SÞ Friðargæsla í fjarlægu landi.
SÞ Friðargæsla í fjarlægu landi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni af 75 ára afmæli Félags Sameinuðu þjóðanna Íslandi sem er um þessar mundir er nú efnt til samkeppni meðal nemenda í 8.-10. bekk grunnskóla svo og framhaldsskóla um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Í tilefni af 75 ára afmæli Félags Sameinuðu þjóðanna Íslandi sem er um þessar mundir er nú efnt til samkeppni meðal nemenda í 8.-10. bekk grunnskóla svo og framhaldsskóla um mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þá er sérstaklega horft til þess hvernig markmiðin góðu, sem öll lúta að sjálfbærri þróun, stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

„Við viljum heyra frá ungu fólki og heyra hvaða máli því finnst heimsmarkmiðin skipta. Viðbrögðin hafa verið sterk og áhuginn virðist vera mikill. Krakkarnir taka þátt í þessari keppni hvert á sínum forsendum. Mikilvægast er að þetta framtak skapi umræðu og virki fólk til þátttöku,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags SÞ, í samtali við Morgunblaðið.

Efni má skila í ritmáli með eða án mynda. Texti að lágmarki 200 orð getur verið t.d. skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð eða saga. Sérstaklega horfir dómnefnd til þess að innsend erindi endurspegli persónulega sýn þátttakenda. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Félags Sþ, er formaður dómnefndar.

Öllu efni skal skila á netfangið felag@un.is. Skilafrestur er til og með 15. janúar nk. og tilkynnt verður svo um sigurvegara í janúarlok. Tveir verðlaunahafar vinna ásamt forráðamanni flug með Icelandair til New York, fá svo gistingu þar í borg, kynnast starfsemi fastanefndar Íslands hjá SÞ og heimsækja höfuðstöðvar samtakanna. Hægt er að kynna sér málin betur á vefsetrinu un.is. sbs@mbl.is