Valdimar Ármann segir fullt tilefni til að vera bjartsýnn á horfur á mörkuðum á árinu.
Valdimar Ármann segir fullt tilefni til að vera bjartsýnn á horfur á mörkuðum á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
7*”  Hér kemur punktur

Árið 2024 getur orðið spennandi ár á innlendum hlutabréfamarkaði og horfurnar eru jákvæðar. Þetta segir Mogens Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, í samtali við ViðskiptaMogga.

„Lægra vaxtastig hefur jákvæð áhrif á virðismat hlutabréfa sem ætti að gæða markaðinn meira lífi en verið hefur megnið af árinu 2023 þar sem velta með hlutabréf dróst töluvert saman,“ segir Mogens og bætir við að þrátt fyrir töluverðar hækkanir á undanförnum vikum sé hlutabréfamarkaðurinn enn mjög hóflega verðlagður og mörg af félögunum töluvert undirverðlögð.

Íslenski hlutabréfamarkaðaðurinn átti erfitt uppdráttar megnið af árinu 2023 og um miðjan nóvember hafði heildarvísitala Aðalmarkaðar lækkað um næstum því 17 prósent frá árslokum 2022. Innlendi hlutabréfamarkaðurinn hefur þó verið mjög sterkur undanfarnar sex vikur þar sem Úrvalsvísitalan hefur hækkað um ríflega 20% á því tímabili.

Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkaði um 1,6% á árinu og stóð í lok árs í 2457,9 stigum. Leiðrétt fyrir arðgreiðslum hækkaði vísitalan (OMXI10GI) hins vegar um 1,2%. Heildarvísitala Aðalmarkaðarins (OMXIPI) lækkaði um 3,4% á árinu en leiðrétt fyrir arðgreiðslum (OMXIGI) lækkaði vísitalan um 0,7%. Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu tæpum 785 milljörðum króna eða rúmlega 3,1 milljarði króna á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2022 um 1.050 milljarðar króna, eða um 4,2 milljarðar króna á dag og dróst veltan því saman um 25% milli ára.

Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður á árinu var verðþróunin góð hjá nokkrum fyrirtækjum og má þá helst nefna hástökkvara ársins, Amaroq Minerals, en gengi bréfa í félaginu hækkaði um rúmlega 50% á árinu. Það voru tvö útboð á árinu og nokkur fyrirtæki færðu sig frá First North-vaxtarmarkaðnum yfir á Aðalmarkaðinn. Tvö ný félög voru skráð, Icelandic Salmon á First North-vaxtarmarkaðinn og Ísfélagið á Aðalmarkað. Þá fluttust þrjú félög af First North-vaxtarmarkaðnum yfir á Aðalmarkaðinn, Hampiðjan, Amaroq og Kaldalón.

Breytingarnar ánægjulegar

Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir að þessar breytingar hafi verið ánægjulegar.

„Það er athyglisvert að nýskráningar á Nasdaq Iceland, tvær, voru jafnmargar og í bæði Nasdaq Helsinki og Nasdaq Copenhagen. Þess má geta að Ísfélagið var þriðja stærsta félagið sem var nýskráð á öllum Norðurlöndunum á árinu. Við sáum jafnframt að First North er að nýtast félögum vel til vaxtar og sem stökkpallur yfir á Aðalmarkaðinn,“ segir Magnús.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar hjá Arctica Finance, segir að það sé óhætt að segja að útlitið hafi ekki verið gott í byrjun árs 2023 og þær spár hafi raungerst. Verðbólgan var þrálát með tilheyrandi stýrivaxtahækkunum sem hægðu á hagkerfinu og dempuðu væntingar.

„Tvö stærstu félögin, Alvotech og Marel, voru með slök uppgjör, og góðar fréttir hjá félögunum raungerðust ekki,“ segir Valdimar.

Breytingar voru gerðar á Úrvalsvísitölunnii og tóku þær breytingar gildi um áramót. En þá voru Brim, Hagar, Hampiðjan, Sjóvá Almennar tryggingar, Amaroq Minerals og VÍS tekin inn í vísitöluna en Reitir fasteignafélag fór úr vísitölunni.

