Brotamaðurinn Epstein lést í fangaklefa sínum sumarið 2019.
Brotamaðurinn Epstein lést í fangaklefa sínum sumarið 2019. — AFP
Dómstóll í New York hefur nú öðlast réttmæta heimild til að birta tæplega 200 nöfn tengd mansalshring auðkýfingsins og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epsteins heitins og lagskonu hans Ghislaine Maxwell

Dómstóll í New York hefur nú öðlast réttmæta heimild til að birta tæplega 200 nöfn tengd mansalshring auðkýfingsins og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epsteins heitins og lagskonu hans Ghislaine Maxwell.

Mál Epsteins komst í hámæli í kjölfar handtöku hans 6. júlí 2019 á Teterboro-flugvellinum í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum en hann hafði þá verið undir smásjá rannsóknarteymis afbrota gegn börnum (e. Crimes Against Children Task Force) sem bandaríska alríkislögreglan FBI og lögreglan í New York héldu úti í samstarfi.

Sama dag brutu tólf alríkislögreglumenn upp dyr heimilis Epsteins í Herbert N. Straus-íbúðabyggingunni á Manhattan-eyju og gerðu þar húsleit sem skilaði aragrúa ljósmynda af ungum fáklæddum eða nöktum stúlkum og konum, mörgum hverjum undir lögaldri.

Epstein tókst að stytta sér aldur í fangaklefa rúmum mánuði eftir handtökuna og skilaði ítarleg rannsókn dómsmálaráðuneytisins engum niðurstöðum um hvernig honum hefði átt að takast að hengja sig í klefa sínum en Maxwell hélt því fram að hann hefði verið myrtur.

Á listanum er hvort tveggja að finna fórnarlömb Epsteins og Maxwell, sem er dóttir fjölmiðlakóngsins Roberts Maxwells heitins, og nöfn samverkamanna þeirra og annarra sem keyptu aðgang að fórnarlömbum þeirra.

Öll nöfnin sem haldið var leyndum við réttarhöldin bera einkennin John Doe eða Jane Doe og númer en einna mest athygli beinist að manninum á bak við nafnið John Doe 36. Birti ANC News þá frétt fyrir nokkru að Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, leyndist á bak við John Doe 36.

Er Clintons getið í 50 dómskjölum en þar kemur ekkert fram um hugsanlega sök hans. Virginia Louise Giuffre, sem kærði Epstein á sínum tíma, kvaðst hafa hitt Clinton á einkaeyju Epsteins en Clinton þverneitaði að hafa nokkru sinni komið þangað.