Nú kveður við annan tón og það má, svo langt sem það nær, í fyrsta sinn greina sáttatón af hálfu helstu forsvarsmanna verkalýðsfélaganna.
Nú kveður við annan tón og það má, svo langt sem það nær, í fyrsta sinn greina sáttatón af hálfu helstu forsvarsmanna verkalýðsfélaganna. — Morgunblaðið/Harii
Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur, eðli málsins samkvæmt, sætt nokkurri gagnrýni hér á þessum síðum á liðnum árum. Fyrir því voru gildar ástæður og í einföldu máli mætti segja að það hafi verið upplifun þeirra sem ýmist stýra fyrirtækjum eða…

Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur, eðli málsins samkvæmt, sætt nokkurri gagnrýni hér á þessum síðum á liðnum árum. Fyrir því voru gildar ástæður og í einföldu máli mætti segja að það hafi verið upplifun þeirra sem ýmist stýra fyrirtækjum eða fjalla um viðskipti og efnahagsmál að helsta markmið verkalýðshreyfingarinnar hafi verið að valda ursla og úlfúð á vinnumarkaði. Sú upplifun var ekki úr lausu lofti gripin og okkur nægir að rifja upp verkfallsaðgerðir og orðræðu þeirra sem staðið hafa í stafni stærstu verkalýðsfélaganna undanfarin ár.

Við getum rifjað upp aðdraganda lífskjarasamninganna sem voru undirritaðir vorið 2019, tæpum mánuði eftir fall Wow air, og það hvernig tekist var harkalega á um kauphækkanir sem ljóst var að engin innstæða var fyrir. Sú krafa hélt áfram en fyrir um 14 mánuðum náðist sátt um gerð skammtíma-samninga sem tóku mið af þeim aðstæðum sem þá voru uppi. Í ljósi þeirrar verðbólgu sem hér hefur ríkt síðan og þeirrar kaupmáttarskerðingar sem hún hefur valdið – svo ekki sé minnst á háa vexti Seðlabankans – verður ekki sagt annað en að aðstæður hafi versnað síðan þá.

Nú kveður þó við annan tón og það má, svo langt sem það nær, greina sáttatón af hálfu helstu forsvarsmanna verkalýðsfélaganna. Fyrir það má hrósa þeim aðilum. Á milli jóla og nýárs var tilkynnt að Samtök atvinnulífsins og breiðfylking landssambanda og stærstu stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðinum hefðu tekið höndum saman um gerð langtímakjarasamninga sem er ætlað að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þá kom fram að samningsaðilar væru sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum væri að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á bæði heimilum og fyrirtækjum. Það er ekkert við þetta að athuga, og í raun hljómar þetta afskaplega vel í eyrum flestra skynsamra manna. Þá var einnig tekið fram að til að ná þessum markmiðum yrðu „allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt“ og enginn gæti skorast undan ábyrgð. Það er líka rétt.

Við eigum þó eftir að sjá hvort þessi fögru fyrirheit munu rætast. Það sem eftir stendur er að samhliða þessum yfirlýsingum hafa forsvarsmenn aðila vinnumarkaðarins, bæði úr hópi launþega og atvinnurekenda, gefið í skyn að ríkið þurfi að leggja sitt af mörkum til að liðka fyrir samningum. Sagan segir okkur að það felur oftast í sér aukin útgjöld, breytingar (til hins verra) á skattkerfinu eða sértækar aðgerðir í einstökum málaflokkum sem sjaldan skila tilætluðum árangri. Það verður því fróðlegt að sjá hver krafan á hendur ríkinu verður. Þá stendur líka eftir sú staðreynd að bæði skuldir og útgjöld ríkisins hafa aukist og munu aukast enn á þessu ári. Það er ekki gott innlegg í baráttu við háa verðbólgu.