Valdimar segir að breytingin á vísitölunni sé jákvæðar fréttir fyrir markaðinn.

„Þessi breyting hefur klárlega góð áhrif á markaðinn í heild. Fleiri félög eru tekin inn og flot leiðrétt þannig að það eru ekki aðeins einn eða tveir turnar eins og verið hefur. Fjárfestar geta ekki litið framhjá þessum fimm félögum þannig að þetta mun auka veltuna á markaðnum. Maður vonar að þetta leiði til meiri veltu og seljanleika á markaðnum,“ segir Valdimar.

Horfurnar jákvæðar

Mogens segir að sé horft á næsta ár hvað varðar verðþróun á mörkuðum muni margt spila inn í.

„Það mun skipta töluverðu máli fyrir markaðinn að þeir erfiðleikar sem tvö af stærstu félögunum á markaðnum hafa glímt við þróist með jákvæðum hætti,“ segir Mogens og vísar til þess að bandaríska lyfjaeftirlitið muni þann 10. janúar nk. koma með úttekt í þriðja sinn á verksmiðju félagsins og koma með endanlega niðurstöðu um hvort verksmiðjan sé samþykkt 24. febrúar.

„Fáist samþykki væri það mjög góðar fréttir fyrir markaðinn sem myndu gæða hann töluverðu lífi. Komi hins vegar nei í þriðja skiptið væru töluverðar líkur á því að Alvotech þyrfti að ráðast í hlutafjáraukningu til að geta haldið áfram þróun annarra lyfja sem félagið hyggst sækja með á markað á komandi árum.“

Þetta muni jafnframt hafa í för með sér að næsta verksmiðjuúttekt yrði ekki fyrr en í haust.

„Sem myndi verða til þess að Alvotech myndi tapa samkeppnisforskoti sínu með Humira-lyfið í USA, varðandi að vera fyrsta fyrirtækið til að selja lyfið í hærri styrkleika og með útskiptanleika,“ segir Mogens.

Hann bætir við að varðandi Marel sé mikilvægt að reksturinn þar fari að styrkjast sem ætti að geta gerst þegar vaxtalækkanir hefjast í Bandaríkjunum og Evrópu.

Nú liggur fyrir viljayfirlýsing um óskuldbindandi tilboð í allt hlutafé í Marel af hálfu bandarísk félagsins John Bean Technologies (JBT) sem er einn af keppinautum Marel. Tilboðið hljóðar upp á 3,4 evrur á hlut sem eru um 511 kr. og nokkuð í takt við virðismöt erlendra greiningaraðila á Marel. Stjórn Marel hefur ekki gefið álit sitt á tilboðinu ennþá.

„En það er þó ljóst að samruni Marel og JBT ætti að vera mjög spennandi tækifæri fyrir hluthafa Marel þar sem stefnt er á að hafa sameinað félag skráð bæði í USA og á Íslandi,“ segir Mogens.

Hann segir að töluverð samlegðaráhrif ættu að vera til staðar auk þess sem sameinað félag yrði töluvert stærra og öflugra og gæti jafnvel orðið gjaldgengt í S&P 500-vísitöluna í Bandaríkjunum.

„Í kjölfar tilboða JBT í Marel hefur hlutabréfaverð Marel hækkað töluvert og því ættu áhyggjur af fjárhagsstöðu Eyris, stærsta hluthafa Marel, að hafa róast þó ekki sé útséð með hvort Eyrir hyggist sækja sér nýtt hlutafé verði ekki af sameiningu félagsins við JBT.“

Valdimar segir að væntingarnar til ársins 2024 á mörkuðum séu þó nokkrar, en það er líka fullt tilefni til þess að vera bjartsýnn á árið 2024 þó að staðan sé að ýmsu leyti flókin og viðkvæm. Væntingar byrjuðu að byggjast upp erlendis í október og nóvember um lægri verðbólgu og svo lækkun stýrivaxta í framhaldinu. Hér byrjuðu þær væntingar að myndast í lok nóvember og byrjun desember. Ljóst sé að verðbólgan verði á niðurleið á árinu og stýrivextir muni lækka, en spurningin er hvenær og hversu hratt.

