Hallormsstaðaskógur Frá Lagarfljóti nær skógurinn langt upp hlíðar.
Hallormsstaðaskógur Frá Lagarfljóti nær skógurinn langt upp hlíðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Land og skógur, þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda, varð formlega til nú um áramótin og starfsemi hefst í dag. Skógræktin og Landgræðslan heyra nú sögunni til en mynda kjarnann í nýrri stofnun sem hefur engar formlegar höfuðstöðvar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Land og skógur, þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda, varð formlega til nú um áramótin og starfsemi hefst í dag. Skógræktin og Landgræðslan heyra nú sögunni til en mynda kjarnann í nýrri stofnun sem hefur engar formlegar höfuðstöðvar.

„Ætli einhver að senda okkur hefðbundið bréf stílast það á Gunnarsholt á Rangárvöllum en lögheimilið og ein af 18 starfsstöðvum er þar. Höfuðstöðvarnar verða annars stafrænar. Allt er þetta í samræmi við nýja tíma og aðferðir; starfað er þvert á svið og viðfangsefni leyst í hópum sem funda gjarnan yfir netið, starfsstöðvar eru annars vítt og breitt um landið og á þeim stöðum þar sem hentar og í nálægð við staðbundin verkefni,“ segir Ágúst Sigurðsson forstjóri.

Vakta auðlindir og nýta með sjálfbærni

Rannsóknir, eftirlit og fræðsla eru kjarnaþættir í starfsemi Lands og skógar. Inntak starfsins er að bæta og vakta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands, nýta land af sjálfbærni, draga úr losun og stuðla að bindingu kolefnis, virkja almenning og hagsmunaaðila til þátttöku í endurheimt og uppbyggingu vistkerfa og fræða um land og skóga. Markmið stjórnvalda um þau efni eru skýr.

Til næstu ára er byggt á nýrri stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt og sérstakri aðgerðaáætlun sem henni fylgir. Til þessa mun starfsfólk Lands og skógar sinna vísindavinnu og starfa í samræmi við þessa opinberu stefnu og framtíðarsýn. Úti á mörkinni er stór hluti af starfinu að hafa umsjón með og sinna þjóðskógum, löndum og landgræðslusvæðum. Þó er stórum hluta landgræðslusvæða og skóga landsins í dag sinnt af bændum.

Land og loftslag

Að bæta auðlindir er eitt af markmiðum Lands og skógar, m.a. að auka viðnámsþrótt og þanþol vistkerfa gagnvart áföllum og náttúruvá, eins og segir í kynningu. Einnig að sjá til þess að skógrækt stuðli að verndun jarðvegs. Þá skal nýting lands vernda og endurheimta líffræðilega fjölbreytni og byggja upp orku- og næringarforða. Nýting skóga skal vera sjálfbær svo nytjar skili sem mestu til samfélagsins, sbr. þá bændaskógarækt sem víða er stunduð í sveitum landsins.

Ræktun skóga er einnig ætlað að binda kolefni en í því felast mikilvægar aðgerðir í loftslagsmálum. Raunar má minna á að fyrr á tíð voru landgræðsla og skógrækt gildur þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Síðan hafa markmiðin breyst og því má velta upp hvort loftslagsmál séu í dag orðin að einhverju leyti ígildi fullveldisbaráttu í samfélagi þjóðanna.

Endurheimt votlendis mikilvæg

En hver er staða lands og skóga í dag og hver eru stóru verkefnin? Stundum koma þeir dagar sunnanlands og á NA-landi að brún muska liggur í loftinu svo tekur fyrir fjallasýn. Samkvæmt því er víða verk óunnið, en Ágúst Sigurðsson segir stöðuna þó hafa batnað verulega í seinni tíð.

„Verkefnin nú eru talsvert önnur en í árdaga landgræðslu á Íslandi á öndverðri 20. öld. Þá hafi áherslan verið á að stöðva sandfokið og hefta jarðvegseyðingu í byggð. Því miður þekkist enn uppblástur þó hann sé nú mun staðbundnari og í flestum tilvikum fjær byggð en áður var. Þá má segja að áður fyrr var markmiðið fyrst og fremst að endurheimta landbúnaðarland en nú er horft til þess að endurheimt vistkerfi geta veitt mun fjölbreyttari þjónustu en áður voru hugmyndir um,“ segir forstjórinn.

