Tryggvi Kristjánsson fæddist í Keflavík 7. október 1959. Hann lést í Bólivíu 6. ágúst 2022. Foreldrar Tryggva voru hjónin Þórheiður Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 1. nóvember 1936, d. 5. október 2018 og Kristján Guðleifsson, f. 26. febrúar 1935.

Bræður Tryggva eru Jón Ólafsson, f. 1954, Guðleifur, f. 1955 og Kristján, f. 1962.

Tryggvi ólst upp bæði í Keflavík og Flórída í Bandaríkjunum. Hann giftist Magdalenu Corbachiu á Íslandi árið 1988 og fluttist með henni til Spánar. Synir þeirra eru Daníel, f. 15. maí 1988 og Guðleifur Jón, f. 7. janúar 1992.

Útför fór fram frá Friðrikskapellu 9. desember 2023.

Í sögu Keflavíkur er byrjun sjöunda áratugarins talin einn mesti uppgangstími í sögu bæjarins. Íbúafjöldi hafði tvöfaldast á einum áratug, auk þess sem kominn var nýr nágranni sem sest hafði að á Miðnesheiði og átti eftir að gjörbreyta bæði mannlífi bæjarins og menningu með nærveru sinni og þeim miklu áhrifum sem bandaríski herinn hafði. Bæði kanaútvarpið og –sjónvarpið flutti tónlist sem átti eftir að móta tónlistarlífið í Keflavík með áhrifum um landið allt. Í hönd fór bæði Bítla- og hippatímabilið. Þeim fylgdi ástin, friðurinn og kærleikurinn, sem átti sinn þátt í að móta nýja menningu og skemmtanalíf. Upp úr þessum jarðvegi óx sá sem hér skal kvaddur, bróðir minn Tryggvi, sem fæddist árið 1959 í Keflavík, sonur hjónanna Þórheiðar Margrétar Kristjánsdóttur (Heiðu) og Kristjáns Guðleifssonar. Tryggvi var næstyngstur okkar fjögurra bræðra, þess sem þetta ritar og fæddur er 1954, Guðleifs sem fæddist 1955, en yngstur er Kristján, fæddur 1962.

Uppvaxtarár Tryggva og mín sem stóra bróður voru um margt ólík, því ég var alinn upp hjá ömmu og afa, en móðir mín bjó þó ekki fjarri. Bræðralagið var þó jafnan sterkt og kærleikur var á milli okkar bræðra alla tíð. Bernskuárin liðu við kassabíla, kofabyggingar og útileiki eins og gjarnan var hjá börnum á þessum árum. Fjölskyldan hafði byggt hús á Greniteig þar sem þau bjuggu þar til leiðir mömmu og Kristjáns skildi. Síðar átti Tryggvi eftir að flytja með móður okkar til Ameríku ásamt bræðrum okkar, þar sem þau bjuggu í Flórída í nokkur ár. Þarna hefur líklega kviknað í honum þörf til að kynnast enn nýjum löndum, siðum og venjum. Síðar fluttist Tryggvi hingað heim þar sem hann átti eftir að búa næstu árin.

Líf Tryggva tók nýja stefnu þegar hann kynntist Maghdalenu Corbachio, sem hann giftist árið 1988. Það ár fæddist sonur þeirra Daníel. Eftir nokkur ár á Íslandi fluttu þau til Spánar. Þar fæddist sonurinn Guðleifur Jón. Leiðir Tryggva og Magdalenu skildi árið 1997, en góðum vinskap héldu þau alla tíð. Tryggvi bjó erlendis allt til hinsta dags. Samferðafólk Tryggva lýsir honum sem tryggum vini, en ekki síst góðlyndum og umhyggjusömum manni sem hefði mátt hugsa betur um sjálfan sig en hann gerði oft um aðra. Tryggvi gat verið hrókur alls fagnaðar í góðum hópi, en hann gat líka verið einfarinn sem átti það til að hverfa okkur hinum sjónum. Einhver gæti sagt að hjálpsemi hans hafi leitt hann út af sporinu, því ekki voru allar leiðir hans þær sem réttar kallast og mátti hann sæta þeim afleiðingum sem slíku fylgir. Þrátt fyrir ferð um oft grýtta slóð, þá skein hinn sanni Tryggvi ávallt í gegn, jafnlyndur og góður. Hann sýndi okkur hinum slóð sem við skyldum varast. Samband okkar bræðra var alla tíð gott, þótt það gæti verið stopult, enda bjó hann oft allfjarri. Það var okkur bræðrum því stór stund þegar við allir gátum sameinast hér heima fyrir fimm árum þegar ástkær móðir okkar var kvödd hinstu kveðju. Sú ferð Tryggva hingað heim reyndist sú síðasta í hans lífi.

Megi ástkær bróðir hvíla í friði.

Meira á https://www.mbl.is/andlat

Jón Ólafsson.