„Ég held að margir séu komnir fram úr sér varðandi hraða stýrivaxtalækkana og hvenær þeir byrji að lækka. Á næsta ári munum við sjá vexti lækka og verðbólguna á niðurleið en aðlögunin verður flókin og margt spilar inn í, meðal annars ríkisútgjöld og kjarasamningar.“

Valdimar segir að þótt verðbólgan verði á niðurleið á næsta ári að öllum líkindum þá verði mögulega langt í það að verðbólgan komist niður í verðbólgumarkmið.

„Það gildir bæði hér á landi og erlendis, það mun líklega taka einhvern tíma að ná henni niður í markmið,“ segir hann.

Margt fram undan hjá félögunum

Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir að þróunin á hlutabréfamarkaðnum á næsta ári muni að miklu leyti velta á niðurstöðu kjarasamningana sem fram undan eru.

„Góð sátt í þeim minnkar verðbólgu og myndi leggja grunn að lægra vaxtastigi og hagstæðasri vindum á markaði en við nutum á þessu ári,“ segir Magnús.

Mogens segir að það muni þó einnig hafa áhrif á markaðinn á nýju ári hvernig jarðhræringar á Reykjanesi þróast og þá sérstaklega varðandi ferðamannastraum til landsins og áhrifin á flugfélögin en spáð er meti í fjölda ferðamanna til landsins eða um 2,4 milljónum. Þá sé ekki hægt að líta framhjá stríðsátökum á Gasa og mögulegum áhrifum á olíuverð breiðist þau út til annarra landa í kring.

Mogens bætir við að ýmislegt spennandi sé fram undan hjá félögunum í Kauphöllinni. Ennþá er beðið eftir niðurstöðu varðandi hvort fasteignafélaginu Regin takist að yfirtaka Eik. Þá munu málin væntanlega skýrast á allra næstu mánuðum varðandi sölu Kviku á TM sem ætti að losa um töluverða fjármuni hjá Kviku. Þá er Síminn í leit að vaxtartækifæri en fjárhagslegur styrkleiki félagsins er töluverður. Þá er Sýn að skoða sölu á eignum sem losað gætu um fjármuni hjá félaginu gangi það eftir.

„Ekki má svo gleyma þeim duldu verðmætum sem geta legið í fasteignaþróunarverkefnum t.d. hjá Arion banka með Blikastaðalandið og hjá Reitum fasteignafélagi með sín þróunarverkefni sem og hjá hinum fasteignafélögunum,“ segir Mogens og bætir við að smásölufélögin eigi einnig töluvert undir í fasteignaþróunarverkefnum í tengslum við fækkun bensínstöðva.

„Það verður fróðlegt að sjá hvort smásölufélögunum takist að bæta hjá sér framlegðina sem verið hefur undir verulegum þrýstingi vegna kostnaðarhækkana. Ölgerðin hefur hafið útflutning á Collab til Noregs og hyggur á frekari landvinninga og verður fróðlegt að sjá hvernig það þróast á árinu,“ segir Mogens.

Fleiri nýskráningar á næsta ári

Magnús segir að erfitt sé að fullyrða um nýskráningar en hann sé bjartsýnn á að við fáum nýtt félag eða jafnvel félög á fyrri hluta ársins 2024.

„Bjartsýni mín hefur aukist með þeim meðbyr sem hefur verið á markaðnum síðustu vikur ársins. Á árinu hleyptum við af stokkunum markaði fyrir sérhæfða sjóði og ég á von á fyrstu skráningunum á þann markað á nýju ári,“ segir Magnús.

Nú í ársbyrjun taka gildi breytingar á Úrvalsvísitölunni. Félögunum fjölgar úr 10 í 15. Magnús segir það vera til marks um uppbygginguna sem átt hefur sér stað á íslenska hlutabréfamarkaðnum á undanförnum árum.

