Úkraínufólk Margir frá hinu stríðshrjáða landi hafa flust til Íslands.
Úkraínufólk Margir frá hinu stríðshrjáða landi hafa flust til Íslands. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Alls 61,8% íbúa í Mýrdalshreppi eru með erlent ríkisfang og hvergi á landinu er hlutfallið jafn hátt og þar eystra. Í Mýrdalnum, þar sem Víkurþorp er kjarninn, búa í dag 976 manns og af þeim eru erlendir ríkisborgarar 603 talsins. Íslendingar sem búa í sveitarfélaginu eru 373 eða 38,2%. Verulega hallar svo á konurnar í hópi Mýrdælinga; þær er 335 en karlarnir 431.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls 61,8% íbúa í Mýrdalshreppi eru með erlent ríkisfang og hvergi á landinu er hlutfallið jafn hátt og þar eystra. Í Mýrdalnum, þar sem Víkurþorp er kjarninn, búa í dag 976 manns og af þeim eru erlendir ríkisborgarar 603 talsins. Íslendingar sem búa í sveitarfélaginu eru 373 eða 38,2%. Verulega hallar svo á konurnar í hópi Mýrdælinga; þær er 335 en karlarnir 431.

„Ferðaþjónustan hér í Mýrdal komst á skrið eftir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Slíkt kallaði á starfsfólk sem margt hefur komið frá útlöndum. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað á um það bil áratug,“ segir Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri.

Í Mýrdal hefur nú sest að fólk af ýmsu þjóðerni; svo sem Pólverjar, Litháar, Grikkir, Spánverjar, Bretar og Úkraínufólk. Þetta segir Einar að hafi um margt breytt samfélagsgerðinni á svæðinu og við því hafi verið brugðist á ýmsa vegu, svo sem í þjónustu sveitarfélagsins. Þannig hafi í stjórnkerfinu verið sett upp enskumælandi ráð; vettvangur fólks með annað móðurmál en íslensku. Þar gefist nýjum íbúum kostur á að bera saman bækur sínar og koma með tillögur til sveitarfélagsins og stjórnenda þess um úr hverju megi bæta.

Í Skaftárhreppi, það er Kirkjubæjarklaustri og nálægum sveitum, eru íbúarnir nú 703. Íslenskir ríkisborgarar þar eru 56% en erlendir ríkisborgarar 44%. Meginástæða þessa er hin sama og í Mýrdal; ferðaþjónustan þarf fólk í vinnu.

Hæst hlutfall erlendra ríkisborgara á höfuðborgarsvæðinu er í Reykjavík, eða 22,3%. Þar að baki eru 32.086 íbúar en Reykvíkingar eru alls 111.492. Sé litið til einstakra hverfa er fólk af erlendu þjóðerni mjög áberandi í til dæmis Efra-Breiðholti eða um þriðjungur íbúa þar. Þá eru um 20% Árbæinga fólk frá útlöndum. Hæst er þetta hlutfall þó á Kjalarnesi, þar eru um ¾ íbúa erlendir; gjarnan þau sem sinna landbúnaðarstörfum, svo sem á svína- og kjúklingabúum, í þessu úthverfi borgarinnar.

Margir af erlendum uppruna á Vestfjörðum

Í Kópavogi eru erlendir ríkisborgarar nú 14,2% íbúa og í Hafnarfirði er hlutfallið orðið 16%. Á bak við þá hlutfallstölu á síðarnefnda staðnum eru 5.050 manns,

Á Vestfjörðum er algengt að í hverju sveitarfélagi séu 20-30% íbúa erlendir ríkisborgarar. Fullorðnir í þeim hópi eru þá gjarnan hryggurinn í atvinnulífi hverrar byggðar, til dæmis í fiskvinnslunni. Svipaðar tölur um erlent fólk er að finna í sjávarþorpunum Snæfellsbæ, Þorlákshöfn og Grindavík. Í Reykjanesbæ eru útlendingarnir nú orðnir samtals 7.721 eða 33,1% af 23.319 bæjarbúum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson