Ásdís Guðný Ragnarsdóttir fæddist 1. febrúar 1945. Hún lést 13. desember 2023. Útför fór fram 22. desember 2023.
Í dag kveð ég eina af mínum dýrmætustu vinkonum, hana Ásdísi.
Ég kynntist Ásdísi fyrir nær 40 árum þegar við hófum báðar nám í Háskólanum. Hún tæpum 20 árum eldri en við og lífsreynd eftir því. Við vorum samt báðar mömmur ólíkt hinum og líklega skapaðist þar þráður sem aldrei slitnaði. Það var hins vegar með ólíkindum hvað hún nennti að vera með okkur því í þá daga voru nú tónarnir ekki gráir heldur bara svartir og hvítir og okkar skoðanir þær einu réttu. Við vorum fimm sem héldum sambandi alla tíð, auk okkar Bryndís, Þórunn og Sirrý. Alltaf reyndum við að koma saman þegar Bryndís kom til landsins og oftar en ekki var setið heima hjá mér og spjallað fram á nótt.
Við störfuðum saman bæði í Félagsvísindastofnun á fyrstu árum hennar og svo seinna í Gallup hlið við hlið. Ásdís var frábær samstarfsmaður. Alltaf lausnamiðuð, dugleg og til í að horfa á fleiri hliðar. Auk þess var hún hamhleypa og einstaklega klár. Eftir að hún hætti að vinna fórum við reglulega í hádegismat eða kaffi. Við fengum okkur alltaf sitt hvítvínsglasið hvor og einn eftirrétt og tvo gaffla. Hún kom við á Laugaveginum hjá mér og spurði hefur þú tíma, stundum nei og þá var það bara ekkert mál en oftast var tími. Það var unaðstími þar sem spjallað var um lífið og tilveruna, við áttum dóttursyni í sama bekk og við gátum masað endalaust um það sem öllu máli skipti í það skiptið, börnin okkar, barnabörnin, pólitík og hvernig heimurinn gæti orðið betri.
Ég heimsótti hana til London meðan hún bjó þar, stundum ein en líka með stelpunum. Alltaf var jafn notalegt að vera með henni, þótt við hefðum ekki heyrst mánuðum saman var alltaf eins og við hefðum hist í gær.
Við heimsóttum allar Bryndísi til Lúxemborgar og áttum hjá henni dásemdardaga. Það var masað og hlegið, vín smakkað og gengið, kíkt í búðir og hlegið meira. Eitt kvöldið horfðum við á Mamma Mia, sungum með og fífluðumst. Þetta eru svo dýrmætar stundir. Þegar Ásdís var sextug buðum við henni til Parísar. Þá slógust fleiri með í för og við vorum sjö. Það þurfti í raun svo lítið til að gleðja Ásdísi, samveran var henni nóg. Að sitja og spjalla, fíflast og reykja, tralla og hlæja, þetta var það sem var svo notalegt.
Ég hitti Ásdísi síðast í byrjun nóvember, þá var hún komin á Grund. Hún tók brosandi á móti okkur Þórunni og var jafn ánægð að sjá okkur og við hana. Við sátum og mösuðum og við áttum svo góða stund. Ég hafði keypt handa henni handáburð sem ég bar á hendurnar á henni og ég fann svo sterkt hvað tengingin okkar var djúp og sterk.
Mér finnst ég einstaklega lánsöm að hafa haft Ásdísi í lífi mínu í næstum fjóra áratugi. Fengið að hafa tekið þátt í gleði og sorgum hennar allan þennan tíma. Hún var sú sem gladdist fölskvalaust með manni. Mætti í öll partí og veislur, hjálpaði til og hafði stóran faðm þegar maður þurfti á að halda. Hún var einstök vinkona.
Ég votta öllum sem þótti vænt um Ásdísi samúð mína, sérstaklega Ragga, Þórdísi, Nonna og Úggu og börnum þeirra. Minningabankinn er stór og hann mun ylja.
Þóra Ásgeirsdóttir.