RÚV um jól Jóla- og áramótakveðjur gleðja.
RÚV um jól Jóla- og áramótakveðjur gleðja. — Morgunblaðið/Ómar
Það var merkilega róandi að hlusta á jóla- og nýárskveðjur lesnar í Ríkisútvarpinu. Þetta hefði átt að vera tilbreytingarlaust, dauflegt og hundleiðinlegt útvarpsefni en var þvert á móti upplífgandi, fallegt og yndislegt

Kolbrún Bergþórsdóttir

Það var merkilega róandi að hlusta á jóla- og nýárskveðjur lesnar í Ríkisútvarpinu. Þetta hefði átt að vera tilbreytingarlaust, dauflegt og hundleiðinlegt útvarpsefni en var þvert á móti upplífgandi, fallegt og yndislegt.

Þarna var fólk að senda fjölskyldu og vinum kveðjur sem voru fullar af hlýju, einlægni og sannri væntumþykju. Í einni kveðju sá sendandi reyndar ástæðu til að lauma að kvörtun yfir því að RÚV hefði hækkað verð á jólakveðjum. Manni fannst sú aðfinnsla bara fyndið og öðruvísi innlegg í annars afar jákvæðan dagskrárlið.

Einstaka sinnum kannaðist maður við þá sem voru að senda kveðjur og hugsaði um leið vingjarnlega til þeirra. Ég hafði nokkrum dögum áður en lestur á kveðjunum hófst hitt fyrrverandi vinnufélaga sem ég hef alltaf haft í hávegum. Hann sagði mér að nú ætti hann og hin frábæra kona hans rúmlega eins árs son, Skarphéðin. Þar sem ég hlustaði einn daginn á lestur jólakveðjanna heyrði ég að lesin var kveðja frá Skarphéðni og hinum góðu foreldrum hans. Ef ég man rétt bað Skarphéðinn litli sérstaklega að heilsa öfum sínum og ömmum, sem hafa örugglega glaðst mjög yfir kveðjunni. Sjálf varð ég ósköp glöð að heyra frá Skarphéðni litla.