Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Byggingarvinna í tengslum við varnargarð norðan Grindavíkur er hafin. Í heild sinni verður garðurinn tveir kílómetrar að lengd en fyrsti kaflinn er talinn munu taka um þrjár vikur í byggingu. Bygging á varnargarði við Svartsengi er nú á lokametrunum.
Byggingarvinnan hefst á austanverðum enda garðsins, þar sem hættan er talin mest, en Veðurstofa Íslands telur að hugsanlegt gos yrði líklegast í Sundhnúkagígaröðinni á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þó dregið hafi úr hraða landrissins hefur land risið ögn hærra við Svartsengi en fyrir eldgosið sem hófst við Sundhnúkagígaröðina 18. desember. Það getur þýtt að það styttist í næsta eldgos eða að landrisið sé að stöðvast, að mati jarðeðlisfræðingsins Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sem ræddi við Morgunblaðið í gær.
Líkur aukast á gosi
Veðurstofan segir vísbendingu vera um að kvikuþrýstingur byggist nú upp við Svartsengi og þar með aukist líkur á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Kvikuhlaup endi aftur á móti ekki alltaf með eldgosi. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að vísbendingin kalli ekki á breytingar á fyrirkomulagi varðandi rýmingu eða aðgengi fólks að Grindavíkurbæ.
Eldfjallafræðingurinn Ármann Höskuldsson sagði við Morgunblaðið í gær að svæðið við Svartsengi væri komið á „krítískan“ punkt en það gæti orðið einhver bið þar til draga fer til tíðinda á svæðinu. Hann sagði að hugsanlegt gos yrði sennilega áþekkt síðasta gosi og á svipuðum slóðum.