Þuríður Bjarnadóttir fæddist á Gaddstöðum á Rangárvöllum 30. apríl 1942. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 20. desember 2023.

Foreldrar Þuríðar voru Bjarni Guðmundsson, f. 30. apríl 1897, d. 28. júlí 1944, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 11. ágúst 1897, d. 1. maí 1958. Átti hún tvö eldri systkini, Jón, f. 6. mars 1936, og Sigríði, f. 28. september 1932, d. 30. maí 2018. Uppeldismóðir Þuríðar var Sólveig M. Guðjónsdóttir og ólst hún upp hjá henni frá unga aldri.

Þuríður lauk námi við húsmæðraskóla í Reykjavík, vann hún á saumastofu á Selfossi og seinna á sambýli fyrir fatlaða á Selfossi. Hún hóf búskap á Selfossi árið 1962 með Baldvini Árnasyni en leiðir þeirra skildi síðar. Þau áttu saman synina Ingimar, f. 1963, Eið Eirík, f. 1965, og Hauk, f. 1977. Þuríði var margt til lista lagt þegar kom að handverki og átti prjónaskapur hug hennar allan og sinnti hún þeim hugðarefnum allt til loka.

Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 3. janúar 2024, klukkan 14.

Það er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um elskulega vinkonu, hana Þuru. Hún kvaddi okkur 20. desember eftir erfið veikindi.

Við kynntumst fyrir rúmlega 60 árum þegar hún og Baldvin uppeldisbróðir pabba giftu sig. Þegar ég átti mitt fyrsta barn 1964, hana Kristínu, vorum við Friðrik ekki farin að búa, en fengum íbúð um áramótin 1964-1965. Þá buðu Þura og Baldvin okkur að vera hjá sér í herbergi. Áttum við þar saman dásamlega daga.

Hún kenndi mér svo margt, t.d. alls konar útsaum, því þá var saumað í vöggusettin, og að prjóna peysu. Hún tók manni alltaf opnum örmum þegar komið var í heimsókn með eitthvað sem verið var að gera í höndunum og þurfti lagfæringar við.

Þau fluttu á Birkivelli og við í Hjarðarholtið, stutt á milli og auðvelt að koma börnum í pössun. Við fórum saman í nokkrar útilegur, t.d. í Galtalæk og Tungufellsskóg og skemmtum okkur vel með fjölskyldum okkar. Þegar börnin okkar voru fermd var hjálpast að við að baka og undirbúa veislu í heimahúsi. Garðurinn þeirra á Birkivöllum fékk verðlaun, en hann var fallegur eins og allt sem Þura gerði. Þau Þura og Baldvin skildu, en Þura var í fjölskyldu minni alltaf.

Hún var mikil handavinnukona og vildi gera allt vel. Fallegar og fullkomnar lopapeysur prjónaði hún, bæði á fjölskyldu og seldi á Þingborg. Henni þótti afar vænt um strákana sína og fjölskyldur þeirra og bar hag þeirra fyrir brjósti.

Við áttum sameiginlegt áhugamál, sem var að tína bláber á okkar stað. En nú er hún farin, elsku Þura mín, og við svo heppin að eiga fullt af góðum minningum til að ylja okkur við.

Vertu kært kvödd elskuleg.

Ragnheiður og fjölskylda.