Mannfjöldi Íbúar á Íslandi verða 400 þúsund innan tíðar.
Mannfjöldi Íbúar á Íslandi verða 400 þúsund innan tíðar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fyrri hluta ársins ætti íbúatala á Íslandi að ná 400 þúsund en samkvæmt tölum sem miðað er við þá vantar rúmlega 1.000 manns upp á. Fjölgunin síðasta áratuguinn hefur orðið hraðari en búist var við

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Á fyrri hluta ársins ætti íbúatala á Íslandi að ná 400 þúsund en samkvæmt tölum sem miðað er við þá vantar rúmlega 1.000 manns upp á.

Fjölgunin síðasta áratuguinn hefur orðið hraðari en búist var við. Til dæmis ef horft er til spár Hagstofunnar frá árinu 2008 þar sem Íslendingar hefðu þá átt að ná 400 þúsund árið 2050.

„Sú spá var mjög góð þrátt fyrir að við náum þessu marki 26 árum fyrr en spáð var. Sú spá gerði ráð fyrir um 0,6% árlegri fjölgun en raunin varð önnur. Sveiflur í íslensku samfélagi voru einfaldlega stærri og meiri en spáin hafði gert ráð fyrir,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Íslensk stjórnvöld og samfélagið í heild geta auðvitað minnkað sveiflur í hagkerfinu með réttum ákvörðunum. Til þess þarf að efla háskólastarf, rannsóknir og kennslu enn betur en gert er nú. Við megum alls ekki slaka á í uppbyggingu fræðigreina hug- og félagsvísinda, áskoranir framtíðarinnar eru of mikilvægar til þess. Það er þess vegna gott til þess að vita að stjórnvöld stefna á að fjármagna háskólastarf á Íslandi á sambærilegan hátt og háskólar eru fjármagnaðir annars staðar á Norðurlöndum.“

600 þúsund árið 2067?

Samkvæmt nýlegum spám gæti íbúum landsins fjölgað um 200 þúsund á næstu fjörutíu árum eða svo.

„Hagstofan gefur reglulega út vandaðar og góðar mannfjöldaspár. Nýleg mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að við náum 600 þúsund manna markinu árið 2067 eða þar um bil. Reyndar er mikil óvissa í slíkri spá eins og mörgum framtíðarspám. Óvissa sem eykst eftir því sem við förum lengra í framtíðina,“ segir Stefán og útskýrir rannsóknaraðferðirnar.

„Mannfjöldaspár eru í senn einfaldar og flóknar. Nútímamannfjöldaspár byggjast á aðeins þremur nokkuð vel skilgreindum atburðum, þ.e. fæðingum, andlátum og búferlaflutningum. Viðfangsefnið verður flóknara þegar við þurfum að setja fram forsendur um breytingar á tíðni þessara atburða þar sem einstaklingar og samfélagið hefur mikil áhrif á. Þar metum við m.a. sögulegar breytingar og breytingar í öðrum samfélögum

Á friðartímum og þegar ekki er glímt við heimsfaraldur sveiflast aldursbundin dánartíðni að jafnaði lítið. Fæðingartíðni breytist nokkuð en sýnu minna en sveiflur í fjölda þeirra sem flytjast til og frá landinu. Við losnum við óvissu um búferlaflutninga þegar við spáum um fjölda jarðarbúa en vandinn eykst þegar við spáum um íbúa í löndum eða hverfum borga. Þrátt fyrir að fæðingar og andlát séu líffræðileg ferli, og þannig hvort tveggja að hluta til viðfangsefni heilbrigðisvísinda, er bæði fæðingar og andlát og allt sem gerist þar á milli markað mjög af samfélagslegum þáttum.“

Áskoranir fram undan

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar hefur verið nokkuð til umfjöllunar enda getur fólk lifað miklu lengur en á síðustu öld með hjálp lyfja og framfara í læknavísindum. Stefán bendir á nokkuð sláandi framtíðarspá í þessu sambandi.

„Það vill oft gleymast hversu mikilvægt er að rækta þær vísindagreinar sem fjalla um samfélagslega þætti sem breytingar á mannfjölda hafa áhrif á. Tökum sem dæmi að frá árinu 2023 til 2073 mun, samkvæmt ofangreindri spá Hagstofunnar, íbúum á Íslandi 80 ára og eldri fjölga úr 13.373 (3,4% af íbúafjölda) í 57.423 (9,4% af íbúafjölda). Þótt þetta sé langtímaspá með töluverðri óvissu þá er nokkuð ljóst að breytingin verður í þessa áttina. Breytingin hefur í raun átt sér stað að einhverju marki undanfarna áratugi. Samsvarandi fjöldatölur og hlutföll voru 581 (0,73%) árið 1903 og 2.163 (1,4%) árið 1953,“ segir Stefán og gangi þetta eftir mun það hafa víðtæk áhrif.

„Breytingarnar munu hafa áhrif á allt samfélagið, ekki aðeins heilbrigðiskerfið og búsetumál aldraðra. Áhrifanna mun gæta á lífeyriskerfið, hagkerfið, vinnumarkaðinn, stjórnarfar, stefnu stjórnmálaflokka, ójöfnuð, glæpi, siði, hefðir, lagasetningu, þörf fyrir umönnun, húsnæðismál, velferðarmál, viðskipti innan og milli landa, stjórnun fyrirtækja og stofnana, markaðsmál, málefni fötlunar, varðveislu menningararfsins, tungumálið, trúmál og siðferði svo nokkur svið hug- og félagsvísinda séu tilgreind. Það er því enn meiri þörf en áður að efla þær fræðigreinar sem sinna þessum málefnum. Öflug kennsla og rannsóknir í félags- og hugvísindum er forsenda þess að unnt sé byggja áfram upp sterkt íslenskt þekkingarsamfélag. Þannig þurfa stjórnvöld og fyrirtæki á öflugum rannsóknum að halda til að bæta ákvarðanatöku til góðra verka.

Þegar ég í námi mínu um aldamótin gagnrýndi mannfjöldaspár almennt fyrir að taka ekki mið af mögulegum hamförum, mannlegum eða náttúrunnar, sem stráfella mannfjöldann, svaraði kennarinn minn í Pennsylvaníu því til að ef til slíkra hamfara kæmi þá væru rangar mannfjöldaspár minnsta áhyggjuefnið. Það gæti orðið raunverulegt áhyggjuefni á næstu áratugum hvort við bregðumst rétt við öldrun mannfjöldans sem ég minntist á hér áðan.