Hverfur af sviðinu Ástsæll þjóðarleiðtogi kveður þegna sína eftir hálfa öld.
Hverfur af sviðinu Ástsæll þjóðarleiðtogi kveður þegna sína eftir hálfa öld. — AFP/Bo Amstrup
Danska þjóðin er með böggum hildar eftir að hin ástsæla drottning þjóðarinnar, Margrét Þórhildur, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hún hygðist afsala sér völdum og eftirláta Friðriki krónprinsi syni sínum hásæti sitt

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Danska þjóðin er með böggum hildar eftir að hin ástsæla drottning þjóðarinnar, Margrét Þórhildur, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hún hygðist afsala sér völdum og eftirláta Friðriki krónprinsi syni sínum hásæti sitt.

Fregnin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem Margrét Þórhildur hefur marglýst því yfir að hún muni ekki láta af embætti sínu fyrr en dauðans óvissi tími vitrist henni. Um 80 prósent Dana virða drottningu sína og styðja samkvæmt skoðanakönnunum og var tilkynning hennar því mörgum þegninum áfall.

„Ég hef ákveðið að nú sé rétti tíminn,“ sagði drottning í viðtali sínu en hún er nýkomin úr bakaðgerð og heilsan hægt og bítandi á undanhaldi hjá þessum 83 ára gamla þjóðhöfðingja sem tók við embætti sínu 14. janúar 1952. Einmitt þann sama dag nú á nýhöfnu ári 2024 hyggst drottning færa hina æðstu tign áfram til krónprinsins eða „fela næstu kynslóð ábyrgðina“, eins og hún orðaði það.

Ólíkt flestum stéttum heimsins tilheyra konungar og drottningar tæpast þeirri sem stígur til hliðar án þess að hafa beinlínis látið lífið áður og geta því forvitnilegar stöður komið upp þegar það gerist. Sem dæmi um eina slíka má nefna að eftir tæpan hálfan mánuð eiga Danir sér tvær drottningar.

Margrét Þórhildur missir nefnilega ekki drottningartitilinn þótt hún láti af embætti í lifanda lífi. Regluverk hinna konungbornu er ólíkt frá einu konungsríki til annars. Í Hollandi varð Beatrix drottning prinsessa á nýjan leik þegar hún afsalaði sér völdum fyrir ellefu árum, hálfníræð að aldri. Þannig heldur Margrét Þórhildur titli sínum, frá þessu greindi konungshöllin í fréttatilkynningu í gær, en að auki stígur ný drottning inn á sviðið sem er María, kona Friðriks krónprins. Jafnframt þessu verður Kristján, sonur Friðriks og Maríu, nýr krónprins Dana.

„Þetta er einstakt,“ sagði Ole-Jørgen Schulsrud-Hansen, eitt helsta átorítet Dana í konungsfjölskyldufræðum, við TV2 í gær, „slík staða hefur aldrei komið upp í dönskum samtíma. Við höfum ekki átt okkur konung í 50 ár,“ sagði Schulsrud-Hansen svo ef til vill er þá tímabært að það gerist á ný.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson