Veðurstofan aflýsti hættustigi vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði klukkan 19 í gær. Samtímis var rýmingum á Seyðisfirði aflétt og lokunum á Hafnargötu einnig. Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Austurlandi er þó enn í gildi. Í tilkynningu frá Veðurstofunni undir kvöld í gær kom fram að austanveðrið sem hófst aðfaranótt mánudags hefði gengið niður að mestu. Mikið af snjó hafði tekið upp í neðri hluta hlíða, einkum við ströndina. Búist var við skúrum og hlýindum fram eftir kvöldi, en svo átti að stytta upp í nótt. Nokkur hús voru rýmd á Seyðisfirði á nýársdag, þar á meðal tvö íbúðarhús. Um var að ræða lítið og afmarkað svæði þar sem helsta hættan var undir Strandartindi, að sögn snjóflóðasérfræðings á náttúruvárvakt Veðurstofu.