Stórleikari Tom Wilkinson átti farsælan og langan leikaraferil að baki.
Stórleikari Tom Wilkinson átti farsælan og langan leikaraferil að baki. — AFP/Justin Tallis
Breski leikarinn Tom Wilkinson, sem einna þekktastur er fyrir hlutverk sitt í myndum á borð við Með fullri reisn (The Full Monty), Shakespeare In Love og The Best Exotic Marigold Hotel, er látinn 75 ára að aldri

Breski leikarinn Tom Wilkinson, sem einna þekktastur er fyrir hlutverk sitt í myndum á borð við Með fullri reisn (The Full Monty), Shakespeare In Love og The Best Exotic Marigold Hotel, er látinn 75 ára að aldri.

Breska ríkisútvarpið greindi frá því að í yfirlýsingu, sem umboðsmaður leikarans gaf fyrir hönd fjölskyldunnar, hefði komið fram að hann hefði orðið bráðkvaddur á heimili sínu laugardaginn 30. desember í faðmi fjölskyldunnar.

Wilkinson vann Bafta-verðlaunin árið 1997 fyrir hlutverk sitt sem Gerald í myndinni Með fullri reisn en hann hlaut alls sex Bafta-tilnefningar á ferli sínum auk þess að vera tvívegis tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í bíómyndunum Michael Clayton og In the Bedroom. Þá hlaut hann Emmy-verðlaun fyrir hlutverk sitt sem Benjamin Franklin í framhaldsþáttaröðinni John Adams og tilnefningu til Emmy-verðlauna fyrir að leika Joe Kennedy, föður Johns F. Kennedys fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í þáttunum The Kennedys.