Mikilvægur Mohamed Salah fór mikinn fyrir Liverpool gegn Newcastle á Anfield í gærkvöldi en hann skoraði tvívegis ásamt því að leggja upp mark.
Mikilvægur Mohamed Salah fór mikinn fyrir Liverpool gegn Newcastle á Anfield í gærkvöldi en hann skoraði tvívegis ásamt því að leggja upp mark. — AFP/Peter Powell
Liverpool er með þriggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir torsóttan sigur gegn Newcastle á Anfield í Liverpool í gær. Leiknum lauk með 4:2-sigri Liverpool en toppliðinu gekk mjög illa að brjóta ísinn þrátt fyrir að…

Liverpool er með þriggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir torsóttan sigur gegn Newcastle á Anfield í Liverpool í gær.

Leiknum lauk með 4:2-sigri Liverpool en toppliðinu gekk mjög illa að brjóta ísinn þrátt fyrir að yfirspila mótherjana frá Newcastle stærstan hluta leiksins.

Mohamed Salah kom Liverpool yfir á 49. mínútu af stuttu færi úr teignum eftir sendingu frá Darwin Núnez en Alexander Isak jafnaði metin fyrir Newcastle fimm mínútum síðar úr fyrsta færi Newcastle-manna í leiknum.

Curtis Jones kom Liverpool yfir á nýjan leik á 74. mínútu af stuttu færi úr teignum áður en Cody Gakpo skoraði þriðja mark Liverpool, aftur af stuttu færi, eftir frábæra utanfótarsendingu Salah.

Sven Botman minnkaði muninn fyrir Newcastle með skalla eftir hornspyrnu á 81. mínútu áður en Salah innsiglaði sigur Liverpool með marki úr vítaspyrnu á 86. mínútu eftir að brotið var á Diogo Jota innan teigs.

Þetta var þrettándi sigurleikur Liverpool í deildinni en liðið hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu, gegn Tottenham, hinn 30. september í Lundúnum. Newcastle hefur nú tapað fimm útileikjum í röð í deildinni en liðið er með 29 stig í níunda sætinu.

Arsenal í vandræðum

Arsenal missteig sig þriðja leikinn í röð þegar liðið heimsótti Fulham á Craven Cottage í Lundúnum.

Leiknum lauk með sigri Fulham, 2:1, þar sem Bobby Decordova Reid skoraði sigurmark leiksins á 59. mínútu með föstu skoti af stuttu færi eftir að boltinn datt fyrir hann í vítateig Arsenal eftir hornspyrnu frá hægri.

Áður hafði Bukayo Saka komið Arsenal yfir strax á 5. mínútu áður en Raúl Jiménez jafnaði metin fyrir Fulham á 29. mínútu.

Arsenal er nú með 40 stig í fjórða sætinu en liðið hefur aðeins fengið 4 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjum sínum og þá er liðið án sigurs í síðustu þremur leikjum sínum.

Á sama tíma vann Tottenham 3:1-sigur gegn Bournemouth á Tottenham Hotspur-vellinum í Lundúnum þar sem þeir Pape Mate Sarr, Son Heung-Min og Richarlison skoruðu mörk Tottenham en liðið er með 39 stig í fimmta sætinu og hefur fengið 12 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjum sínum.

Manchester United tapaði sínum níunda leik á tímabilinu þegar liðið heimsótti Nottingham Forest á City Ground-vellinum í Nottingham.

Morgan Gibbs-White skoraði sigurmark Nottingham Forest á 82. mínútu með frábæru skoti rétt utan teigs sem André Onana í marki United réð ekki við.

Áður hafði Nicolás Domínguez komið Nottingham yfir á 64. mínútu með frábæru skoti úr teignum áður en Marcus Rashford jafnaði metin fyrir United á 78. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr teignum.

Þetta var fyrsta mark Rashfords í rúmlega mánuð í deildinni en fyrir leik helgarinnar skoraði hann síðast gegn Everton á útivelli hinn 26. nóvember.

United er með 31 stig í sjöunda sætinu en liðið hefur unnið tíu leiki á tímabilinu, gert eitt jafntefli og tapað níu þeirra eins og áður sagði.

Englandsmeistarar Manchester City eru komnir í þriðja sæti deildarinnar en liðið vann sannfærandi sigur gegn botnliði Sheffield United á Etihad-vellinum í Manchester.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Manchester City þar sem Rodri og Julián Álvarez skoruðu mörk City.

Rodri kom City yfir strax á 14. mínútu en hann átti þá frábæran sprett og svo hörkuskot, rétt utan teigs, og boltinn söng í bláhorninu.

Álvarez innsiglaði svo sigur City á 61. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Phils Fodens.

City er með 40 stig í þriðja sætinu, fimm stigum minna en Liverpool, en City á leik til góða á toppliðið. bjarnih@mbl.is