Dettifoss Áhöfn skipsins liggur ekki undir grun, segir Eimskip.
Dettifoss Áhöfn skipsins liggur ekki undir grun, segir Eimskip. — Morgunblaðið/Arnþór
Danska lögreglan hefur fellt niður mál er lýtur að reiðufé sem fannst um borð í Dettifossi, flutningaskipi Eimskips. Að sögn lögreglunnar er um að ræða tæpar sex milljónir íslenskra króna. Fyrst var greint frá málinu í Morgunblaðinu 8

Danska lögreglan hefur fellt niður mál er lýtur að reiðufé sem fannst um borð í Dettifossi, flutningaskipi Eimskips. Að sögn lögreglunnar er um að ræða tæpar sex milljónir íslenskra króna. Fyrst var greint frá málinu í Morgunblaðinu 8. desember sl.

Reiðuféð fannst um borð í skipinu 29. nóvember síðastliðinn þegar skipið var á leið frá Reykjavík til Árósa. Þetta staðfestir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Eimskips í samtali við mbl.is. Hún ítrekar að áhöfn skipsins hafi ekki legið undir grun lögreglu.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir upplýsingafulltrúi lögreglunnar á Austur-Jótlandi að 292.200 danskar krónur, jafnvirði um 5,9 milljóna íslenskra, hafi fundist um borð, en tollgæslan í Árósum tilkynnti málið til lögreglunnar. Segir í svari lögreglu að ekki hafi tekist að hafa uppi á eiganda fjárins og málið hafi því verið fellt niður nema frekari upplýsingar komi í ljós. Eru peningarnir skráðir sem „týnd eign“. idunn@mbl.is