— Unsplash/Gabriel Baranski
Á þessum árstíma er ekki úr vegi að skoða hvað megi betur fara á nýju ári og kannski velta fyrir sér hvað sé hægt að læra nýtt til sjálfseflingar. Leiðirnar eru óteljandi og skiptir máli, ef fólk vill efla sjálft sig, að það sé gaman á þessu lærdómsferðalagi

Á þessum árstíma er ekki úr vegi að skoða hvað megi betur fara á nýju ári og kannski velta fyrir sér hvað sé hægt að læra nýtt til sjálfseflingar. Leiðirnar eru óteljandi og skiptir máli, ef fólk vill efla sjálft sig, að það sé gaman á þessu lærdómsferðalagi. Ef fólk ætlar að hefja nýtt nám þá skiptir máli að það kryddi tilveruna og sé til einhvers. Það lyfti lífinu upp um nokkur þrep og sé ekki grútfúlt og leiðinlegt.

Þetta á þó ekki bara við um fullorðna fólkið í samfélaginu heldur börnin líka. Kannski er 2024 árið þar sem við beinum spjótum okkar að því sem skiptir raunverulega máli eins og til dæmis það að börnin okkar séu læs og skilji tungumálið okkar. Þótt heimurinn sé orðinn alþjóðlegur og það sé mikilvægt að kunna erlend tungumál þá skiptir máli fyrir litla þjóð á lítilli vindasamri eyju að hlúa að tungumálinu sínu. Tungumálið er okkar arfleifð og okkar menning.

Á sama tíma þurfum við að vera nútímaleg í hugsun því heimurinn er að breytast á ógnarhraða. Við þurfum stöðugt að uppfæra okkur ef við ætlum ekki að sitja eftir í reyknum á meðan hinir skara fram úr.

Elísabet Ólafsdóttir, konan sem skrifaði bókina Vaknað í Brussel á sínum tíma, lærði fjarnámskennslu til þess að efla sjálfa sig og auka starfsmöguleika sína. Hún fór í námið með bróður sínum sem býr í Hollandi. Fjarnámskennslunámið var ekki kennt í staðnámi og því náðu systikinin að eiga innihaldsríkan tíma saman þótt þau búi hvort í sínu landinu. Á meðan á náminu stóð var stíf verkefnavinna og var fólki skipt upp í hópa. Elísabet, sem er frekar fyndin að eðlisfari, segir frá því að námið hafi hentað henni mjög vel þar sem hún sé fráskilin og makalaus og hafi því ríflegan tíma fyrir sjálfa sig aðra hverja viku.

Þarna hafi hún náð að láta drauma sína rætast og fundið rútínu sem hentar henni. Fólk sem er í svipuðum aðstæðum ætti kannski að taka Elísabetu til fyrirmyndar. Of algengt er að hinir fráskildu, sem lifa tvískiptu viku og viku lífi, flytji lögheimili sitt á bar þegar það hefur ekki skyldum að gegna. Hina vikuna hafa þeir nefnilega svo miklum skyldum að gegna að þeir hafa ekki orku í neitt annað hina vikuna en að drekka.

Harpa Reynisdóttir skólastjóri Melaskóla segir einmitt frá því hér í blaðinu að grunnskólabörn í dag séu of þreytt því það sé svo mikil dagskrá hjá þeim. Það er alvarlegt mál að börn sinni svo miklu tómstundastarfi að þau nái ekki almennilegri hvíld. Þess á milli eyðileggur kínverska snjallforritið TikTok á þeim heilann. Það hljóta að vera skýr skilaboð til foreldra að nauðsynlegt sé að stytta dagskrána þegar tómstundirnar taka svo mikinn toll að lesskilningur íslenskra barna hefur hríðminnkað.

Tómstundir barnanna okkar eru ekki ósvipaðar tómstundum fullorðinna. Þær verða að vera til yndisauka og ánægju og eiga ekki að koma niður á því sem skiptir raunverulega máli eins og til dæmis að læra það sem lagt er fyrir í skólanum. Auk þess minnist Harpa á að íslensk börn séu alltaf að fá leyfi því þau þurfi að ferðast svo mikið. Hún bendir á að þessi stöðugu frí bitni á getu barna til þess að læra það sem skiptir máli. Auðvitað hljóta öll þessi frí að bitna á börnunum og kannski væri dýrmætara fyrir fjölskyldur að liggja saman uppi í sófa og tala saman í stað þess að vera alltaf á þvælingi út um allt. Það er líka betra fyrir hagkerfið ef við ætlum að ná verðbólgunni niður.

Við ættum kannski að hugsa um þetta tvennt, verðbólgu og nám barnanna, áður en við pöntum næstu ferð til Tene.