Elísabet ánægð á útskriftarmyndinni.
Elísabet ánægð á útskriftarmyndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Er fjarnám framtíðin? „Já, en fjarnám er líka fortíðin og svo sannarlega nútíðin. Við vorum bara ekkert að spá í það fyrr en heimsfaraldurinn sparkaði í rassinn á okkur. Og þá voru það helst fyrirlestrar á myndbandi, sem mun ekki heilla næstu kynslóðir

Er fjarnám framtíðin?

„Já, en fjarnám er líka fortíðin og svo sannarlega nútíðin. Við vorum bara ekkert að spá í það fyrr en heimsfaraldurinn sparkaði í rassinn á okkur. Og þá voru það helst fyrirlestrar á myndbandi, sem mun ekki heilla næstu kynslóðir. Ég held að meginástæðan fyrir því að fjarnám á eftir að blómstra er að við viljum ákveða daginn okkar sjálf. Við horfum á okkar forsendum þegar við viljum og jafnvel háskólanemendur vita varla hvað línuleg dagskrá er. Ég held að nemendur, á öllum skólastigum, séu fyrir löngu orðnir tilbúnir að stunda sitt nám á sínum forsendum, á sínum tíma, með fjarnámi. Þess vegna skiptir hönnun fjarnámsins mjög miklu máli og með nemendur og þeirra þarfir í huga.“

Var námið sjálft fjarnám?

„Já, það væri samt fyndið að kenna fjarnámshönnun í staðarnámi. Ég elskaði það. Bróðir minn, sem býr í Hollandi, var með mér í bekk en hann hefur farið um allan heim að þjálfa starfsfólk í fluggeiranum. Hann mun kollvarpa þjálfun og kennslu þar með fjarnáminu.

Náminu var skipt í 11 einingar, til dæmis Design Principles, Virtual Classroom, AI og Social and Immersive Learning. Við hittumst öll reglulega á zoom, fengum verkefni og var skutlað í vinnuhópa. Einu sinni í mánuði var svo fjarfundur á zoom þar sem kennararnir fóru yfir eitthvað og svöruðu spurningum. Mér fannst þetta sjúklega skemmtilegt.“

Nýtti barnlausu vikurnar vel

Nálgast þú nám á sama hátt og þegar þú varst yngri?

„Ég hef ekki breyst en námið hefur það. Persónumiðað nám var ekki til en ég var þó í grunnskóla sem fyrstur bauð upp á hrað-, mið- og hægferð á unglingastigi. Ég náði aldrei algebru en ef ég væri ekki að ná henni í skóla í dag færi ég á Shaw Academy sem kennir alþjóðlega talnatungumálið á allt annan hátt en við þekkjum. Við höfum í rauninni aðgang að öllu í dag en flestir velja alltaf grín- eða kisumyndbönd í stað fræðslu.“

Er krefjandi að vera í námi og sinna heimili?

„Játs! En hversu krefjandi fer eftir því hvort nemandinn sinnir líka þriðju vaktinni, sérstaklega yfir hátíðarnar. Það er meiri vinna fyrir konu að eiga börn og karlkyns maka en að vera einstæð. Þó að makinn sé rosa til í að hjálpa þá þarf hann lista yfir og fyrir öll verkefni, það er álag. Ef þú ert þar fer huglæga vinnan við að sinna fjölskyldunni beint í lokaeinkunnina, sama hvað þú skipuleggur þig vel. Ég er til allrar hamingju makalaus og gat notað barnlausu vikurnar til að sinna skólanum.“

Lærði að hún kynni ekki að skrifa

Elísabet er bókmenntafræðingur í grunninn. „Ég hafði engan sérstakan áhuga á klassískum bókmenntum og fór eiginlega í bókmenntafræði til að geta svarað fyrir mig ef bókin mín fengi æðislega vonda dóma.“

Bókin þín?

„Já, sko. Ég var mikill bloggari í gamla daga og lærði að búa til vefi út frá því. Ég varð semsagt smá frægur bloggari í korter og í beinni útsendingu Tvíhöfða var ég mönuð til að skrifa bók. Ég átti mjög erfitt með að neita manni áður en ég varð mamma og skrifaði þessa bók náttúrlega. Þremur mánuðum síðar tók ég þátt í jólabókaflóðinu og vissi ekkert hvað ég var að gera eða fyrir hvern. Það sem ég lærði helst í bókmenntafræði var að ég kynni ekki að skrifa. Lesbók Morgunblaðsins birti meira að segja níðljóð um mig eftir Stefán Mána. Samt fékk hún ágætis dóma. Þetta var mjög skrýtið tímabil. En áhugasvið mitt og færni hefur alltaf legið í rafrænu vinnuumhverfi og notendaviðmóti auk þess sem ég er ótrúlega góð í að fara eftir leiðarvísum. Þannig að ég fór að vinna á því sviði.“

Lærir maður allt í skóla?

„Vá, nei! En maður lærir fullt með því að vera í skóla burtséð frá námsefninu sjálfu. Þess vegna er ég á móti því að stytta menntaskólann endalaust því helmingurinn af færninni sem við tileinkum okkur á menntaskólaárunum er í gegnum nemendasamfélagið.
Ég lærði miklu meira á að vera viðriðin nemendaráð, skólaböll, ræðukeppnir, kosningar, hæfileikakeppnir og leikrit en það sem var á stundatöflunni. Ég féll til dæmis í stærðfræði í MS en við héldum fyrsta '85-ballið sama ár. Mér er drull um prófið en '85-ballið varð að hefð og er enn haldið í MS í dag, 26 árum síðar. Mér finnst það miklu sterkara á ferilskránni en stúdentspróf í stærðfræði – ekki að ég myndi setja það á ferilskrána því það væri smá klikk.“

Hefurðu einhvern tímann byrjað í námi og hætt?

