Horfur á innlendum mörkuðum fyrir árið 2024 eru nokkuð jákvæðar að sögn greinenda sem ViðskiptaMogginn ræddi við. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður framan af ári var verðþróunin jákvæð hjá nokkrum fyrirtækjum. Nýliðið ár var fremur erfitt á hlutabréfamarkaði og í lok september hafði markaðsvirði skráðra fyrirtækja lækkað um rúma 200 milljarða króna frá áramótum. Síðustu sex vikur ársins voru þó öllu skárri, og í raun miklu skárri, þar sem Úrvalsvísitalan hækkaði um 20%. Við árslok var markaðsvirði skráðra fyrirtækja nær núllinu frá áramótum, þegar búið er að taka tillit til arðgreiðslna og minnkunar eða aukningar hlutafjár einstakra félaga. Þá er ekki horft til Ísfélagsins og Kaldalóns, sem bæði komu á markað seint á árinu, og ef tekið er mið af verðbólgu dróst heildarmarkaðsvirði skráðra félaga saman.
Af 24 félögum hækkaði gengi tólf félaga en gengi annarra tólf lækkaði. Gengi bréfa í Amaroq Minerals hækkaði um tæp 53% á liðnu ári en nær öll hækkunin kom til á síðari hluta ársins í kjölfar hlutabréfaútboðs og flutnings yfir á Aðalmarkað. Þá hækkaði gengi bréfa í Ölgerðinni um rúm 46%.
Tvö ný félög voru skráð, Icelandic Salmon á First North-vaxtarmarkaðinn og Ísfélagið á Aðalmarkað. Þá fluttust þrjú félög af First North yfir á Aðalmarkaðinn, Hampiðjan, Amaroq og Kaldalón.
Heildarmarkaðsvirði allra skráðra félaga er í dag rúmlega 2.600 milljarðar króna. Sem fyrr eru Alvotech og Marel þar stærst. Viðmælendur ViðskiptaMoggans segjast búast við áhugaverðu ári á hlutabréfamarkaði en einnig á skuldabréfamarkaði. Horfurnar séu góðar en mikið veltur á jákvæðum fréttum af tveimur stærstu félögunum, Alvotech og Marel, auk þess sem gerð kjarasamninga hefur sitt að segja um það hvernig verðbólga – og í kjölfarið vextir – kunna að þróast. Þó ríkir enn óvissa með frekari nýskráningar á markað á árinu.
Hlutabréfamarkaður
- Gengi Amaroq Minerals og Ölgerðarinnar hækkaði mest í Kauphöllinni á liðnu ári.
- Mikið veltur á stöðu Marel og Alvotech á komandi ári.
- Kjarasamningar og aðrir þættir munu hafa áhrif á þróun markaðar á árinu.