Losunarstaður Fullir grenndargámar Sorpu við Bústaðaveg.
Losunarstaður Fullir grenndargámar Sorpu við Bústaðaveg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sorpa mun taka við söfnun á textíl á grenndar- og endurvinnslustöðvum nú um áramótin. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fram á síðasta stjórnarfundi Sorpu. Samkvæmt því hefur tæknimannahópur sveitarfélaga og Sorpu lýst þeirri afstöðu sinni …

Sorpa mun taka við söfnun á textíl á grenndar- og endurvinnslustöðvum nú um áramótin. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fram á síðasta stjórnarfundi Sorpu.

Samkvæmt því hefur tæknimannahópur sveitarfélaga og Sorpu lýst þeirri afstöðu sinni að farsælast væri að Sorpa myndi bæta söfnun á textíl við söfnun á grenndarstöðvum.

Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs tók gildi í upphafi síðasta árs. Kveða lögin á um að sveitarfélögum beri skylda til að tryggja söfnun á textíl í nærumhverfi og eftir lagabreytingarnar bera sveitarfélög ótvírætt ábyrgð á söfnun og meðhöndlun á textíl.

Umfangið of mikið

Hingað til hafa mannúðarsamtök safnað textíl á höfuðborgarsvæðinu, ýmist á grenndarstöðvum eða öðrum svæðum. Rauði krossinn safnar textíl á um það bil þriðjungi grenndarstöðva Sorpu, sem eru um 90 talsins.

Sorpa segir að samtal við Rauða krossinn hafi leitt í ljós að Rauði krossinn telur sér ekki fært að safna textíl á öllum grenndarstöðvum eins og sveitarfélögin þarfnast.

Vegna aukins úrgangs í kjölfar umræddra breytinga segist Sorpa koma til með að kalla eftir endurskoðun á samningi Sorpu og sveitarfélaganna um rekstur grenndarstöðva og endurvinnslustöðva.