Egill Sæbjörnsson og óendanlegir vinir alheimsins, einkasýning í Listasafni Íslands.
„Meginverk sýningarinnar er ný útgáfa af myndheimi Ugh og Bõögár, verkefni sem Egill hóf vinnu við árið 2008 og birtist í nýrri útgáfu á núverandi sýningu. Þetta verkefni átti sína stærstu birtingarmynd í sýningu Egils í íslenska skálanum í Feneyjum árið 2017. […] Það er áhugavert að bera þá útgáfu sem Egill sýndi í Feneyjum saman við þessa. Verkið í Feneyjum var í grunninn kaldhæðnisleg tjáning um áhrifavalda listheimsins, safn- og sýningarstjóra sem vildu gína yfir öllu. Núverandi samtal er öllu fremur tilvísun í fáránleika tækninnar og bendir okkur á að mönnum hættir til að leggja afurðir gervigreindar og mannlegan sköpunarkraft að jöfnu.“
Sigurður Guðjónsson, Leiðni leiðir í Verksmiðjunni Hjalteyri.
„Ljósblossarnir, hreyfing þeirra og samspil, hafa á sér vélrænt yfirbragð en virðast á sama tíma vera náttúrulegir, og birtast sem lifandi tækni. Þetta skilar sér í áhrifaríku verki sem vekur sérstakar tilfinningar. Verkið er fallegt og heillandi í einfaldleika sínum en er jafnframt kalt og framandi í köldu umhverfi verksmiðjunnar. […] Verkið er í eðli sínu eins konar ástand; tími þess er eilífur í eðli sínu og áhrif hans eru sefjandi. Þetta er tilfinning ekki ósvipuð því að horfa yfir hafið; öldugjálfrið endurtekur sig sífellt en er þó aldrei eins, er síbreytilegt og eilíft. Allir þættir verksins stuðla að þessu; kraftmikil, draugaleg heildarmynd hússins, sífelld ítrekun myndefnis og hljóðrásar, leikandi árukenndir vafurlogar og endurómur hljóðrýmisins. Þessir þættir í sameiningu skapa sérkennilega og tímalausa tilfinningu fyrir stað og stund. Það er eins og ekkert eigi sér stað utan verksins sjálfs.“
Ragnheiður Jónsdóttir, Kosmos / Kaos, yfirlitssýning í Listasafni Árnesinga.
„Sýningin öll er eins og gerð til að undirbúa áhorfandann fyrir titilverk hennar, myndröðina „Kosmos / Kaos“, frá 2021. Þetta er röð fimm mynda þar sem ólíkar áherslur eru dregnar, áherslur sem magnast upp í samspili myndanna. Hér beitir Ragnheiður kolunum af sérstakri snilld. Hún dregur fram sterka myndheima, sem hver ber sín eigin sérkenni en fellur jafnframt að heildinni. Hér eru dregnar skýrar línur og kámaðar; maður sér fyrir sér þá líkamlegu vinnu sem hefur farið í myndgerðina, hendur að stýra kolastrikunum, hendur að stroka út og nudda með allan líkamann undir í senn. […] Hér er um að ræða öfluga sýningu þar sem hægt er að fá yfirlit yfir feril afar merkilegs listamanns. Að auki eru á sýningunni ný verk þar sem Ragnheiður heldur áfram að þróa myndheim sinn. Hér tekst henni, enn og aftur, að koma á óvart með nýjungum í tækni og kraftmikilli persónulegri tjáningu.“
Katrín Elvarsdóttir, Fimmtíu plöntur fyrir frið í Berg Contemporary.
„Blómamyndir hennar eru áhugaverðar á formrænan hátt og fyrir sakir sérkennilegrar fegurðar sinnar; á sama tíma bera þær með sér vísun út á við. Þar má greina hugsun um hvernig komið er fram við framandi menningu og lífheim í samfélögum nútímans á Vesturlöndum. […] Þessi tilfinning framandleika verður enn sterkari í þeirri gátu sem birtist í neikvæðu myndunum, þar sem túlkunin sveiflast á milli þess að horfa á formræna þætti og þess að sjá framandi og áberandi óhugnanlegan veruleika. Titill sýningarinnar, Fimmtíu plöntur fyrir frið, færir þessar þverstæðukenndu tilfinningar yfir á svið mannlífsins, þar sem stríðsátök ógna tilveru manna víða um lönd, átök sem neyða fólk til að rífa sig upp með rótum og treysta á miskunn fólks í fjarlægum löndum.“