Jóhanna Sigríður Sverrisdóttir fæddist á Stöðvarfirði 12. maí 1950. Hún lést á Hrafnistu Skógarbæ 4. des. 2023.

Foreldrar hennar voru Ljósbjörg Guðlaugsdóttir frá Skagaströnd, f. 7. nóv. 1924, d. 11. apríl 2015 og Sverrir Ingimundarson, f. 26. ágúst 1918, d. 6. janúar 1993. Þau bjuggu í Bræðraborg á Stöðvarfirði. Jóhanna var fjórða í röð sjö systkina, elst var Dagný, f. 15. mars 1945, d. 27. okt. 2021, næstur var Ingimundur, f. 24. apríl 1946, d. 19. maí 1965, þá Áróra María, f. 5. janúar 1948, yngri systkini Jóhönnu eru þau Rannveig Sigrún, f. 30. janúar 1956, Lúðvík, f. 13. ágúst 1958 og Sveinbjörn, f. 10. mars 1960.

Með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Aðalsteini Ísfjörð Jónssyni, eignaðist Jóhanna þrjú börn: 1) Jón Ísfjörð, f. 6. apríl 1971, giftur Ingu Sigrúnu Atladóttur, með fyrrverandi eiginkonu sinni, Hafdísi Guðfinnu Vigfúsdóttur, eignaðist hann tvö börn, Jóhönnu Björgu og Jóhannes Ísfjörð. 2) Bjargþór Ingi, f. 7. apríl 1972, kvæntur Arizaida Josefina Flames Maza. Bjargþór á fimm börn, elstur er Jóhann ísfjörð, barnsmóðir Anna Elín Jóhannsdóttir, næstelstur er Júlíus Rúnar, barnsmóðir og fyrrverandi sambýliskona Aldís ólöf Júlíusdóttir. Með fyrrverandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Ólöfu Reynisdóttur, á Bjargþór þrjú börn: Söru Mjöll, Ingimund Frey og Lýdíu Líf. 3) Ljósbjörg Ósk, f. 28. mars 1975. Hún á þrjá syni, Odd Árna og Daníel Snorra með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Guðlaugi Árna Oddssyni, og Mikael Mána með fyrrverandi sambýlismanni, Geir Ólafi Sveinssyni. Einnig á Lóa tvö barnabörn: Tristan Daða og Leu Rut Daníelsbörn, sambýliskona Daníels er Sara Sif Liljarsdóttir.

Jóhanna var í sambúð með Aðalbergi Snorra Árnasyni, f. 29. okt. 1954, d. 20. maí 2014, saman eignuðust þau soninn Einar Finn, f. 25. sept. 1982.

Jóhanna fæddist og ólst upp á Stöðvarfirði, fór í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað ung að árum. Bjó meðal annars í Neskaupstað, Reykjavík, á Suðureyri, Siglufirði og í Mývatnssveit.

Útför Jóhönnu fór fram 13. desember 2023.

Elsku hjartans Jóhanna frænka, þú varst gull af manni.

Það var einhvern veginn þannig að það var ekkert partí eða samkvæmi byrjað fyrr en Jóhanna frænka var mætt – það var einhvers konar driffjöður sem kom í hús með þér, sem betur fer varstu ötul að koma og þurfti lítið tilefni til að þú renndir austur og tækir þátt í gleðskapnum.

Talandi um samkvæmi í þinni gömlu heimabyggð þá er mér minnisstæður hlátur þinn þegar þú lýstir því nokkrum sinnum fyrir mér þegar þú komst í Stöð þegar það hóf göngu sína, líklega árið 1996. Þú ásamt foreldrum mínum varst á leið heim af ballinu og þú segist hafa sagt við pabba (mág þinn) að þig langi svo í svona fána sem hangi í ljósastaurunum og spyrð pabba hvort hann sé ekki til í að sækja einn fyrir þig! Það sem þú gast hlegið þegar þú segir hann hafa snarað upp vasahnífnum, sett milli samanbitinna varanna og rennt sér svo fimlega upp staurinn og sótt fánann, með þig hvetjandi sig áfram en móður mína letjandi. En svona varstu, alltaf til í smá fíflagang og sprell. Ég undraðist í fyrstu þegar ég hugsa til þess að þarna eruð þið nær fimmtugu, enn að gera prakkarastrik, en svo man ég – þetta voru bara þið.

Ófáar minningar á ég og svo börnin mín um þolinmæði þína við að spila við okkur, og svo hlóstu alltaf þegar þú vannst og auðvitað fengum við líka að vinna, oft fyrir yfirsjón þína á því sem fram fór á spilaborðinu. Góðmennska, hjartahlýja og notalegar samverustundir eru þær minningar sem streyma upp þegar ég hugsa til þín.

Enda var alltaf svo yndislegt að kíkja við hjá þér hvar sem það var – alltaf komstu færandi hendi með hlaðborð þótt maður segðist bara rétt vera að kíkja við. Í því samhengi er oft búið að minnast á það langbesta rækjusalat sem dóttir mín hafði á ævinni smakkað enda stóð hún algerlega á beit í salatinu, sem þér leiddist ekki. Get enn hlegið að því þegar þú fórst svo fram í eldhús að sækja meiri góðgerðir og gólaðir upp og svo hlóstu svo innilega að tárin runnu niður kinnarnar og við ætluðum aldrei að átta okkur á af hverju þú hlóst svona mikið. Loks gastu stunið því upp, „rækjurnar“, og hvað með rækjurnar Jóhanna – fyrir rest kom það, þú hafðir sem sagt gleymt að setja rækjurnar í salatið!

En svona varstu, gast spaugað og gert mikið og innilegt grín að sjálfri þér, fýlunni var ekki fyrir að fara í kringum þig, seinast þegar ég sá spaugilega svipinn þinn og glottið var fyrir nokkrum árum þegar við mamma komum til þín og mamma var að stríða þér eins og ykkur var lagið að láta hvor við aðra, þegar þú lítur upp og segir: „Jú víst, þetta er hún Valborg mín.“ Þessi minning yljar á svona stundum, en þarna varstu farin að fjara frá okkur.

Hvíl í friði elsku frænka, vona svo innilega að þið mamma sitjið saman yfir kaffibolla, spjalli og spaugi í sumarlandinu.

Þín frænkuskotta,

Valborg.