Krókháls 20-22 Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt, gegnt Kia-umboðinu.
Krókháls 20-22 Lóðin er við golfvöllinn við Grafarholt, gegnt Kia-umboðinu. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir tillögum um notkun lóðarinnar Krókháls 20-22. Lóðin var auglýst til sölu 14. nóvember 2022 en var tekin úr sölu eftir að engin tilboð bárust.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir tillögum um notkun lóðarinnar Krókháls 20-22. Lóðin var auglýst til sölu 14. nóvember 2022 en var tekin úr sölu eftir að engin tilboð bárust.

Lóðin er gegnt sýningarsal Kia á Íslandi. Þar í grennd eru fleiri bílasölur.

Lóðin er rúmlega 9.900 fermetrar og á athafnasvæði í aðalskipulagi.

Borgin bauð lóðina Krókháls 20 til sölu á föstu verði, 414.562.500 krónur án gatnagerðargjalda.

Allt að fimm hæða hús

Á lóðinni Krókhálsi 20 var heimilt að byggja húsnæði undir atvinnustarfsemi á tveimur byggingarreitum, allt að 4.312,5 fermetra á Krókhálsi A og 4.900 fermetra á Krókhálsi B. Heimilt var að byggja 4-5 hæða húsnæði sem grefur sig inn í hæð.

Nú hefur borgin hins vegar auglýst lóðina á ný með þessari lýsingu: „Ekki er um hefðbundna úthlutun að ræða heldur er hér kallað eftir hugmyndum að nýtingu lóðarinnar. Óskað er eftir upplýsingum um fyrirhugaða starfsemi á lóðinni, áætlað byggingarmagn, hvernig lóðin verði fjármögnuð og að boðið sé verð á hvern fermetra byggingarréttar. Tekið verður tillit til framangreindra atriða auk rekstrarsögu og fjárfestingargetu við mat á vænleika verkefna. Tilgangurinn er að skapa tækifæri til þess að tryggja að í nýju skipulagi verði til staðar lóðir sem henta áhugasömum fyrirtækjum,“ sagði þar orðrétt.

Kanna aðrar útfærslur

Frestur til að skila inn tilboðum er til loka dags 1. febrúar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins töldu fyrirtæki og verktakar fyrirhugað byggingarmagn á lóðinni of mikið. Því hefði borgin viljað kanna áhuga á öðrum útfærslum.

Við þessa endurskoðun var tekið tillit til þess að eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði á þessum stað væri að öllum líkindum takmörkuð.

Þá endurauglýsti borgin lóðina Nauthólsveg 79 til sölu um miðjan desember á föstu verði, 715.700.000 krónur, en auk greiðslu fyrir byggingarrétt þarf lóðarhafi að greiða gatnagerðargjald.

Borgin efndi til útboðs á lóðinni síðastliðið sumar og var félagið Skientia hæstbjóðandi, bauð 751 milljón. Það félag var svo keypt af MótX sem fékk þannig tímabundið kaupréttinn. Þau áform runnu hins vegar út í sandinn og var lóðin því aftur sett á sölu.

Samkvæmt upplýsingum frá borginni hefur ekkert tilboð borist í lóðina á þessu fasta verði.

Undraðist skort á samtali

Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks sagðist í samtali við Morgunblaðið 14. desember telja einkennilegt að borgin skyldi ekki hafa rætt við fyrirtæki hans eftir að hæstbjóðandi missti lóðina. ÞG Verk hefði enda verið með annað hæsta boðið í útboðinu, 665 milljónir. Þorvaldur reiknaði í sama viðtali aðspurður ekki með að ÞG Verk myndi bjóða áðurnefnt fast verð í lóðina, 715,7 milljónir.

Höf.: Baldur Arnarson