Þessi staka fylgdi ráðningu Helga R. Einarssonar á laugardagsgátunni: Haustið liðið, hækkar á himni blessuð sólin. Hlýjar kveðjur okkur frá allir fá um jólin. Og með sinni lausn sendi Erla Sigríður Sigurðardóttir þessa limru til gamans: Ljót var nú löppin hans Dóra, og læknirinn ekkert að slóra

Þessi staka fylgdi ráðningu Helga R. Einarssonar á laugardagsgátunni:

Haustið liðið, hækkar á

himni blessuð sólin.

Hlýjar kveðjur okkur frá

allir fá um jólin.

Og með sinni lausn sendi Erla Sigríður Sigurðardóttir þessa limru til gamans:

Ljót var nú löppin hans Dóra,

og læknirinn ekkert að slóra.

Í aflimun fór,

og upp vaknar mjór,

því á vantar útlimi fjóra.

Á Boðnarmiði yrkir Jón Atli Játvarðarson:

Jólalögin glymja í öllum græjum,

geta fáir notið eða skilið.

Snjótittlingar snöfla eftir fræjum

og snýta sér í vænginn bak við þilið.

Ekki fór hjá því að upp rifjaðist staka Páls lögmanns Vídalíns:

Einatt liggur illa á mér,

ekki eru vegir fínir.

Heilir og sælir séu þér,

snjótittlingar mínir.

Mér hefur alltaf þótt gaman að þessari stöku:

Einu sinni karlinn kvað

við kerlinguna sína:

Mikið gerir ellin að

ég ætlaði varla að geta það.

Kristján Karlsson orti:

Af ástæðum ótilgreindum

ef til vill flóknum og leyndum

hann gat ekki pissað

sem gjörði oss svo hissa að

við gátum ei heldur sem reyndum.

Þá er limra eftir Mývetninginn Friðrik Steingrímsson:

Lífsvon hér ei mýið á sér

aldrei það framar mun ná sér.

Það er svakaleg neyð,

þetta sagð’ann um leið

og hann sópaði flugunum frá sér.

Í Leir segir frá því að Óttar Einarsson, búsettur í Þistilfirði, orti í lok tuttugustu aldar, er hann var orðinn langeygur eftir vori:

Norðangarrinn nakta jörð

nótt sem daga lemur.

Þá er vor um Þistilfjörð

þegar hrafninn kemur.

Indriði á Fjalli orti og kallar Strangur og þolinn:

Forðast gerði hann fíflslegt mas.

Frá sér numinn guðspjöll las.

Heyrði hann Edens gróa gras

gegnum jarðneskt argaþras.

Aldrei veitti hann öðrum baun.

Á þá deildi, er blésu í kaun.

Mjög vel þoldi 'ann marga raun:

Minni starfa, hærri laun.