Ninna Sif Svavarsdóttir
Ninna Sif Svavarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir sóknarprestur í Hveragerði og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindarkirkju verða í kjöri til embættis biskups Íslands nú á útmánuðum, fái þau til þess áskilinn fjölda tilnefninga. Þetta staðfestu þau í samtölum við Morgunblaðið nú um áramótin. Þegar höfðu sr. Guðrún Karls Helgudóttur prestur í Grafarvogi í Reykjavík og sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prestur við Háteigskirkju og prófastur í Reykjavík vestur, lýst áhuga sínum á því að komast í biskupsstól.

Tilnefningar til embættis biskups skulu sendast inn dagana 1.-6. febrúar næstkomandi. Á þeim dögum senda prestar og djáknar inn tilnefningar um þá þrjá kandídata sem þeir gætu hugsað sér sem biskup. Þau þrjú sem flestar tilnefningar hljóta verða svo í kjöri sem fer fram í marsmánuði. Atkvæðisrétt hafa prestar, djáknar, sóknarnefndarfólk, kjörfulltrúar prestakalla og fulltrúar á kirkjuþingi.

Kirkjan efli samkennd og von

„Það má segja að í mér búi löngun til að verða að liði og köllun til þjónustu á vettvangi kirkjunnar. Þess vegna gef ég út að ég taki tilnefningum verði þær einhverjar,“ segir sr. Ninna Sif. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu prestar á Suðurlandi og raunar fleiri hafa lagt að Ninnu Sif að gefa kost á sér. Hún hefur starfað sem prestur frá 2011; fyrst á Selfossi og frá 2019 í Hveragerði hvar hún hefur búið síðastliðin 19 ár. Hún var formaður Prestafélags Íslands í fjögur ár.

„Samfélag okkar þarfnast kirkju sem eflir samkennd, von og bjartsýni. Kirkjan og boðskapur hennar eru algild sannindi enda þótt aðrar aðstæður breytist og þeim þurfi að mæta,“ segir sr Ninna.

Áskoranir úr ýmsum áttum

Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson segir að þegar tilnefnt hafi verið til Skálholtsbiskups síðastliðið sumar hafi nafn hans óvænt verið ofarlega á blaði, en hann hafi ekki sóst eftir því. Í framhaldinu hafi verið skorað á hann úr ýmsum áttum að taka tilnefningu til biskups Íslands þegar þar að kæmi. „Ef prestar og djáknar treysta mér mun ég taka tilnefningu. Ef ekki þá hef ég alltaf að góðu að hverfa því ég elska að þjóna Lindakirkju. Ég hef leitt safnaðarstarfið í einni stærstu sókn landsins í rúm 20 ár. Þar höfum við byggt upp opið, fjölbreytt og lifandi starf, þar sem við reynum að koma til móts við mismunandi þarfir fólks í nútímanum. Ég hef alltaf brunnið fyrir þessu verkefni og ekkert verið að hugleiða að sækjast eftir biskupsembættinu hingað til,“ segir sr. Guðmundur Karl. Hann vígðist til prests árið 1996. Fyrstu árin var hann skólaprestur Kristilegu skólahreyfingarinnar, en þjónaði einnig í Skagastrandarprestakalli og í Hjallakirkju. Lindakirkju í Kópavogi hefur hann þjónað frá stofnun safnaðarins þar árið 2002.

Eins og björgunarsveitir

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir lætur í sumar af embætti biskups Íslands sem hún hefur gegnt frá 2012. Í gær flutti hún sína síðustu nýárspredikun og ræddi þar traust í samskiptum.

„Þegar eitthvað bregst eða einhver bregst missum við traustið. Það er sýnilegt í okkar samfélagi og víðar um veröld að skortur á trausti er til staðar. Árlega eru gerðar kannanir sem sýna traust til stofnana og eru margar opinberar stofnanir þar á blaði sem njóta sífellt minna trausts en áður. Ástæðurnar geta verið margar,“ sagði sr. Agnes. Nefndi að þjóðkirkjan hefði komið illa út í þessum könnunum. Í sínum huga væri hin eiginlega kirkja þó fólkið sem ann sinni sóknarkirkju, þar sem mikilvæg nærþjónusta væri veitt. Ekki væri þar að sjá að neikvæðni eða skort á trausti. Í kirkjustarfi væri bæði skipulagðar athafnir og svo væri líka brugðist við þegar óvæntir atburðir koma upp á og vá steðjar að.

„Þá er það þjóðkirkjan sem kallar saman með engum fyrirvara enda er hún eins og björgunarsveitirnar, alltaf reiðubúin þegar kallið kemur,“ sagði biskup.

Veit hvers við þörfnumst

En hvernig getum við treyst því að allt fari vel, þegar vextir hækka og afborganir lána hækka sem margir eru að sligast undan. Þegar matvara hækkar svo mjög að æ fleiri hafa ekki efni á því að kaupa nauðsynjar. Þegar jörð skelfur og eldar loga úr iðrum jarðar. Þegar daglega berast fréttir af aftöku saklausra borgara. Þegar afleiðingar loftslagsbreytinga valda flóðum og ofsaveðri. Þegar börn eru munaðarlaus víða um heim. Að þessu spurði Agnes M. Sigurðardóttir og sagði að þá skyldum við taka þann á orðinu sem vissi hvað í manni býr. – „Jesús þekkir okkur hvert og eitt. Hann veit hvers við þörfnumst. Sé það okkar vilji að breyta lífinu og bæta það þá er hann með okkur í liði,“ sagði biskup og svo í niðurlagsorðum:

„Í erfiðum aðstæðum vonum við það besta. Við hugsum til Grindvíkinga sem hafa þurft að fara af heimilum sínum og vita ekki hvenær mannlífið og atvinnulífið í bænum kemst í eðlilegt horf. Á meðan gefur vonin djörfung og dug og allir sem að koma leggja sig fram um að standa vaktina með þá von í brjósti að fyrr en síðar sjái fyrir endann á þessu óvissuástandi. Megi vonin vera haldreipi Grindvíkinga sem og annarra sem búa við óvissuástand.“