„Breytingin á vísitölunni þýðir að vægi einstaka félaga minnkar, sjóðir sem fylgja vísitölunni munu bjóða fjárfestum dreifðara eignasafn með meiri áhættudreifingu.“

Magnús segir að tækifærin á hlutabréfamörkuðum séu mörg. Hann lítur vonaraugum til bæði sjávarútvegs og ferðaþjónustu á næsta ári og bætir við að lægra vaxtastig myndi ekki síst gagnast vaxtarfyrirtækjum sem hugleiða skráningu á First North.

„Ég er einnig bjartsýnn á fleiri tvískráningar félaga, sem sjá sér hag í að vera á íslenska markaðnum til viðbótar við skráningu á erlenda markaði. Reynslan af tvískráningum félaga á íslenska markaðnum hefur verið afskaplega góð.“

Magnús bætir við að það séu ýmis tækifæri til úrbóta á löggjafarhliðinni sem myndu fjölga fjárfestingarkostum fyrir almenning og efla fjármögnunarumhverfi fyrirtækja með jákvæðum áhrifum á efnahagslega velsæld.

„Þarna má t.d. nefna skattalega hvata fyrir einstaklinga til hlutabréfakaupa og aukið frelsi einstaklinga til ráðstöfunar viðbótarlífeyrissparnaðar.“

Mogens segir ólíklegt að við fáum einhver hlutafjárútboð á árinu eins og staðan er núna.

„Það sem helst kæmi til greina væri skráning Bláa lónsins sem var fyrirhuguð í vor en er óljóst með vegna jarðhræringa. Þá gæti einnig komið til þess að íslenska ríkið haldi áfram að losa um eignarhlut sinn í Íslandsbanka sem væntanlega yrði þá ekki fyrr en á seinni hluta ársins ef af yrði.“

Hann segir að búast megi við að arðgreiðslur sem greiddar verði á árinu 2024 verði í kringum 50 ma.kr. og ættu þær að berast hluthöfum í lok mars og byrjun apríl sem ætti að geta haft jákvæð áhrif á markaðinn.

„Þar ofan á bætast svo við endurkaup sem munu taka mið af því hvernig reksturinn þróast á árinu 2024 en við höfum væntingar um að heilt yfir verði reksturinn góður á árinu 2024,“ segir Mogens að lokum.

Ár skuldabréfanna fram undan

Valdimar Ármann segir að horfurnar á skuldabréfmarkaði séu jákvæðar og jafnvel jákvæðari en á hlutabréfamarkaði.

„Það er erfitt að tala um hlutabréfamarkaðinn og skuldabréfamarkaðinn hvorn í sínu lagi. Það mun haldast í hendur bæði á hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði að verðbólgan er búin að toppa og skuldabréfamarkaðurinn er búinn að verðleggja það inn að vextir fari að lækka á árinu,“ segir Valdimar og bætir við að þess vegna hafi krafan í haust farið lækkandi samhliða hækkunum á hlutabréfum.

Hann segir að árið byrji með háa ávöxtunarkröfu og þrátt fyrir að verðlagning standi í stað þá eru bréfin að gefa háa vexti. Það þurfi mikið að gerast þannig að skuldabréfin gefi háa ávöxtun á þessu ári.

„Horfurnar eru jákvæðar og fjárfestar hafa sagt að fram undan sé ár skuldabréfanna.“

Mogens segir að tilefni hafi verið til ákveðinnar bjartsýni um að það takist að klára langtímasamning á skynsömum nótum á komandi vikum m.v. hvernig samningsaðilar hafa tjáð sig opinberlega undanfarið. Þar tala þeir um að gera langtímasamning sem ekki ógni verðstöðugleika þannig að mögulegt sé að lækka vexti hratt í kjölfarið. Þetta eru virkilega ánægjuleg tíðindi ef rétt reynist og mun hafa jákvæð áhrif innlenda eignamarkaði á árinu sem er nýhafið.

„Þegar Seðlabankinn lækkar vexti mun það leiða til þess að ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkar með tilheyrandi verðhækkun á skuldabréfum. Við erum þegar farin að sjá lækkun á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa bæði hér heim og í Bandaríkjunum og Evrópu vegna væntinga fjárfesta um að senn styttist í að seðlabankarnir geti hafið vaxtalækkunarferli,“ segir Mogens.