Steingrímur Hólmgeir Ingvarsson fæddist 13. nóvember 1939. Hann andaðist 15. nóvember 2023. Útför fór fram 24. nóvember 2023.
Þann 15. nóvember sl. lést pabbi minn, hann Steingrímur Ingvarsson. Þó að ég hefði fengið að velja á milli allra þeirra pabba sem til væru hefði ég ekki getað fundið pabba sem hefði verið betri fyrir mig. Nú þegar ég sjálf er orðin fullorðin á ég erfitt með að skilja hvernig hann gat náð öllu því sem hann náði. Því auk þess að gefa sér tíma til að vera þolinmóður og góður pabbi fyrir okkur systkin, þá var hann yfirmaður á sínum vinnustað í yfir 30 ár, sat í bæjarstjórn, sóknarnefnd og ýmsum nefndum.
Ég á margar minningar frá góðri samveru frá okkar árum saman. Við pabbi erum búin að spila ansi mikið saman, sitja hlið við hlið og lesa, þegja saman, taka bíltúr á Eyrarbakka og kaupa ís, heimsækja ættingja fyrir norðan og ekki síst tala mikið saman. Það var alltaf svo gott að tala við hann um ýmsa hluti, hvort sem það voru bækur eða eitthvað annað, – alltaf var hann góður að sjá margar hliðar á málunum. Í eina skiptið sem mér fannst ekki gott að heyra að það væru fleiri hliðar á einhverju var þegar ég var að læra undir stærðfræði og hann kynnti mig fyrir þremur ólíkum mátum að reikna dæmið – kvöldið fyrir próf þegar mér fannst alveg nóg að þekkja eina aðferð!
Annar eiginleiki sem mér finnst mjög minnisstæður er hvað hann var góður að taka ákvarðanir. Hann var góður að horfa á og velta fyrir sér staðreyndum mála og ekki láta tilfinningar villa um fyrir sér.
Eins og hann var góður pabbi var hann líka góður afi. Elstu barnabörnin eru heppin að hafa náð að kynnast honum á meðan hann gat lesið fyrir þau og leikið á annan hátt en hann síðar gat vegna veikindanna.
Eftir að pabbi veiktist árið 2002 eftir blóðtappa í höfði með þeim alvarlegu afleiðingum að hann lamaðist nánast alveg hægra megin og missti málið, þá vorum við þó þakklát fyrir að hann hélt sínum persónuleika. Hann hélt áfram að vera góður og þolinmóður. Það eina sem gerði hann sýnilega pirraðan var þegar hann reyndi að finna þau orð sem hann vildi segja enn tókst ekki. Við reyndum að hjálpa með að giska og svo reyna að nálgast það smátt og smátt. Stundum tókst honum að segja einstök orð sem gaf okkur vísbendingu. Það er ótrúlegt hvað hann tók sínum veikindum af miklu æðruleysi og mamma og pabbi reyndu eins og þau gátu að lifa eins eðlilegu lífi og hægt var. Það var áfram farið í bústað, farið norður (m.a. með hjálp frá Bödda frænda) og reynt að gera ýmislegt. En smátt og smátt varð það of erfitt að ganga með hækjuna og síðustu árin var pabbi meira og meira í hjólastólnum. Fyrir um það bil ári hætti hann eiginlega alveg að geta staðið upp sjálfur og þurfti að fá aðstoð við nánast allt.
Pabbi fékk tvisvar fyrir hjartað með stuttu millibili, síðast deginum áður en hann dó. Það kvöld hringdi Rúnar bróðir og leyfði mér að tala við pabba yfir facetime. Ég er svo þakklát fyrir það, því þótt ég kæmi til Íslands kvöldið eftir, þá náði ég honum ekki.
Blessuð sé minning elsku besta pabba.
Gunnþóra
Steingrímsdóttir.