Kristján Eiríksson fæddist á Hverfisgötu 47 í Reykjavík 4. apríl 1951. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi 2. desember 2023.

Foreldrar hans voru Eiríkur Þorgrímsson, f. 1926, frá Selnesi á Breiðdalsvík og Guðlaug Kristjánsdóttir, f. 1917, frá Núpi á Berufjarðarströnd. Eiríkur og Guðlaug reistu sér heimili á Borgarholtsbraut 34 í Kópavogi árið 1956.

Systkini Kristjáns eru: Oddný Sigríður, f. 1952, maki Steinar Viggósson, f. 1950, þau eru bæði látin, þeirra sonur er Eiríkur, f. 1972; Gunnar Már, f. 1960, maki Guðlaug Benediktsdóttir, f. 1960, þeirra börn eru Einar Örn, f. 1980, og Guðrún Jóna, f. 1990.

Eftirlifandi maki Kristjáns er Bergþóra Annasdóttir, f. 1950, og gengu þau í hjónaband 1976. Foreldrar Bergþóru eru Annas J. Kristmundsson, f. 1911 á Höfða í Skutulsfirði, og Friðgerður G. Guðmundsdóttir, f. 1919 á Gelti í Súgandafirði, þau bjuggu á Ísafirði.

Börn Kristjáns og Bergþóru eru: 1) Guðlaug, f. 1976, maki Árni Þórhallur Leósson, f. 1972, þeirra dætur eru Stefanía Árdís, Kristjana Árný, Rakel Ása og Ingibjörg Ásta og sex barnabörn. 2) Oddný Sigríður, f. 1978, maki Stefán Gunnar Benjamínsson, f. 1972, þeirra börn Bergþóra Anna og Benjamín Jón og eitt barnabarn. 3) Friðjón, f. 1985, maki Guðný Björg Briem Gestsdóttir, f. 1986, þeirra dætur eru Emilía Björg Briem og Viktoría Briem.

Kristján ólst upp á Kársnesinu og gekk í Kársnesskóla. Hann var í sveit nokkur sumur á Höfða við Hvammstanga hjá Jakobínu Teitsdóttur og Páli Guðmundssyni. Sótti sér síðar skipstjórnarréttindi frá Sjómannaskólanum í Vestmannaeyjum 1973 en skólaslitin voru í Reykjavík vegna Vestmannaeyjagossins.

Kristján og Bergþóra stofnuðu sitt fyrsta heimili í Reykjavík. Síðan flytja þau til Bolungarvíkur 1976 og búa þar til 1983. Frá 1983 til 1998 býr fjölskyldan á Þingeyri og að lokum í Kópavogi.

Kristján stundaði sjómennsku í 30 ár. Fyrsta skipsrúmið var um borð í Sigurði ÍS. Síðan sem fyrsti stýrimaður á Dagrúnu ÍS 9 árin 1975-1983 og fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Sléttanesi ÍS 808 frá 1983 til ársloka 1997. Starfsferli Kristjáns lauk hjá Húsasmiðjunni í Reykjavík.

Kristján fékk erfitt verkefni í ársbyrjun 2004 en hann fékk blóðtappa sem olli lömun vinstra megin og þar með lauk starfsferli hans á vinnumarkaði. Hægt og bítandi endaði ævi hans í hjólastól. Kristján var í 13 ár í dagvist hjá Sjálfsbjörg í Hátúni og var það til fyrirmyndar hvað starfsfólkið var duglegt að brjóta upp daginn hjá fólkinu. Kristján var dagfarsprúður og jákvæður maður og tók þátt í ýmsum framfaramálum fyrir sitt samfélag og var fjölskyldan virkjuð ef á þurfti að halda. Síðan í febrúar 2018 hafði Kristján búsetu hjá Hrafnistu Boðaþingi.

Hann átti þátt í að stofna golfklúbbinn Glámu og koma í stand golfvelli í Meðaldal í Dýrafirði ásamt góðum félögum. Hann tók þátt í að safna fyrir nýjum róðrarbátum fyrir sjómannadaginn og fá skíðakennara til að kenna börnum á skíðum á Þingeyri á sínum tíma.

Útförin hefur farið fram.

Elsku pabbi, tengdapabbi, afi og langafi okkar.

Nú ertu farinn frá okkur og það er erfitt að setjast niður og reyna að skrifa um þig minningarorð. Við eigum svo ótal margar fallegar minningar sem rifjast upp þegar ég hugsa til baka. Það var gott að alast upp hjá þér og mömmu, þú varst alltaf til í eitthvað skemmtilegt enda stutt í glens og grín. Þið mamma voruð dugleg að ferðast með okkur, t.d. fara á skíði og í útilegu. Þú tókst okkur systurnar með á sjóinn á Sléttanesið og við fengum að kynnast sjómennskunni. Þú áttir líka þinn eigin bát sem við siglum með þér um Dýrafjörðinn. Þú varst einstakur maður og það var alltaf stutt í glens og gaman hjá þér, þú klæddir þig t.d. upp í kjól fyrir kvennahlaupið svona rétt til þess að gleðja aðra.