„Eina skiptið sem ég hef hætt í einhverjum kúrs var í stjórnmálafræði í Bandaríkjunum. Ég var of frjálslynd í repúblikanaríki og kannski með of stóran kjaft. En þegar ég fór að fá morðhótanir og lýsingar á hvernig ég yrði drepin á kennsluþræðinum tók kennarinn hann niður og tók mig úr tímanum. Hann var eiginlega hræddari um öryggi mitt en ég. Ég fékk samt að taka prófið á skrifstofunni hans og náði. Mér hefur bara aldrei dottið í hug að hætta. Ég eignaðist mitt fyrsta barn í miðjum hádegismat, kláraði samt matinn. Ég eignaðist barn í miðju lokaverkefni, kláraði samt verkefnið og útskrifaðist. En ekki því ég er svo hörð eða dugleg – mér hreinlega datt ekkert annað í hug.“

Beint framhald af '85-ballinu

Þú ert líka með kennsluréttindi. Hvað leggur þú áherslu á að miðla til barna?

„Já, þau. Ég tók þau eiginlega bara til að eiga í rassvasanum ef ég skyldi flytja til útlanda og vilja vinna sem enskukennari. Ég stefndi aldrei á grunnskólakennslu því ég þoldi ekki börn og var skíthrædd við unglinga. Þegar synir mínir voru báðir komnir á grunnskólaaldurinn var ég komin með gott þol fyrir börnum þannig að ég horfðist í augu við unglingaóttann og varð loks grunnskólakennari. Það er líka svo hentugt sem makalaust foreldri að eiga skólajólafrí.“

Ertu enn og aftur að taka U-beygju með nýjasta náminu?

„Neits! Eða sko, það fer eftir því hvernig maður lítur á það. Ég tók mér ár eftir menntaskóla til að „finna mig“ en fann ekki neitt. Þegar ég kom heim var uppáhaldsskemmtistaðurinn minn hættur og þar sem ég var ekki tilbúin að kveðja húsið fór ég að vinna hjá nýjum eigendum. Eigandinn var feiminn og sendi mig í eitthvert viðtal í sinn stað og titlaði mig „skemmtanastjóra“ út í loftið. Blaðakonan hringdi í mig til að lesa fyrir mig viðtalið klukkan sjö á gamlárskvöld. Ég, sem sjálfskipaður gæðastjóri heimsins, kvartaði yfir vinnubrögðunum og ritstjórinn sagði bara: „Hva, getur þú gert betur?“ Ég var alveg: „Uuuu, já! Fékk vinnu á blaðinu og allt í einu varð ég blaðakona. Og bloggari. Og rithöfundur. Og bókmenntafræðingur. Og kennari. Þannig að neits, þetta er augljóslega engin U-beygja heldur beint framhald af þessu fyrsta '85-balli á síðustu öld.“

Ekki bara fyrir skóla

Elísabet sér ótal tækifæri í að nýta fjarnám og ekki bara á þann hátt sem flestir sjá fyrir sér eins og í hefðbundinni kennslu. Fyrirtæki geta einnig nýtt sér fjarnám til að þjálfa starfsfólk.

Ég hef oft verið að spá hve margar vinnustundir sérfræðinga fara í að þjálfa nýja sérfræðinga í einhverju sem kemur sérfræðiþekkingunni ekki baun við. Og nýi starfsmaðurinn er með draugafylgd í einhverja daga. Það hlýtur að kosta fyrirtæki fullt. Hver hefur ekki lent í að byrja í nýju starfi og fá holskeflu upplýsinga í fangið akkúrat þegar framheilinn er dofinn vegna mjög eðlilegrar streitu á fyrsta vinnudegi? Eftir holskefluna bankar reynsluboltinn tvisvar á skrifborðið og segir hressilega: „Spurðu mig svo ef það er eitthvað,“ áður en hann sprettur á næsta fund. Eftir situr þú með svitaperlur á efri vör og milljón spurningar sem eru ábyggilega allar of heimskulegar. Eða engar spurningar, sem er verra. Og þar kem ég inn.

Ég vinn með fyrirtækjum og hanna og framleiði efni sem sparar reynsluboltum vinnuna við að kenna og gerir nýliðann strax öruggari í sínu starfi því hann tekur færnipróf og getur bara tekið kennslustundina aftur ef hann sökkar. Hvert hlutverk innan fyrirtækis, hver starfsstöð, hvert tól eða jafnvel hver viðskiptavinur gæti verið efni kennslustundar og mér finnst það bilað spennandi. Ég gæti verið að klippa myndband um hvernig fyrirtæki notar Jira einn daginn og næsta að sýna hvernig á að tempra súkkulaði með ReksinTravis-mælinum sem er að fara í sölu.

En ég vil líka gera heiminn betri fyrir næstu kynslóðir og hanna fjarnám fyrir skólasamfélagið. Ég kenndi íslensku og kynfræðslu á unglingastigi og langar að æfa kennara í að kenna kynfræðslu og hinsegin fræðslu.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

„Vó, góð spurning! Ég er nefnilega búin að hugsa þetta lengi. Mig dreymir um framtíð sem blöndu af Barbarellu og StarTrek: NextGen en ef við náum ekki að keppa við TikTok og Trump grunar mig að hún verði meiri í átt við Idiocracy,“ segir Elísabet.