Mótmæli Borgarfulltrúar Kvennalistans á fundi borgarstjórnar 6. júní 1985, Magdalena Schram sem ungfrú spök og Guðrún Jónsdóttir sem ungfrú meðfærileg. Þannig mótmæltu þær kvenímynd karlveldisins og karlrembu.
Mótmæli Borgarfulltrúar Kvennalistans á fundi borgarstjórnar 6. júní 1985, Magdalena Schram sem ungfrú spök og Guðrún Jónsdóttir sem ungfrú meðfærileg. Þannig mótmæltu þær kvenímynd karlveldisins og karlrembu. — Morgunblaðið/Júlíus Sigurjónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 1985 áttu Íslendingar sterkasta mann og fallegustu konu í heimi. Jón Páll Sigmarsson vann titilinn sterkasti maður heims og Hólmfríður Karlsdóttir var krýnd ungfrú heimur

Árið 1985 áttu Íslendingar sterkasta mann og fallegustu konu í heimi. Jón Páll Sigmarsson vann titilinn sterkasti maður heims og Hólmfríður Karlsdóttir var krýnd ungfrú heimur. Hólmfríður hafði lent í öðru sæti í undankeppninni sem fram fór á skemmtistaðnum Broadway í maí. Undankeppnin þótti með glæsilegri skemmtunum landsins og rokkstjarnan Rod Stewart steig á svið. Borgarstjóri Reykjavíkur fékk það hlutverk að krýna fegurðardrottningarnar og við það tækifæri sendi hann skýr skilaboð út í samfélagið: „Ef þessar þrettán föngulegu stúlkur væru Kvennaframboðið myndum við nú ekki bjóða fram. Ég segi þetta nú í trúnaði.“

Guðrún var að störfum á Hótel Vík þegar hún heyrði í útvarpinu hvernig Davíð talaði. „Ég ætlaði upp úr þakinu þegar ég heyrði þetta. Mér var svo misboðið hvernig hann gerði útlitið að kjarna þessara kvenna. Og talaði niður til okkar um leið.“ Hún spratt upp úr stólnum og hóaði saman hópi kvenna sem þar var staddur.

Kvennaframboðskonur ákváðu að verða við áskoruninni og mæta á næsta borgarstjórnarfund uppstrílaðar eins og fegurðardrottningar, í síðkjólum eða sundbolum. Til stóð að fjölmenna á fundinn, en vera prúðar eins og karlar vildu hafa konur, brosa og samþykkja allt sem þeir sögðu. Undirbúningur hófst þá þegar. Þær söfnuðust saman og skiptust á kjólum, bjuggu til kórónur og áletraða borða. Þegar fundur hófst sátu ellefu föngulegar konur á pöllunum og tvær í borgarstjórn. Ingibjörg Sólrún var stödd í opinberri heimsókn í Færeyjum svo Magdalena tók hennar sæti, sem ungfrú spök. „Malla var meiri uppreisnarseggur en Solla. Með innkomu hennar breyttist andinn í borgarstjórn. Það var sem loki væri lyft og undir niðri kraumuðu alls konar hugmyndir.“

Hjördís Hjartardóttir sat ásamt hópi kvenna í áhorfendastúkunni með kórónu og borða. Vegna vinnu hafði hún misst af undirbúningsfundi þar sem konur skiptust á síðkjólum. Fyrst hún átti ekki kjól kom hún askvaðandi á sundbolnum. „Ég var á meðal þeirra síðustu sem mættu á staðinn. Blaðamenn voru komnir og einn var í símanum. Ég heyrði hann kalla eftir ljósmyndara því það væri allt að verða vitlaust í borgarstjórn, á pöllunum væri fullt af konum klæddar eins og fegurðardrottningar og ein á sundbol, sagði hann og bætti við: Og hún er meira að segja svolítið feit!"

Í upphafi fundar steig Guðrún í pontu, íklædd síðkjól, með kórónu á höfði og borða um sig miðja með áletruninni ungfrú meðfærileg. Hún las upp yfirlýsingu frá Kvennaframboðinu:

„Við höfum valið þennan fund borgarstjórnar til þess að mótmæla þeirri kvenímynd, sem haldið hefur verið óvenju sterkt að okkur konum síðustu vikur í tilefni nýafstaðinnar fegurðarsamkeppni. Ástæðan fyrir því að við veljum fund borgarstjórnar sem vettvang mótmæla okkar, er forganga borgarstjóra við að viðhalda áðurnefndri ímynd og ummæli hans við krýningu fegurðardrottningar nýlega. Við það tækifæri gerðist hann opinber fulltrúi karlrembunnar og sýndi sinn innri mann með því að reyna að vera fyndinn á kostnað kvenna.