Þú varst í eðli þínu mikill prakkari og gerðir margt með okkur sem ekki væri leyfilegt nú til dags. Eins og að festa spotta í bílinn hjá þér og draga okkur á skíðum á veginum. Við systurnar settum einu sinni sígarettusprengjur í eina sígarettuna þína og gleymdum síðan að við höfðum gert það, svo sprakk hún þegar við vorum í umferð í Reykjavík og það var heppni að við keyrðum ekki á en guð hvað okkur brá. Ég er ekki frá því að ég hafi erft margt frá þér eins og aksturslagið, en við vorum alltaf að flýta okkur á milli staða. Ég man þegar ég átti að mæta til tannlæknis á Ísafirði og þú varst undir stýri og við „flugum“ af stað eins og ég sagði alltaf þegar þú ókst bílnum. Þegar við komum upp á Breiðadalsheiði þá festist bíllinn í stórum snjóskafli. Þá urðum við að fara út að moka og moka, en þegar okkur tókst að losa bílinn þá var tannlæknatíminn búinn. Það var því ekkert annað í stöðunni en að snúa við á staðnum og við „flugum“ aftur heim. Okkur leiddist aldrei með þér, því að þú fannst alltaf upp á einhverju skemmtilegu og ég hef líka erft stríðnina frá þér.

Þú varst alltaf stoltur af fjölskyldu þinni og duglegur að heimsækja okkur. Börnin nutu þess að fá þig í heimsókn enda hefur þú alltaf verið mikill barnakarl. Þú hafðir gaman af því að vera með barnabörnunum þínum og taka þátt í þeirra leik og varst gjarnan fljótur að færa þig frá samræðum fullorðna fólksins yfir í barnaherbergið til þess að leika með börnunum þínum.

Það er margt sem þú hefur gefið okkur og kennt okkur sem er okkur mjög dýrmætt. Ég man hvað þú varst stoltur þegar Benjamín útskrifaðist í vor sem rafvirki. Þá varst þú kominn með rafvirkja í fjölskylduna þína sem gæti komið suður og hjálpað þér þegar stólinn eða eitthvað af tækjunum þínum biluðu.

Nú er komið að leiðarlokum elsku pabbi og minningarnar um þig eiga eftir að ylja okkur í framtíðinni. Takk fyrir allt og takk fyrir að vera pabbi minn.

Oddný Sigríður
Kristjánsdóttir.

Það var enginn Kitti eða Stjáni sem kom inn í fjölskylduna okkar á Engjavegi 34 fyrir 50 árum. Heldur var það Kristján Eiríksson sem giftist Bergþóru systur minni og fyrir vestan var hann aldrei nefndur nema með fullu nafni.

Kristján mágur minn var dökkur yfirlitum, brúnaþungur og minnti einna helst á ungan og glæsilegan mann af suðrænum slóðum. En á bak við dökka og stingandi yfirbragðið leyndist ljúfur og fallegur maður sem bar virðingu fyrir sjálfum sér og samferðafólkinu. Þegar hann og Bergþóra systir mín fluttu til Bolungarvíkur í kringum 1976 var mikill uppgangur á staðnum. Kristján og fleiri höfðingjar sóttu togarann Dagrúnu til Normandí í Frakklandi. Hann var farsæll stýrimaður og þegar hann flutti sig yfir á Sléttanesið á Þingeyri leysti Kristján oftar en ekki af sem skipstjóri. Kristján var kraftmikill og drífandi maður sem var röskur og fljótur til allra verka. Hann gekk í öll verk og var fljótur að ljúka þeim hvort sem það var til sjós, á þriðju vaktinni eða að byggja upp eins og einn golfvöll með öðrum. Sem unglingi fannst mér skemmtilegast að fá bílfar með Kristjáni, því það var eins og allar leiðir frá Ísafirði væru alltaf styttri með honum. Hann ók greitt en var í senn varkár í umferðinni. Kristján naut sín í góðra vina hópi og var af þeirri kynslóð sem hafði gaman af því að fara út og skemmta sér og skella sér á dansleik. Ég gætti þá oft barna þeirra og hann var alltaf syngjandi glaður og þakklátur. Kristján var líka mikill smekkmaður, alltaf þegar Bergþóra systir mín var að fara eitthvað út þá fékk hún álit hans á klæðnaði og útliti sínu en hann hafði alltaf sterkar skoðanir á slíku enda ætíð mjög smart sjálfur. Kristján var hagur á flesta hluti eins og Eiríkur faðir hans enda lék allt í höndunum á honum og án efa hefðu hæfileikar hans getað nýst víða. Skjótt skipast veður í lofti bæði til sjós og lands, samruni fyrirtækja er ekki öllum í hag og Kristján varð frá starfi sínu að hverfa sem stýrimaður á Sléttanesinu. Það varð því úr að fjölskyldan fluttist í Kópavoginn og Kristján fann sér annan starfsvettvang. Fyrir tæpum 20 árum varð þessi stóri og sterki maður fyrir áfalli. Kristján fékk heilablóðfall sem skerti getu hans til muna, varð lamaður vinstra megin og bundinn hjólastól. Í öllu þessu sýndi hann æðruleysi og var alltaf hress í viðmóti og sýndi engan barlóm. Hann lét sig varða stöðu og líðan annarra, spurði alltaf frétta af fólkinu sem stóð honum næst. Hann var hjálpsamur og vakandi yfir velferð fjölskyldunnar. Hann var eiginmaður, pabbi, afi og langafi með stórum staf. Kristján og Bergþóra voru samheldin hjón og stóð hún alltaf þétt við hlið hans í gegnum lífið.

Ég kveð Kristján Eiríksson með þakklæti í huga. Hann var eftirminnilegur maður, með hlýtt og stórt hjarta. Nú siglir Kristján skipi sínu í hinsta sinn og tekur stefnuna þangað sem honum er ætlað að fara. Bergþóru systur minni og fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Dagný Annasdóttir.