Náttúruvá Uppbygging varnargarðs við virkjunina í Svartsengi hófst 10. nóvember. Fyrirhugað er að annar garður rísi sunnan Hagafells.
Náttúruvá Uppbygging varnargarðs við virkjunina í Svartsengi hófst 10. nóvember. Fyrirhugað er að annar garður rísi sunnan Hagafells. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er áskorun, það verður að segjast eins og er,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, spurður hvort erfitt sé að spá um hvar reisa eigi varnargarð við Grindavík vegna þess hve fljótt aðstæður breytast á svæðinu

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Það er áskorun, það verður að segjast eins og er,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, spurður hvort erfitt sé að spá um hvar reisa eigi varnargarð við Grindavík vegna þess hve fljótt aðstæður breytast á svæðinu.

„Það sem við höfum hins vegar gert er að taka jarðfræðina og eldfjallafræðina á Reykjanesskaganum og notað ákveðna tölfræði til að reikna út líklegustu gosstaði í náinni framtíð.“ Hann segir þessa vinnu hafa farið af stað fyrir um átta árum.

„Svo kemur á daginn að það eru búin að vera fjögur gos á Reykjanesskaganum og þau voru öll inni á þessu svæði sem við töldum að yrði líklegt að myndi gjósa á.“ Hann telur þessa aðferðafræði virka.

„Með það að vopni erum við komin með ákveðinn grunn fyrir hraunfræðilíkön og eftir því sem okkur tekst betur að líkja eftir bæði rennslisleiðunum og hvernig hraunið hagar sér er hægt að hanna varnargarða með þá þekkingu. Þá tel ég að okkur muni farnast vel í þessu,“ segir Þorvaldur.

Gos á svipuðum slóðum

„Það virðist ekki hafa hægst á því að einhverju marki,“ segir Þorvaldur spurður um stöðu landrissins á Reykjanesskaga.

Greint var frá því 29. desember að landrisið við Svartsengi væri búið að ná sömu hæð og það var í þegar seinasta gos braust út 18. desember.

„Við getum alveg búist við að eitthvað gerist, þó við getum ekki sagt nákvæmlega til um hvenær það gerist,“ segir hann. „Það gæti gerst í þessari viku að eitthvað fari af stað, en það þarf ekki að enda með eldgosi.“

Þorvaldur hefur grun um að það séu einhverjir dagar í að það dragi til tíðinda. „Þetta gæti dregist eitthvað inn í janúar ef landrisið fer ekki að hægja á sér.

Þetta verður alltaf að mínu mati tiltölulega lítið gos, það getur verið aflmikið í byrjun eins og seinast en ef það verður aflminna en síðasta gos þá stendur það yfir lengur,“ segir Þorvaldur. „Ég held að gosstaðurinn verði á svipuðum slóðum, mér finnst það líklegast eins og staðan er núna.“