Óhætt er að segja að ferðaþjónustan hafi náð vopnum sínum á árinu sem leið en fleiri ferðamenn sóttu Ísland heim í fyrra en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Að mörgu leyti var árið sambærilegt metárinu 2018, þegar horft er til helstu tölfræðilegra upplýsinga.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að árið í ferðaþjónustunni hafi gengið svipað og spáð hafði verið að frátöldum síðustu vikum. Sem kunnugt er má rekja það til jarðhræringa á Reykjanesi og umfjöllunar erlendra miðla um stöðu mála hér á landi.
„Það er fjölgun í takt við það sem gert var ráð fyrir í upphafi árs. Á næsta ári mun líklega hægja á fjölguninni eins og við höfðum búist við. Fólk hefur uppfyllt sína ferðaþrá eftir faraldurinn og við höfum þurft að glíma við óvissuna í kringum afleiðingarnar á Reykjanesinu,“ segir Jóhannes Þór og bætir við að árið hafi þó almennt verið gott og jarðhræringarnar á Reykjanesi séu mikil auglýsing.
„Þó er það svo að við sjáum í erlendum fréttamiðlum að þekkingin á eldgosum er ekki jafnmikil og hér. Það hefur orðið til þess að mun minna er af bókunum í nóvember og desember. Það er ákveðið áhyggjuefni þar sem tíminn milli jóla og nýárs er aðalbókunartíminn.“
Vöxtur á vetrartímabilinu
Í nýútkominni farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 2,4 milljónir ferðamanna komi hingað til lands í ár. Þá er gert ráð fyrir að tæplega 8,5 milljónir farþega muni ferðast um Keflavíkurflugvöll, sem er 9,6% aukning á milli ára þegar 7,7 milljónir farþega fóru um völlinn. Gangi spáin eftir verður árið 2024 það þriðja stærsta í sögu Keflavíkurflugvallar og það stærsta í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Aðeins tvisvar hafa farþegarnir verið fleiri, 8,8 milljónir 2017 og 9,8 milljónir 2018.
Að mati Jóhannes Þórs vekur spá um vöxt á vetrartímabilinu, þar sem gert er ráð fyrir um 15% fjölgun farþega, nokkra athygli.
„Það þýðir að vöxturinn er að eiga sér stað utan háannatímans sem þýðir betri nýtingu á innviðum og gefur okkur betri ferðamennsku yfir árið,“ segir Jóhannes Þór.
Hann bætir við að horfurnar fyrir árið 2024 séu góðar og vísar til þess að Hagfræðideild Landsbankans og Greining Íslandsbanka spá 2,3 milljónum ferðamanna í ár og að þeim fjölgi lítillega næstu árin á eftir.
Brýnt að miðla upplýsingum
Hann segir að leggja þurfi meiri áherslu á markaðssetningu erlendis og mikilvægt sé að upplýsingum um jarðhræringar sé miðlað vel.
„Ferðamálastofa stendur um þessar mundir fyrir átaki sem er virkilega gott fyrir ferðaþjónustuna, en það þarf meira til,“ segir hann.
Spurður hvort það sé meiri ásókn frá ferðamönnum í einhver landsvæði umfram önnur segir Jóhannes að dreifingin á landsvæðin sé nokkuð jöfn. Þó séu sum landsvæði sem hafi fengið meiri athygli á árinu, en hægt sé að jafna og þétta uppbyggingu næstu árin.