könnunarinnar þar sem í ljós kom að íslenskum ungmennum hefur hrakað í lesskilningi síðan síðasta könnun var gerð og þau koma heldur illa út í samanburði við önnur OECD-ríki. Mikið hefur verið gagnrýnt að skólar fái ekki niðurstöður prófanna í sínar hendur. „Í raun veit ég ekki alveg nógu mikið um hvernig þessu er háttað í öðrum löndum þótt ég viti að einhver lönd láti skólunum í té niðurstöðurnar. Ég er aftur á móti fylgjandi því að hafa einhverskonar próf, að við séum með einhverja mælikvarða þar sem við fáum niðurstöður og mat á okkar skólastarfi, þá er ég í raun að tala um samræmd próf. Ég veit að próf eru allskonar en það er samt mælikvarði sem gefur einhverja mynd af frammistöðunni.“ Harpa bætir við að Svíar séu með samræmt mat í 4., 7. og 10, bekk.

Á ekki að vera á valdi einhvers kennara hvort nemandi komist inn í ákveðinn framhaldsskóla

„Mér finnst líka afskaplega einkennilegt að ekki sé samræmt mat við útskrift í 10. bekk, þannig að nemendur séu allir metnir á sanngjarnan hátt eftir sama kvarða inn í framhaldsskólana. Það er ekki á ábyrgð kennarans að nemandi komist inn í ákveðinn framhaldsskóla en þegar matið er ekki samræmt út frá stöðluðu prófi er meiri hætta á að matið verði ekki hlutlaust og þrýstingur verði á kennurum að „gefa“ ákveðna einkunn. Ég hef til dæmis heyrt að sumir menntaskólar meti A mismunandi eftir því frá hvaða skóla það sé gefið, það er mjög sérstakt.“

Þeir sem gagnrýna samræmd próf hafa m.a. notað rökin um að þá sé hætta á að prófin muni stýra kennslunni. „Þú hlýtur sem kennari alltaf að þurfa að hafa einhvern mælikvarða. Við erum með aðalnámskrána sem er töluvert lík þeirri sænsku nema í þá íslensku vantar dálítið innihaldið. Í ofanálag erum við með mismunandi kvarða við einkunnagjöfina, þannig að ég sem skólastjóri má ákveða hvað við notum, liti, tákn eða bókstafi. Mér þætti bara eðlilegt að allir myndu nota það sama við lok 4. og 7. bekkjar, það er í raun bara í 10. bekk sem kerfið er samræmt milli skóla og gefið í bókstöfum. Þá komum við kannski að því sem skiptir miklu máli og það er Menntamálastofnun og stjórnunin. Ég er mjög hrifin af því að hafa eitthvað miðlægt, að hver og einn skólastjóri eða skóli ákveði hvernig á að meta nemendur og hvað á að kenna er sérstakt. Auðvitað erum við með aðalnámskrá en svo á hver og einn skóli að útbúa sína skólanámskrá, það er í lögum. Ég skil ekki hvers vegna við getum bara ekki öll verið að vinna eftir sömu bókinni,“ segir hún ákveðin.

Ramminn þarf að vera miklu skýrari þegar kemur að því hvað á að kenna

„Ég hef ekki áhyggjur af því að prófin fari að stýra kennslunni, það er ekkert endilega neikvætt. Ef það stendur í aðalnámskrá að allir nemendur eigi að hafa lært Pýþagórasarregluna við lok 10. bekkjar og líklegt sé að reglan komi á samræmdu prófi þá er það bara mjög skýrt. Ég sem stærðfræðikennari tryggi þá að nemendur hafi lært hana. Ég held að kennarar hafi samt alveg svigrúm til að beita fjölbreyttum aðferðum við að kenna efnið, lokamarkmiðið er bara sameiginlegt. Í raun er ég að benda á að ramminn er ekki nógu afdráttarlaus, það væri gott að hafa samræmi og skýrt hvað á að kenna efnislega, annað er bara ósanngjarnt gagnvart nemendum.“

En hvernig myndi Harpa byggja kerfið upp ef hún fengi að ráða? „Ég myndi vilja hafa samræmt mat á öllu landinu í 4., 7. og 10. bekk. Auk þess hefði ég ákveðnar vörður á leiðinni, þ.e.a.s. að það sé skýrt hvað nemendur eigi að kunna við lok 4. bekkjar, við lok 7. bekkjar og við lok 10. bekkjar. Þetta er í námskránni núna en þetta er allt mjög loðið og opið, hægt að túlka textann á mismunandi vegu og það er aldrei gott. Auðvitað þarf að endurskoða ýmislegt í námskránni reglulega og við getum deilt um hvort eigi að kenna fornsögu eða eitthvað annað en ramminn þarf að vera skýr. Ég veit að ekkert kerfi er fullkomið en mér þætti svona kerfi sanngjarnara og árangursríkara.“

