Eldarnir Byggingar brenna í Wajima-borg í kjölfar skjálftanna.
Eldarnir Byggingar brenna í Wajima-borg í kjölfar skjálftanna. — AFP
Minnst fjórir létu lífið í öflugum jarðskjálfta sem reið yfir Ishikawa-hérað í Japan í gær. Öflugasti skjálftinn mældist 7,5 að stærð og var í kjölfarið gefin út flóðbylgjuviðvörun. Japönsk yfirvöld segja að stærsti jarðskjálftinn hafi einungis…

Minnst fjórir létu lífið í öflugum jarðskjálfta sem reið yfir Ishikawa-hérað í Japan í gær. Öflugasti skjálftinn mældist 7,5 að stærð og var í kjölfarið gefin út flóðbylgjuviðvörun.

Japönsk yfirvöld segja að stærsti jarðskjálftinn hafi einungis verið einn af fleiri en 50 skjálftum sem mældust yfir 3,2 að stærð.

Miðhluti eyjunnar Honshu varð verst úti í skjálftanum en tilkynnt var um röð smærri flóðbylgna annars staðar, þar á meðal eins langt í burtu og á norðureyjunni Hokkaido.

Japanskar sjónvarpsstöðvar rufu hefðbundna útsendingu sína og sýndu í hennar stað ávarp forsætisráðherrans Fumio Kishida. Hvatti hann íbúa til að rýma strax og skilja eigur sínar eftir. Var fólk hvatt til að leita skjóls hærra í landslaginu, fjarri ströndum.

„Við gerum okkur grein fyrir því að heimili ykkar sem og aðrar eigur séu ykkur mjög kærar. Líf ykkar er þó mikilvægara öllu öðru og þess vegna þurfið þið að hlaupa eins fljótt og þið mögulega getið,“ sagði skelfdur þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni NHK við hlustendur.

Rússar gáfu einnig út flóðbylgjuviðvörun fyrir Sakhalin-eyju og hafnarborgina Vladivostok í austurhluta Rússlands. Norður-Kórea fylgdi í kjölfarið og gáfu yfirvöld þar í landi einnig út viðvaranir.

Um 33.500 heimili í kringum héruðin Toyama, Ishikawa og Niigata, sem voru í kringum miðtök skjálftans, voru án rafmagns í kjölfar hans, að sögn sveitarfélaga á svæðinu. Mörg hús eru sögð hafa hrunið í borginni Suzu og erfiðir eldar brutust út í borginni Wajima.

Flóðbylgja, sem mældist 1,2 metrar að hæð, skall á Wajima-höfn og smærri flóðbylgjur hafa líka mælst.