Borgin getur hjálpað, en fylgja breytingunni hjá borginni einhverjar breytingar?

Forystumenn ríkisstjórnarinnar lögðu áherslu á það í áramótagreinum sínum hér í blaðinu að ná þyrfti niður verðbólgu. Um það er raunar ekki ágreiningur og svo virðist af því sem heyrst hefur af viðræðum aðila vinnumarkaðarins, og einnig ýmsum úr stjórnarandstöðunni, að mikil samstaða sé um þetta markmið.

Formaður Sjálfstæðisflokksins benti á að jákvæð merki væru komin fram um að verðbólga færi minnkandi en að samstöðu þyrfti til að ná frekari árangri og þar muni samningar á vinnumarkaði leika stórt hlutverk. „Takist vel til er raunhæft að hafa væntingar um vaxtalækkanir í náinni framtíð,“ sagði hann.

Seðlabankastjóri talaði á svipuðum nótum þegar hann sagði að það sem hann heyrði af kjarasamningsviðræðum í fjölmiðlum væri „mjög jákvætt. Það er verið að minnast á rétta hluti, sem skipta máli fyrir verðstöðugleika.“ Og hann bætti við að kjarabætur kæmu ekki aðeins í gegnum nafnlaunahækkanir „heldur með því að horfa á heildarmyndina. Kaupmáttur getur aðeins vaxið í smáum en þéttum skrefum, á grundvelli stöðugleika og vaxandi framleiðni – verðmætasköpun.“ Seðlabankastjóri sagði auknar líkur á mjúkri lendingu og vísaði í því sambandi einnig til þess að efnahagslífið væri að komast í mun betra jafnvægi en áður. Hann sagði einnig að vonandi yrði hægt að slaka á vöxtum fljótlega, en það færi að vísu eftir verðbólgutölum.

Verðbólgan hefur verið að þróast með jákvæðum hætti, en afar hægt. Forsætisráðherra lýsti því yfir í áramótagrein sinni að hún væri sannfærð um að árangur næðist á árinu sem nú er nýhafið og sagðist telja „verðbólguna fara niður á árinu þannig að hún hafi lækkað um helming í lok árs.“

Það væri mikilvægur árangur og má helst ekki ganga hægar. En verðbólgumælingar má skoða frá ýmsum sjónarhornum og þannig benti fjármálaráðherra á það þegar síðustu mælingar voru birtar að þó að tólf mánaða verðbólgan væri nú 7,7% og hefði lækkað á milli mánaða, þá næmi hækkun vísitölu neysluverðs á ársgrunni aðeins 4,3% á síðustu sex mánuðum. Samkvæmt því mætti halda því fram að verðbólgan hefði þegar nær helmingast, og þess vegna ekki óraunsætt að tala af nokkurri bjartsýni um framhaldið líkt og margir gera um þessar mundir.

En það er ekki aðeins að skynsamlegir kjarasamningar með hóflegum launahækkunum séu forsenda hratt lækkandi verðbólgu og vaxta, almenningi og atvinnulífi til hagsbóta, því að fleira þarf til. Í fyrrnefndri grein forsætisráðherra kemur fram að aðgerðir „ríkisins til að styðja við farsæla kjarasamninga munu snúast um húsnæðismál. Þar höfum við þegar tekið stór skref til að auka framboð á húsnæði, einkum í gegnum almenna íbúðakerfið. Rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum og ný húsnæðisstefna er leiðarvísirinn sem þurfti í þessum efnum og vinna þarf áfram til að auka framboð og treysta húsnæðisöryggi allra hópa.“

Hægt er að taka undir að aukið framboð á húsnæði er lykilatriði en vandinn á húsnæðismarkaði er einmitt skortur á íbúðarhúsnæði sem stafar fyrst og fremst af skorti á lóðum á höfuðborgarsvæðinu, einkum þó í Reykjavík þar sem áherslan hefur öll verið á þéttingu byggðar og þar með á dýrar íbúðir en ekki á hraða uppbyggingu á hagstæðu húsnæði. Húsnæðisstefna eða rammasamkomulag er þess vegna lítið annað en plástur á sár og leysir ekki vandann sé ekki tekið á meininu sjálfu.

Lausnina á þessu er helst að finna í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar hefur enginn vilji verið til að grípa til þeirra aðgerða sem gætu leyst vandann. Nú um áramót á forystan í Ráðhúsinu að breytast þar sem Einar Þorsteinsson tekur við sem borgarstjóri af Degi B. Eggertssyni. Fátt ef nokkuð hefur enn bent til að breytinga sé að vænta við þessi skipti og hætt við að þau verði einungis ásýndarbreyting. Nýr borgarstjóri hefur engu að síður tækifæri á næstu dögum og vikum til að sýna að hann hafi skilning á þeim erfiðu aðstæðum á íbúðamarkaði sem meirihlutinn í Reykjavík hefur orðið valdur að. Það er hægt að skipta um kúrs í skipulagsmálum í borginni og fátt mundi styðja betur við skynsamlega kjarasamninga, lækkun verðbólgu og lækkun vaxta en einmitt slík stefnubreyting.