Við munum því hér á fundinum hegða okkur í samræmi við boðskap þessarar ímyndar til að mótmæla henni og sýna fram á fáránleika hennar. Þessi ímynd karlveldisins er í stuttu máli, að gildi kvenna felist í snotru andliti, grönnu mitti, réttu ummáli brjósta og mjaðma. Þessum þáttum kvenímyndarinnar getum við ekki tryggt að við komum til skila. Móðir náttúra á þar hlut að máli. Hina þætti kvenímyndarinnar, það er að segja skoðanaleysið, virðingu fyrir valdinu og að vera meðfærilegar, ráðum við hins vegar skár við. Til þess að það megi þó gerast, verður nokkur misbrestur á málefnalegri afstöðu okkar á fundinum. Sanni eitthvað mikilvægi kvenfrelsisbaráttu er það sú staðreynd, að þrátt fyrir sívaxandi þátttöku kvenna í alls konar störfum og stjórnmálum, reyna karlar enn að halda á lofti þessari fölsku ímynd. Þrátt fyrir Kvennaframboð og Kvennalista og fjölda kvennahreyfinga, sem hafa sannað fylgi fólks við breytta og raunsannari ímynd kvenna, er karlveldið samt við sig og þar skipar borgarstjóri sjálfan sig í forystusveit. Það er sorglegt að horfa á unga menn í geirfuglshlutverki. Takk fyrir.“

Þegar Guðrún hafði lokið máli sínu var ljóst að konurnar í salnum skildu ádeiluna. Karlarnir vissu ekkert hvernig þeir ættu að bregðast við. Sumir voru eins og álfar að reyna að slá þeim gullhamra. Borgarstjóri fékk orðið og Guðrún lýsir því hvernig hann gekk „eins og naut í flagi, fram og til baka, á bak við ræðupúltið og sagði þetta vanvirðu við borgarstjórn. Ég svaraði því til að við hefðum einmitt verið að vanda okkur við að fara í okkar bestu flíkur. Ég hefði þurft að fá lánaðan kjól því ég ætti ekki einu sinni síðkjól. Þetta væri ekkert minna en kjóll frú Schram og ég skildi ekkert hvers vegna hann léti svona. Hann var ekki kátur, rauk út og skellti á eftir sér. Mér fannst það mjög skemmtilegt.“

Áskorunin fólst fyrst og fremst í því að sitja þöglar hjá og samþykkja málflutning meirihlutans umyrðalaust. Á dagskrá voru mál sem Kvennaframboðið hafði sterka skoðun á. Guðrún átti erfitt með að hleypa þeim athugasemdalaust í gegn, en hverju höfðu þær að tapa? Allan þennan tíma höfðu þær reynt að fá áheyrn en án árangurs. Rödd þeirra var hunsuð. Nú spiluðu þær leikinn á eigin forsendum.

Það kom þó að því að þær héldu ekki lengur út í þessu hlutverki. Þegar til stóð að vísa tillögu um úrbætur á launakjörum starfsfólks dagvistunarheimila aftur í nefnd gat Guðrún ekki setið á sér. „Mér er lífsins ómögulegt að halda út rulluna, þannig að ég ætla að leggja hana til hliðar í bili. […] Tillögur, sem fara frá minnihlutanum og meirihlutinn reynir að afgreiða á þann hátt að senda inn í borgarráð og aðrar nefndir, þær eru þegar komnar í líkkistuna. Það er leiðin sem kerfið hefur til að svæfa málin.“ Margsinnis hefði verið bent á að konur fylltu láglaunastéttir. Umönnunarstörf væru minna metin en önnur störf, og þættu verðminni en birgðavarsla eða starf meindýraeyðis. En vinna kvenna væri það sem héldi þjóðfélaginu gangandi. „Ef umönnunarþáttur kvenna, hvort sem er inni á heimili eða í launuðum störfum, er dreginn til baka þá fær þetta þjóðfélag ekki staðist, og mér finnst satt að segja kominn tími til að þessir ágætu herrar hér í borgarstjórn fari að skilja þennan einfalda sannleika og bregðast við honum.“

Guðrún hvorki var né verður nokkurn tímann ungfrú meðfærileg.

Í lok fundar fluttu þær yfirlýsingu þar sem þær sögðu mótmælin „gegn falskri og fjarstæðukenndri kvenímynd karlveldisins" hafa reynst þeim erfið. „Þau hafa verið erfið vegna þess, hversu ósönn þessi kvenímynd er. Konur eru ekki svona, hvorki fegurðardrottningar né aðrar konur. Við viljum undirstrika, að öllum þeim heilaþvotti, sem beinist sterkast að okkur konum í kringum atburði eins og fegurðarsamkeppnir, er ætlað að halda okkur föstum í hlutverki sem karlar skapa og ala á vegna þess að þannig ógnum við konur ekki karlveldinu. Fegurðarsamkeppni er því ekki sniðug uppákoma eða tilbreyting í hversdagsleikanum. Opinber þátttaka borgarstjóra í þeirri athöfn er móðgun við konur.“ Að máli loknu afhentu þær forseta borgarstjórnar kórónu og borgarstjóra borðann sem Magdalena bar á fundinum, ungfrú spök, með þeim orðum að það yrði þeim vonandi til minningar og ef til vill áminningar. En það var ekki að sjá að þeir væru þakklátir fyrir gjafirnar. Hvorugur þakkaði fyrir sig. Davíð tók fram að enginn gæti sagt honum fyrir verkum, hann kæmi fram hvar og hvenær sem honum sýndist svo. Það væri hans eigið og persónulega mál.

„Davíð varð svo ofboðslega reiður þegar við komum á kjólunum að hann missti alveg stjórnina, varð eldrauður í framan og lamdi í borðið. Ég held að hann hafi aldrei fyrirgefið okkur það. En þetta var gleðilegasta stundin á mínum borgarstjórnarferli.“

Á sólríkum degi situr Guðrún úti í garði með samferðakonum sínum og vinkonum. Hjördís hlær hátt og mikið á meðan hún segir söguna af því þegar hún mætti á sundbol og hinar flissa með. Þær sameinuðust í baráttunni fyrir betra samfélagi, voru uppreisnargjarnar og brutu reglurnar. Sem endaði einu sinni með handtöku.