Aðdráttarafl Á þessari tölvuteikningu má sjá nýja viðbyggingu til vinstri og fyrirhugaða flotbryggju og heitan pott til hægri. Yfirbragðið helst óbreytt.
Aðdráttarafl Á þessari tölvuteikningu má sjá nýja viðbyggingu til vinstri og fyrirhugaða flotbryggju og heitan pott til hægri. Yfirbragðið helst óbreytt. — Tölvuteikning/Zeppelin Arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í síðustu viku gerði líkamsræktarstöðvakeðjan World Class samning um kaup á byggingunni Sjálandi við Vífilsstaðaveg í Garðabæ. Þar var um árabil til húsa samnefndur veitingastaður og veislusalur en byggingin þykir einkar vel staðsett við sjávarsíðuna og með fallegt útsýni yfir Arnarnesvoginn en vinsæl göngu- og hjólaleið liggur á milli byggingarinnar og strandarinnar.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í síðustu viku gerði líkamsræktarstöðvakeðjan World Class samning um kaup á byggingunni Sjálandi við Vífilsstaðaveg í Garðabæ. Þar var um árabil til húsa samnefndur veitingastaður og veislusalur en byggingin þykir einkar vel staðsett við sjávarsíðuna og með fallegt útsýni yfir Arnarnesvoginn en vinsæl göngu- og hjólaleið liggur á milli byggingarinnar og strandarinnar.

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir stefnt að því að stækka húsið svo að það rúmi líkamsræktarstöð í hæsta gæðaflokki. Áfram verður rekinn veitingastaður í húsinu en starfsemin útvíkkuð. „Austan megin við húsið viljum við reisa viðbyggingu með 450 fm gólfflöt, með 150 fm „infrared“ hóptímasal og búningsklefa í kjallara en tækjasal á jarðhæðinni. Í norðaustur-endanum sjáum við fyrir okkur heitan pott og gufuklefa með útsýni yfir voginn og þá munum við freista þess að fá leyfi til að gera göng undir göngustíginn sem tengja myndi búningsklefana við heitan pott sem yrði á flotbryggju. Myndi sá pottur vera öllum opinn, jafnt viðskiptavinum líkamsræktarstöðvarinnar sem útivistarfólki sem sækir þetta svæði – fólk gæti jafnvel róið til okkar á kajak,“ útskýrir Björn en siglingaklúbbur er með aðstöðu skammt frá.

Veitingastaðurinn sem rekinn var í húsinu var tekinn til gjaldþrotaskipta fyrr í vetur. Að sögn Björns var staðurinn rekinn af þriðja aðila sem starfrækti veitingastaði víðar á höfuðborgarsvæðinu en lenti í erfiðleikum sem rekja má til kórónuveirufaraldursins. „Við eigum núna í viðræðum við veitingamenn sem gætu hugsað sér að koma að þessu verkefni og taka við rekstri veitingahússins. Hugsa ég að veitingastarfsemin verði nokkurn veginn í óbreyttri mynd, en auk viðbyggingar austanmegin langar okkur að reisa 102 fm viðbyggingu til suðurs til að stækka veitingastaðinn, og geta þá breytt núverandi veislusal hússins í líkamsræktarsal.“

Mun taka ár að hefja framkvæmdir

Áætlar Björn að verkefnið allt muni kosta á bilinu 1,2 til 1,3 milljarða og að framkvæmdum geti verið lokið eftir tvö ár, en veitingastaðurinn og veislusalurinn munu starfa með hefðbundnum hætti þangað til. Þarf m.a. að fá leyfi bæjarfélagsins fyrir stækkun hússins en viðbyggingarnar og breytingarnar eru töluvert umfram það byggingamagn sem þegar er heimild fyrir. „Bæði þurfa bæjaryfirvöld að veita okkur samþykki sitt og þá þarf grenndarkynning að fara fram. Ímynda ég mér að framkvæmdir geti hafist í febrúar á næsta ári en við gætum þó hafist handa fyrr ef allir leggjast á eitt,“ útskýrir Björn og bætir við að sami arkitekt og hannaði Sjáland eigi heiðurinn af útliti fyrirhugaðra viðbygginga og helst yfirbragð byggingarinnar óbreytt.

Heimamenn ættu að taka framtakinu fagnandi því að sögn Björns er í dag engin líkamsræktarstöð starfrækt í bæjarfélaginu. „Garðbæingar hafa einkum nýtt sér þjónustu World Class í Dalshrauni í Hafnarfirði annars vegar, og í Smáralind hins vegar, en þegar líkamsræktarstöðin í Sjálandi verður tekin í gagnið gerum við ráð fyrir að loka í Dalshrauni og mun þetta tiltekna verkefni því ekki hafa áhrif á heildarfjölda starfsstöðva okkar,“ segir hann.

Auk þess að bæta þjónustuna við íbúa svæðisins og lífga upp á sjávarsíðuna ætti fyrirhugaður rekstur í Sjálandi einnig að vera ágætis upphitun fyrir fyrirhugaða risaframkvæmd World Class sem Morgunblaðið hefur áður fjallað um en félagið hyggst reisa 10.000 fm byggingu í Njarðvík sem hýsa mun hótel, líkamsræktarstöð og veitingarekstur og baðlón. „Það gerir þetta nýja verkefni okkar enn meira spennandi að það er ekki svo ósvipað markmiðum okkar í Njarðvík nema að þar verður einnig hótel.“