[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Thomas Partey er ekki í leikmannahóp Gana fyrir Afríkumótið sem hefst hinn 13. janúar á Fílabeinsströndinni. Partey, sem er þrítugur, hefur verið frá keppni vegna meiðsla undanfarna mánuði en hann á að baki 47 A-landsleiki og hefur verið fyrirliði landsliðsins undanfarin ár

Knattspyrnumaðurinn Thomas Partey er ekki í leikmannahóp Gana fyrir Afríkumótið sem hefst hinn 13. janúar á Fílabeinsströndinni. Partey, sem er þrítugur, hefur verið frá keppni vegna meiðsla undanfarna mánuði en hann á að baki 47 A-landsleiki og hefur verið fyrirliði landsliðsins undanfarin ár. Partey hefur verið að glíma við meiðsli í læri og er óvíst hvenær hann snýr aftur á knattspyrnuvöllinn en hann á að baki 104 leiki fyrir Arsenal þar sem hann hefur skorað 5 mörk og lagt upp önnur fjögur til viðbótar.

Donny van de Beek, miðjumaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, er á leið til Eintracht Frankfurt á lánssamningi út yfirstandandi leiktíð með möguleika þýska félagsins á að gera vistaskiptin varanleg. Hinn 26 ára Hollendingur hefur aðeins komið við sögu í sex úrvalsdeildarleikjum Manchester United síðan hann kom frá Ajax fyrir um 35 milljónir punda í september árið 2020. Hann hefur hins vegar komið við sögu í 62 leikjum í öllum keppnum fyrir United og skorað í þeim tvö mörk.

Markvörðurinn Hugo Lloris kvaddi stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham á samfélagsmiðlum um helgina eftir 11 ár í herbúðum félagsins. Hann lék 447 leiki fyrir félagið en hann skrifaði á dögunum undir eins árs samning við Los Angeles FC í bandarísku MLS-deildinni.

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa kallað portúgalska sóknarmanninn Fábio Carvalho til baka úr láni frá þýska 1. deildar félaginu RB Leipzig. Carvalho, sem er 21 árs gamall, gekk til liðs við þýska félagið á láni frá Liverpool síðasta sumar en hann hefur fengið fá tækifæri í Þýskalandi á tímabilinu. Carvalho gekk til liðs við Liverpool frá Fulham sumarið 2022 fyrir 5 milljónir punda en hann á að baki 21 leik fyrir félagið þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo var markahæsti leikmaður ársins 2023 en hann skoraði tvívegis í 4:1-sigri Al-Nassr gegn Al-Taawoun í efstu deild Sádi-Arabíu hinn 30. desember. Alls skoraði Ronaldo 54 mörk á árinu, tveimur mörkum meira en þeir Harry Kane og Kylian Mbappé.

Franski knattspyrnumaðurinn Raphaël Varane mun yfirgefa enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United næsta sumar. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Varane, sem er þrítugur, er samningsbundinn United til sumarsins 2024. Forráðamenn United geta hins vegar framlengt samning hans um eitt ár til viðbótar en Sportsmail greinir frá því að félagið hafi tekið ákvörðun um að gera það ekki. Varane gekk til liðs við United frá Real Madrid sumarið 2021 fyrir 40 milljónir punda og á að baki 76 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað tvö mörk.