Í landgræðslu í dag er unnið á um 285 þúsund hekturum lands. Þar eru undir meðal annars Hólasandur og Dimmuborgir í Suður-Þingeyjarsýslu, Hafnarsandur við Þorlákshöfn og Hekluskógar á Suðurlandi. Á landgræðslusvæðum er unnið að fjölbreyttum verndar- og endurheimtarverkefnum, s.s. stöðvun hraðfara jarðvegsrofs, endurheimt mólendis, birkivistkerfa og votlendis en áætlanir eru um að ná að endurheimta um 100.000 ha. raskaðs þurrlendis á næstu árum, einkum hnignaðs mólendis.

„Það er mikilvægt að endurheimta votlendi á Íslandi, en um helmingi alls þess hefur verið raskað. Sumt af því var gert á sínum tíma af brýnni nauðsyn, vegna m.a. fóðurframleiðslu í landbúnaði. Einnig og að hluta þar sem þekkingu á mikilvægi votlendis fyrir samspilið í lífríkinu skorti. Fram til ársins 2031 er ætlunin að endurheimta um 15.600 ha. af röskuðu votlendi. Ef við svo lítum til skógræktar þá er áhugavert að kynna sér frumkvöðlastarf þar. Lengi var litið svo á að ræktun skóga hérlendis væri nánast óvinnandi vegur. En raunin varð önnur,“ segir Ágúst og heldur áfram:

„Samkvæmt mælingum þekja birkiskógar nú um 1,5% af flatarmáli Íslands og ræktaðir skógar um 0,5%. Þetta eru ekki mjög stórar tölur en samt mikil breyting frá því sem var fyrir ekki svo mörgum áratugum. Áætlanir til næstu ára eru um að endurheimta náttúrulega birkiskóga þannig að þeir þeki um 5% af flatarmáli landsins og gert er ráð fyrir nýjum ræktuðum skógum á 15.000 ha. lands og ræktaðir skógar þeki þá um 0.65% landsins. Og varðandi landgræðslu man ég, uppalinn á Rangárvöllum, vel þá tíma þegar sandurinn smaug um allt svo fólk og fénaður bókstaflega bruddi hann milli tanna.“

Stjórnvöld hafa nýlega markað stefnu í landgræðslu og skógrækt til næstu ára. Því liggja einstök áherslumál og verkefni ljós fyrir fyrir,“ segir Ágúst. „Ég tel ljóst að verulegur kraftur verði settur í þrjú viðfangsefni sem okkur eru ætluð, þ.e. kortlagningu ræktunarlands, innleiðingu reglna um sjálfbæra landnýtingu og í þriðja lagi endurheimt votlendis.“

Samvinna og vísindi

Hjá Landi og skógi verður unnið eftir fléttuskipulagi. Hlutverk forstjóra er forysta, samræming og yfirsýn en fagsviðin fimm eru sjálfbær landnýting, þjóðskógar og lönd, rannsóknir og þróun, ræktun og nytjar og endurheimt vistkerfa. Þá eru tvö svið stoðþjónustu, það er gögn, miðlun og nýsköpun og fjármál og þjónustumiðstöð. Sviðsstjórar mynda síðan framkvæmdaráð ásamt forstjóra.

„Samvinna er lykilorð í starfsemi Lands og skógar. Nálgast þarf verkefnin með vísindalegum hætti en einnig þarf að byggja á reynslu og staðbundinni þekkingu bænda og landeigenda, Þá er mikilvægt að vel takist til með samstarf við innlendar sem erlendar rannsóknarstofnanir. Og ef okkur á að takast ætlunarverkið að ná framúrskarandi árangri við að bæta gróður og jarðvegsauðlindir þjóðarinnar og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra þá þurfum við Íslendingar að standa þétt saman,“ segir Ágúst að síðustu.

Hver er hann?

Ágúst Sigurðsson, f. 1964, er menntaður í búvísindum og doktor í erfðafræði frá sænska landbúnaðarháskólanum í Uppsölum. Var landsráðsnautur í búfjárerfðafræði og hrossarækt hjá Bændasamtökum Íslands og 2004-2014 rektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ágúst var sveitarstjóri Rangárþings ytra 2014-2022 og sl. haust skipaður forstöðumaður Lands og skógar.

Ágúst hefur gegnt ýmsum stjórnar- og nefndastörfum tengdum landbúnaði, landgræðslu, hrossarækt og háskólamálum og skrifað margt vísindatengt um þau mál.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson