Árný Björnsdóttir fæddist í Brekku í Glerárþorpi á Akureyri 2. september 1941. Hún lést á bráðamóttöku Landspítalans 5. desember 2023.

Árný ólst upp í Glerárþorpi á Akureyri, í hópi sex systkina. Foreldrar hennar voru Björn Hallgrímsson, f. 1898, d. 1960, og Sigríður Ólafsdóttir, f. 1906, d. 1991. Systkini Árnýjar voru: Kristbjörg Ólafía, f. 1929, d. 1992, Hreinn, f. 1930, d. 1983, Stefán Hallgrímur, f. 1935, d. 2020, Sigurbjörn, f. 1945, d. 2010, og Elsa, f. 1951, d. 2023.

Árný eignaðist Sigríði Björgu Sturludóttur 1960. Dóttir hennar er Árný Eva, f. 1979. Börn Árnýjar Evu eru Björn, f. 2003, og Birta, f. 2005. Eiginmaður Sigríðar var Þórhallur Björnsson, f. 1948, d. 2015.

Árið 1965 giftist Árný Óskari Leifssyni, f. 1939, d. 1986. Dóttir þeirra er Ellen, f. 1972. Eiginmaður Ellenar er Jón Víðir Birgisson, f. 1972. Börn þeirra eru Óskar Jóel, f. 1996, Aron Ingi, f. 2000, og Katla Bríet, f. 2008.

Árný vann m.a. hjá smjörlíkisgerðinni Flóru og á Sjúkrahúsinu á Akureyri ásamt því að vera heimavinnandi húsmóðir. Henni var margt til lista lagt og saumaskapur, kortagerð og að mála myndir átti hug hennar allan og þeim hugðarefnum sinnti hún allt til loka.

Árný bjó nær alla tíð á Akureyri, fyrir utan tvö ár á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu mánuðina bjó hún á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjavík.

Útför Árnýjar fór fram í kyrrþey að hennar ósk.

Fyrstu ástina, fyrsta kossinn, fyrstu snertinguna, fyrsta orðið og fyrsta knúsið fékk ég frá þér, elsku mamma, Blúndunni minni sem var mér allt. Þú elskaðir skilyrðislaust, varst umhyggjusamari, hjálpsamari og kærleiksríkari en nokkur annar við mig og mitt fólk, allt mitt líf. Mamma fékk sinn skerf af verkefnum í lífinu, þau efldu hana, gerðu hana sterkari, auðmjúkari, einnig ákveðna og þvera. En þessir eiginleikar urðu hennar bjargræði í lífsins ólgusjó. Föður mínum giftist hún árið 1965, verður ekkja 44 ára gömul, þá ein með mig á heimilinu. Það má segja að þarna höfum við mamma myndað bandalag, hún sá um mig og ég um hana sem entist okkur ævina hennar. Þessi kona, ótrúlega mamma mín, þurfti þarna að fást við baldinn ungling ein og allt litróf lífsins. Þetta gerði hún af stakri prýði og bar mig og mitt fólk svo í gegnum lífið á höndum sér. Mitt hjarta er brotið á sama tíma og það er yfirfullt af djúpu þakklæti. Ómetanlegt að eiga þessa konu sem fórnaði öllu til að koma mér og mínum sem best út í lífið svo okkur skorti nú ekki neitt. Hlýjan og kærleikurinn í fyrirrúmi enda var hún akkerið og sameiningartáknið fyrir fjölskylduna. Fyrirmyndin mín og nú líka fyrirmynd barnanna minna.

Mamma elskaði fast, hún dáði og elskaði barnabörnin sín meira en orð fá lýst. Hún átti fallegt samband við öll mín börn, ólík, innihaldsrík, dýrmæt og gerði engan mun á milli þeirra. Þetta er það sem gerði hana að bestu og hlýjustu ömmunni enda missir þeirra mikill. Minningarnar eru hins vegar margar og dýrmætar því mamma var jú ein af okkur, við vorum ekki fimm í fjölskyldunni heldur sex, alltaf, og hefðum ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Dýrmætt er mér líka hve fallegt samband hún og Jón minn áttu, þar var gagnkvæm virðing, hrein væntumþykja og húmor sem batt þau sterkum og órjúfanlegum böndum sem aldrei bar skugga á.

Mamma var handavinnukona mikil, saumaði út, málaði kort, myndir og eftir hana liggja ótal listaverk sem eru okkur ómetanleg í dag. Hún bakaði og skreytti bestu kökurnar og enginn gat eldað lambahrygg eins og hún.

Margar dýrmætar minningar koma upp í hugann á þessum tímamótum, ferðirnar erlendis, öll sumrin í sveitinni á Skorrastað þar sem hún naut sín hvað best og í seinni tíð ísferðir, göngutúrar, kaffiboð, góða nótt-símtölin, allt dýrmætt. Fyrst og síðast þakklæti fyrir bestu vinkonu mína, mömmu, án hennar hefði þetta ferðalag aldrei verið svona fagurt, himinninn svona blár, stjörnurnar svona skærar, lífið í öllum sínum regnbogans litum.

Elsku besta mamma mín, hafðu þökk fyrir allt, allt sem þú gafst mér, kenndir mér og varst mér. Ég geymi þig í hjartanu þangað til við hittumst aftur, hjartað mitt slær áfram fyrir þig. Ég elska þig og sakna þín meira en nokkur orð fá lýst og veit satt að segja ekki hvernig ég held áfram án þín.

Frá mér fékkstu síðasta kossinn, síðustu snertinguna, síðasta orðið í eyra og síðasta knúsið og í sumarlandið tekur þú með þér alla ástina sem ég bar til þín í þessu jarðlífi.

Þín að eilífu,

Bimba Rimba – Gúddilína Bambilína,

Ellen Óskarsdóttir.

Elsku amma okkar Árný hefur kvatt okkur í síðasta sinn. Við erum óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar sem við eyddum með henni í gegnum ævina og þá dýrmætu kveðjustund sem við náðum að eiga með henni. Eins mikill og söknuðurinn er strax orðinn situr eftir aragrúi af góðum minningum.

Það var alltaf svo notalegt að heimsækja ömmu heim í Skarðshlíðina. Alltaf ilmur af nýbakaðri köku eða lambahrygg sem enginn getur toppað. Hjá ömmu fengum við alltaf að brasa hvað sem er og fengum allt sem við vildum, sérstaklega kandís. Svo passaði hún alltaf að senda okkur heim með skúffuköku handa þeim sem komust ekki, því amma hugsaði alltaf um alla.

Amma var sterkari en við þangað til á okkar fullorðinsárum og vann okkur í sjómanni alltof lengi. Hún var ekki bara líkamlega sterk, jafnvel var hún sterkari í anda. Hún bar mikla jákvæða orku með sér, sem okkur grunar að hafi meðal annars haldið öllum plöntunum hennar á lífi, plöntum sem við hin næstum eyðilögðum á nokkrum dögum. Þessi orka geislaði með henni og það var ekki hægt annað en að vera glaður þegar amma var á staðnum, enda var hún ekki lengi að koma okkur öllum til að hlæja með sínum einstaka húmor. Við höldum að hún hafi vitað að allir hafi þörf fyrir smá jákvæðni og gleði í lífinu, og ákvað að vera uppspretta þess fyrir okkur sem hana elskuðum. Það ættu allir að vera meira eins og hún.

Amma var svo mikið jólabarn; hún átti flesta pakkana undir jólatrénu og var bara mjög glöð með það. Fyllti heilu pokana af gjöfunum sínum í lok kvölds sem hún stolt bar heim. Gjafmild var hún svo einnig með eindæmum og fengum við barnabörnin svo sannarlega að njóta þegar kom að gjöfum frá henni. Jólagjöfin í ár til hennar og um ókomin ár verður ást og þakklæti að hafa notið þeirra forréttinda að amma Árný var amma okkar og við munum varðveita hana í hjörtum okkar alla tíð.

Eigum eftir að sakna knúsanna og umhyggjunnar sem hún bar svo einlæglega í brjósti sér fyrir okkar velferð. Hún var einstök, með sinn dansandi hlátur, alla svipina sína, handabendingar, og síðast en ekki síst alla brandarana og hnyttnu svörin sem verður svo sárt saknað.

Hafðu þökk fyrir allt elsku amma, við söknum þín og elskum þig, þú varst einfaldlega best.

Þín

Óskar, Aron og Katla.

Elsku Árný.

Uppáhalds „stóra“ frænka mín er farin frá okkur. Hún móðursystir mín var yndisleg í alla staði og munum við sakna hennar sárt. Róleg og ljúf en með lúmskan húmor. Hún var dugnaðarforkur og ótrúlega virk síðustu árin. Við hlógum oft að því hve spræk gamla væri, í betra formi en við! Hún var mjög gjafmild og örlát og var alltaf jafn spennandi að opna gjafirnar sem komu að norðan. Árný var einstaklega handlagin og saumaði mikið út. Ég geymi öll fallegu kortin frá henni og fallegu jólasokkana sem við munum hengja upp hver jól til að minnast hennar.

Árný var fjölskyldumanneskja. Þær mamma áttu fallegt samband og töluðu tímunum saman í síma. Hún sýndi okkur systkinum mikinn áhuga og henni fannst gaman að heyra sögur af stormsveipunum (börnunum) okkar. Hún var afar stolt af dætrum sínum og barnabörnum.

Elsku frænka, mikið er ég þakklát fyrir notalegar stundir með henni. Fyrir norðan leið mér alltaf best og sérstaklega í Skarðshlíðinni. Það verður erfitt að keyra þar framhjá þegar ég kem norður.

Árið 2023 er heldur betur búið að vera erfitt. Lífið án Brekkusystra verður aldrei samt. Ég get þó huggað mig við það að þær dúllurnar séu saman einhvers staðar.

Takk fyrir allt, elsku Árný. Hvíl í friði, fallega, góða sál.

Þín

Berglind.

Feimnislega brosið, þægilega nærveran og hófstillti hláturinn sem samt var svo dillandi. Þannig minnist ég Árnýjar móðursystur minnar sem spilaði stórt hlutverk í mínu lífi. Stóra systir mömmu, eiginkona Óskars, móðir Siggu og Ellenar „frænkusystur“ minnar. Árný varð ekkja aðeins 45 ára og glímdi við ýmiss konar veikindi. Hún tók áföllum af æðruleysi en við höfðum samt áhyggjur af henni. Við Ellen vorum jú bara unglingar þegar Árný fékk kransæðastíflu stuttu eftir að Óskar lést úr krabbameini.

Samband systranna Árnýjar og Elsu var alltaf mikið þrátt fyrir tíu ára aldursmun og það hversu ólíkar þær voru. Árný passaði okkur Óla bróður frá fyrstu tíð og samgangurinn þegar við bjuggum á Akureyri var mikill. Við Ellen ólust upp saman og þráðurinn sem tengdi okkur fjórar var alltaf sterkur. Mamma sagði alltaf að Árný hefði verið blóðheitari þegar hún var yngri og að samskiptin þegar þær bjuggu enn báðar í Brekku hefðu stundum verið lífleg. Árný sem ég kynntist var hins vegar róleg og lét lítið fyrir sér fara. Hún var einstaklega gjafmild og svo rausnarleg við sína nánustu að ég dró fljótt þá ályktun að þetta væri hennar leið til að sýna okkur væntumþykju. Mamma fór sömu leið og þær systur var aldrei hægt að hemja í gjafmildi eða fórnfýsi. Þær settu bara hökuna upp og héldu sínu striki. Við Ellen kölluðum þær systurnar úr Þver-Brekku, svo skemmtilega þrjóskar voru þessar elskur.

Árný stóð með fólkinu sínu og á ögurstundu reyndist hún Elsu litlu systur bjargvættur. Þegar mamma flutti frá Akureyri með tvær hendur tómar var það stóra systir sem kom henni fjárhagslega til hjálpar á erfiðum tímum. Það var ómetanlegt. Mamma kom svo stóru systur til hjálpar þegar hún varð ekkja nokkrum árum síðar. Samband þeirra var aldrei einhliða þótt önnur talaði kannski minna en hin. Það voru einmitt sunnudagarnir sem voru símadagar þeirra systra. Fastur liður í hverri einustu viku, upp úr hádegi og símtölin gátu verið löng. Jafnvel þótt lítið væri að frétta.

Mér þótti óskaplega vænt um þegar Árný hélt upp á sjö ára afmælið mitt skömmu fyrir skilnað foreldra minna, reyndi að passa upp á mig árin á eftir þegar ég var mömmulaus á Akureyri öll sumur, jól og páska fram á fullorðinsár. Allar gistinæturnar og heimsóknirnar í Skarðshlíðina, hlýjuna og ástina sem hún sýndi í verki.

Við fögnuðum saman sextugsafmæli mömmu í frábærri leyniveislu og sama ár flugum við mamma með Árnýju til Englands ásamt dætrum hennar, tengdasyni og barnabörnum til að halda upp á sjötugsafmælið hennar. Ógleymanleg ferð og dýrmæt minning því þetta reyndist eina utanlandsferð þeirra mömmu saman.

Árný var sjötta hjólið undir fjölskylduvagni Ellenar og Jóns, svo samofið var líf þeirra mæðgna. Umhyggja þeirra, ást og stuðningur við Árný var falleg fyrirmynd fyrir Óskar yngri, Aron og Kötlu. Þeirra missir er mikill en ótal minningar munu hlýja.

Dauðsfall mömmu í janúar var stóru systur afar erfitt og það er sárt að þurfa að kveðja þær á sama árinu. Far vel, elsku besta Árný okkar.

Rakel Þorbergsdóttir.

Árný Björnsdóttir, góður vinur allt frá minni barnæsku, er látin 82 ára að aldri. Hún kom barnung austur á Skorrastað í sveit sem kallað var en Árni Jakobsson afabróðir hennar var lengst sinnar ævi hjú hjá Sólveigu Benediktsdóttur ömmu minni og Guðjóni Ármann afa á Skorrastað og var Árni ævinlega einn af fjölskyldunni. Líklega hefur sú tenging ráðið mestu um það að Árný kom fyrst austur með móður sinni að heimsækja Árna.

Adda var hún alltaf kölluð. Ég hef bara sögur frá foreldrum mínum og ættingjum af henni sem barni og unglingi hér á Skorrastað. Þessar sögur lýsa henni sem harðduglegri og samviskusamri. Það voru mörg verkin sem til féllu og sem börn gátu sinnt. Hjálp í fjósverkum, kúarekstur, rifja hey og raka afraki, moka flór, passa yngri börn, sendast og snúast, berjatínsla og svo mætti lengi telja. Einn var sá starfi sem Adda tók þátt í og var oft rifjaður upp á góðum stundum síðar á ævinni. Það var að dæla kúahlandi með handdælu með löngu skafti í stóra trétunnu á hjólum. Sá vökvi var geymdur í lokaðri þró við hlið haughússins. Þá var venjulega viðkvæðið hjá Öddu er þetta var rifjað upp: „Dæla hlandi austur á landi,“ og svo hló hún innilega.

Öll fjölskylda Öddu var líka fjölskylda okkar á Skorrastað. Hjá Siggu mömmu hennar var gist þegar farið var til Akureyrar og síðar hjá Öddu og dætrum hennar á þeirra heimilum. Hún bjó lengi á Hamarstígnum og síðar í Skarðshlíðinni. Heimili hennar voru ætíð einstaklega snyrtileg og smekkleg. Til hennar var gott að koma. Þegar ég var í skóla á Akureyri var ég tíður gestur hjá Öddu. Þá bjó hún á Hamarstígnum og þangað var stutt af heimavistinni. Hjá Öddu fékk ég alltaf góðgerðir, t.d. brauð með bananaáleggi en það vissi hún að var mitt uppáhald. Það var spurt og spjallað um sveitina í Norðfirði, bændur og búalið. Hún var mikil félagsvera og naut sín best í góðra vina hópi og vinirnir og fjölskyldan fyrir austan voru ávallt ofarlega í hennar huga.

Adda, Óskar, eiginmaður hennar og dæturnar með sínum fjölskyldum voru dugleg að heimsækja okkur og dæturnar oft í sveit. Það mynduðust strax vinatengsl við Óskar og því voru þessar heimsóknir á báða bóga afar gefandi.

Móðir mín og Adda voru sérstakar vinkonur. Vinátta þeirra var falleg og fölskvalaus. Þær göntuðust ósjaldan eins og smástelpur og hlógu innilega. Síminn var auðvitað notaður til að halda sambandi og þá heyrði maður á hlátri mömmu að við hinn enda línunnar var líka glatt á hjalla. Ég held að mömmu hafi liðið miklu betur en ella er einkasonurinn fór í skólann á Akureyri af því að Adda bjó þar. Og það var rétt mat hjá móður minni. Og það er ekki ofmælt að Adda og hennar fjölskylda voru allar götur hluti af minni fjölskyldu.

Það er erfitt fyrir marga að horfa á eftir Árnýju yfir móðuna miklu og að koma til Akureyrar án þess að hitta hana yfir kaffi, kökum og spjalli verða mikil viðbrigði. Mest eru þó viðbrigði dætra hennar, Siggu og Ellenar og fjölskyldna þeirra. En minningin um samfylgdina varir.

Allra besta samúðarkveðja til ykkar, kæra fjölskylda.

Þórður Júlíusson.

Hún var ekki há í loftinu litla stúlkan sem kom með Esjunni ásamt móður sinni til að heimsækja Árna Jakobsson frænda sinn sem bjó til margra ára með foreldrum mínum á Skorrastað. Árný var skírð í höfuðið á þessum afabróður sínum. Þetta var fyrsta ferðin hennar Öddu hingað austur en þær áttu eftir að verða margar. Hún undi hag sínum vel með heimilisfólkinu, þar á meðal tveimur öðrum sumarbörnum sem voru hjá okkur á sama tíma. Þetta voru þau Þóra Lóa Óskarsdóttir og Guðni Helgason. Þarna kom í ljós félagslyndi Öddu því þau urðu fljótt samrýnd og vinátta þeirra eftirminnileg. Hún var fljótt hjálpleg og dugleg til allrar vinnu, ekki síst við innanhússverkin.

Adda kom reglulega öll sín unglingsár hingað austur og eftir að hún eignaðist Siggu þá kom hún með hana með sér og síðan var Sigga sumarbarn í mörg ár hjá Jónu systur minni sem einnig bjó á Skorrastað.

Tíminn leið og Óskar og Ellen bættust í hópinn og fjölskyldan kom áfram austur í heimsókn. Óskar féll einstaklega vel inn í hópinn á Skorrastað og það myndaðist afar góð vinátta við hann. Heimsóknir voru reyndar gagnkvæmar því við gistum hjá þeim hjónum eða hjá Siggu þegar við þurftum til Akureyrar. Þá var eins og þau ættu í manni hvert bein, svo góðar voru móttökurnar.

Mér finnst það erfitt að sitja hér og rita þessi kveðjuorð til Öddu, litlu stúlkunnar sem kom að norðan og setti svip sinn á heimilin á Skorrastað til fjölda ára.

Ég vil þakka elsku Öddu minni fyrir verðmæta samveru og bið Guð að styrkja alla afkomendur hennar.

Jóhanna Ármann.