Íslenski grunnskólinn miklu meira en menntastofnun

Eins og komið hefur fram býr Harpa yfir mikilli reynslu af skóla- og menntakerfinu í Svíþjóð, hvað ætli henni hafi þótt betra í Svíþjóð og hvað er betra hér? „Stærsti munurinn á íslenskum og sænskum skóla er að sá íslenski er svo miklu meira en menntastofnun, við erum að taka mikið að okkur sem snýr ekki að því að mennta nemendur. Hver og einn skóli þarf að vera með allskonar teymi, við erum til dæmis með lausnarteymi, forvarnarteymi og eineltisteymi og hver og einn skóli þarf að gera sína áætlun. Í stað þess að það sé bara ein áætlun sem allir skólar fari eftir og gerð er af sérfræðingum á hverju sviði. Auðvitað erum við hluti af uppeldi barnanna enda eru þau hjá okkur stóran hluta dags en við erum menntastofnun og ég myndi vilja að það væri meira rými fyrir kennarana að sinna faglega starfinu. Þegar ég byrjaði hér þá var ég alveg skýr með að við værum til dæmis ekki viðburðastjórar, við skiptum okkur t.d. ekki af afmælum. Að sjálfsögðu tökum við á atvikum sem koma upp en í Svíþjóð voru oft fagaðilar sem sáu um þessi mál, ekki kennararnir.“

Meiri virðing borin fyrir skólastarfinu í Svíþjóð og ekki alltaf verið að fá leyfi

Harpa bætir við að sér finnist mikill munur vera á virðingu fyrir skólastarfinu. „Þegar það er skóli í Svíþjóð þá eru nemendur í skólanum og svo fara þeir í leyfi þegar það er í skóladagatalinu. Ég veit í raun ekki hvort leyfi hafi aukist mikið hér á Íslandi en síðan ég tók við er mikið verið að biðja um frí á skólatíma, þetta þekkist varla í Svíþjóð, skóladagatalið er virt. Það að taka barn úr skóla í eina til tvær vikur til að fara í frí getur haft gríðarleg áhrif á nám barnsins og nemendum finnst stundum erfitt að koma aftur. Það er á ábyrgð forráðamanna sem taka börn úr skólum að sinna námi þeirra en ég held að margir átti sig ekki alveg á þessu.“ Harpa bætir við að sér finnist hvatvísi Íslendinga að sama skapi líka geta verið kostur. „Það getur alveg verið jákvætt að vera svolítið „spontant“. Ég varð stundum svolítið pirruð á skipulaginu hjá Svíum, ég meina þeir skipuleggja stundum 8 mánuði fram í tímann, manni var stundum boðið í mat eftir 12 vikur, þetta endurspeglast auðvitað í skólastarfinu.“

Finnst of mikill hraði og dagskrá í íslensku samfélagi og börn séu oft þreytt

Harpa nefnir að sér finnist hraðinn í íslensku samfélagi vera mikill og hún segist hafa svolitlar áhyggjur af því. „Við búum á þessari dásamlegu litlu eyju en mér finnst einhvern veginn allt vera á fullu, mikill hraði. Ég væri alveg til í að við myndum hægja aðeins á bara vegna barnanna okkar, sem foreldri held ég að það sé svo mikilvægt að kenna börnunum að njóta hversdagsleikans. Það þarf ekki alltaf að vera á æfingum og viðburðum, börn í dag eru oft með svo mikla dagskrá og langa daga að þau eru gjarnan þreytt. Það sem skiptir meira máli er að auka samverustundir með fjölskyldu og foreldrum og gefa sér tíma til að hlusta og spjalla við börnin og efla þannig þessa tengslamyndun. Það er líka brýnt að ræða við þau um að við getum haft ólíkar skoðanir og það sé allt í lagi. Þau þurfa að læra að verða ekki reið eða fara að rífast þótt þau séu ekki sammála, já sem sagt í raun kenna þeim samræður og rökræður.“

Þurfum öll að vanda okkur og kenna börnum að bera virðingu fyrir skoðunum annarra

Harpa segist hafa tekið eftir því eftir að hún flutti heim að umræðan á Íslandi geti verið svolítið einsleit og erfið. „Mér finnst umræðan oft svolítið svona eins og það sé bara ein leið og ef einhverjum finnst eitthvað annað er hann oft úthrópaður sem einhver vitleysingur eða jafnvel talinn klikkaður. Við þurfum öll að vanda okkur og kenna börnunum að vera umburðarlynd gagnvart skoðunum annarra. Við þurfum líka að kenna þeim að það er í lagi að skipta um skoðun, ég veit ekki hversu oft ég hef gert mistök og í kjölfarið skipt um skoðun, það sýnir bara karakter. Þetta kennum við að hluta hér í skólanum og leggjum mikla áherslu á góð samskipti og samtal.“ Hún nefnir einnig að reynt sé að leysa öll mál sem upp koma með nemendum innan veggja skólans. „Við höfum svo samband heim til að upplýsa um atvikið og oft til að hrósa nemendum fyrir að leysa málin saman.“

Sterkt skólasamfélag þar sem börnum líður vel og þau fá tækifæri til að mennta sig

Að lokum nefnir Harpa að lögð sé rík áhersla á að skapa sterkt skólasamfélag. „Hér eru u.þ.b. 80 starfsmenn sem velja það að vinna með börnum á hverjum degi. Við vinnum öll að sama markmiði og það er að börnunum líði vel og þau fái tækifæri til að mennta sig. Við tökum alltaf á móti nemendum í anddyrinu og bjóðum þeim góðan daginn, þannig skapast tengsl og ákveðin samheldni. Héðan viljum við að nemendur fari með gott sjálfstraust, sterka sjálfsmynd og geti tekist á við lífið,“ segir hún að lokum og bætir brosandi við að hún geti talað endalaust um skólamál.