Fjölgað verður á næstunni í þeim hópi sem sinnir náttúruvárvöktun á Veðurstofu Íslands. Auglýst var á dögunum eftir fólki og innan tíðar verða sérfræðingarnir í þessum störfum orðnir alls fimmtán talsins

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fjölgað verður á næstunni í þeim hópi sem sinnir náttúruvárvöktun á Veðurstofu Íslands. Auglýst var á dögunum eftir fólki og innan tíðar verða sérfræðingarnir í þessum störfum orðnir alls fimmtán talsins. Þetta eru vísindamennirnir sem á sólarhringsvakt sitja við tölvur og fleiri tæki sem notuð er til að vakta jarðhræringar, veðráttu og vatnafar. Vötnin þarf sérstaklega að vakta, þá til dæmis rafleiðni í jökulfljótum, með tilliti til flóðahættu.

Aldrei dauð stund

„Starfið er umfangsmikið og í raun aldrei dauð stund,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir jarðeðlisfræðingur. Þau Einar Hjörleifsson, sem er landfræðingur, voru á várvaktinni þegar Morgunblaðið kom við á Veðurstofunni. Ísland, síkvikt og óútreiknanlegt, birtist á tölvuskjánum þar. Gögn berast frá um það bil 90 jarðskjálftamælum víða um landið og GPS-mælarnir sem greina allar tilfærslur, svo sem ris og sig á landi, eru enn fleiri. Þessu til viðbótar eru líka mælar við helstu stórfjótin.

„Við fáum gögn frá sjálfvirkum veðurstöðvum víða um land, sjáum þannig á rauntíma hvert er hitastig, vindátt og annað. Í raun má segja að mælikerfin, sem hvert um sig fylgjast með ákveðnum þáttum í náttúrunni, spili öll saman. Okkar á vaktinni er að fylgjast með stöðunni og gera ráðstafanir ef þarf. Stundum þarf að bregðast hratt við og fá sérfræðinga til að greina upplýsingarnar. Á slíkt hefur oft reynt að undanförnu,“ segir Einar Hjörleifsson.

Bein sjónlína á Reykjanesskagann

Á þriðju og efstu hæð Veðurstofuhússins við Bústaðaveg í Reykjavík er púlsinn tekinn á náttúru Íslands. Í stórum sal þar eru veðurfræðingar; þeir sem lesa í gögn og gera spár. Í samliggjandi herbergi er svo aðstaða náttúruvársérfræðinga sem hafa úr sínu rými gott útsýni – beina sjónlínu – suður á Reykjanesskagann, þar sem eldar hafa kraumað að undanförnu. Líklegt er að svo verði áfram.

„Tímar að undanförnu hafa verið ótrúlegir, sem og aðstæður allar. Sérstaklega situr eftir í huga mér 10. nóvember; fyrst stöðugir jarðskjálftar og svo kvöld þess dags þegar okkur varð ljóst að þvert undir Grindavík væri kvikugangur svo rýma þurfti bæinn. Á venjulegum degi eru skjálftar sem við mælum kannski 70-80 og sumir mjög litlir. Umfram það sem gerist í öðrum löndum fylgjumst við hér mjög vel með smæstu jarðhræringum, svo mikilvægar upplýsingar geta þær gefið okkur í stærra samhengi hlutanna. Þegar svo koma hrinur eru skjálftar hvers sólarhrings í hundruðum taldir og stundum fleiri en þúsund,“ segir Salóme Jóunn.

Gott samstarf

Þau sem sinna náttúruvárvöktun á Veðurstofunni eru á hverjum tíma í virku samtali við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sem aftur leggi línurnar um viðbúnað og aðgerðir.

„Þetta er samstarf sem hefur eflst og styrkst mjög á síðustu árum. Holuhraunsgosið árið 2014 kom okkur á sporið og síðan þá hefur samstarf Veðurstofunnar við viðbragðsliða verið að styrkjast. Boðleiðirnar eru opnar og samskiptin góð, sem þarf líka að vera svo kerfin virki bæði vel og rétt,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir.