Ingibjörg Pála Jónsdóttir fæddist á Hofsósi 24. maí 1926. Hún lést í Reykjavík 15. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Ragnhildur Pálsdóttir Leví frá Heggstöðum í Húnaþingi, húsfreyja í Reykjavík, f. 15. janúar 1895, d. 13. febrúar 1970, og Jón Sigtryggsson frá Framnesi í Skagafirði, fangavörður og síðar dóm- og skjalavörður við Hæstarétt, f. 8. mars 1893, d. 3. desember 1974. Systkini hennar eru Sigurlaug, f. 1927, d. 2021, Páll Leví, f. 1928, d. 1941, Sigrún Tryggvina, f. 1931, d. 2018, og Guðný, f. 1932, d. 1937.

Skömmu eftir að Ingibjörg fæddist fluttist fjölskyldan til Sauðárkróks þar sem faðir hennar starfaði sem kennari, þau fluttu til Reykjavíkur 1929, þegar Jón varð fangavörður í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og móðirin matráðskona þar. Þar bjó fjölskyldan fyrst um sinn, en flutti síðar á Ásvallagötu, þar sem Ingibjörg bjó fram á tíræðisaldur.

Ingibjörg giftist 28. febrúar 1953 Steingrími Pálssyni, síðar launa- og lífeyrisskrárritara í fjármálaráðuneytinu, f. 13. janúar 1927 á Húsavík, d. 22. apríl 2017. Foreldrar hans voru Þóra Steingrímsdóttir, húsfreyja á Akureyri, f. 1897, d. 1982, og Páll Einarsson, sýsluskrifari á Akureyri, f. 1893, d. 1983.

Börn Ingibjargar og Steingríms eru: 1) Hildur, lyfjafræðingur, f. 1951, d. 2021. 2) Einar, stærðfræðingur, f. 1955, maki Eva Hauksdóttir lögmaður, f. 1967. Börn Einars með fyrrverandi eiginkonu, Moni Ivarsson, f. 1948, fv. rektor í Gautaborg, eru: a) Elín Hildur, félagsfræðingur í Gautaborg, f. 1990, maki Richard Hjertquist, f. 1990, börn þeirra eru John, f. 2018 og Disa, f. 2021. b) Freyr Anton, læknir í Skövde, f. 1993, maki Freja Askeli, f. 1994, börn þeirra eru Vidar, f. 2017, Alva, f. 2020, og Arvid f. 2022. 3) Þóra, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, f. 1958, maki Haukur Hjaltason taugalæknir, f. 1958, börn þeirra eru: a) Ragnhildur, læknir í Uppsölum, f. 1990, maki Valdimar Viktor Jóhannsson, f. 1987, dóttir þeirra er Þóra Björk, f. 2022. b) Steinunn, verkefnastjóri við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, f. 1993, maki Þorsteinn Sigurður Sveinsson f. 1989, synir þeirra eru Flosi, f. 2020 og Grettir, f. 2022. c) Halla, háskólanemi í Reykjavík, f. 1997, maki Flóki Larsen, f. 1998.

Ingibjörg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946, vann við skrifstofustörf í Reykjavík næsta árið, nam svo sálfræði í Kaupmannahöfn frá 1947-1951, lauk ekki prófi þá, en aflaði sér viðbótarmenntunar síðar til starfsréttinda í félagsráðgjöf. Hún hóf störf á Geðverndardeild barna á sjöunda áratugnum, fluttist á nýstofnaða barna- og unglingageðdeild á Dalbraut um 1970, vann síðan sem félagsráðgjafi á Kleppsspítala í tvo áratugi og síðustu starfsárin sem félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Hún kom víða við í geðheilbrigðisþjónustu landsmanna, var m.a. starfsmaður Geðverndarfélags Íslands um árabil.

Útför Ingibjargar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 3. janúar 2024, klukkan 13.

Ferðalag okkar Ingibjargar Pálu stóð í vel rúma fjóra áratugi. Upphaf þess var að ég hreifst af Þóru dóttur hennar. Ferðin hófst á geðdeild Landspítalans þar sem við vorum öll þrjú við störf og nám. Þóra hreifst líka og úr varð ferð okkar sem hefur staðið í jafnlangan tíma og nokkrum dögum betur en okkar Ingibjargar Pálu. Af henni hefði ég ekki viljað missa og á þessum tímamótum er ástæða til að láta vita að hún hefur verið einkar ánægjuleg og árangursrík. Við þrjú, og reyndar að Steingrími Pálssyni tengdaföður meðtöldum, erum svo ólík að ég held að það hafi verið okkur öllum hollt og við kennt og bent hvert öðru til gagns. Sjálfur kom ég úr dálítið sveitalegri stemningu foreldra sem fluttu á mölina, sveita- í bestu merkingu. Með tengdaforeldrum og Þóru var mér kippt inn í borgaralega veröld og menningu sem ég hafði ekki áður kynnst en er þakklátur fyrir. Ég var ágætlega lesinn en mátti hafa mig allan við. Umræða um almenna þekkingu og leit í lexíkonum og uppflettiritum var venja en ekki undantekning í húsi þeirra Ingibjargar Pálu og Steingríms. Í matarboðum var fyrst gengið til setustofu og málin rædd með fordrykk. Ingibjörg Pála tók fullan þátt og skipulagði allt en stökk inn á milli til eldhúss þar sem hún undirbjó máltíð. Svo var gengið til borðstofu, oftar en ekki með ákveðinni sætaskipan, lagt á borð eftir reglum, dýrindismatur á borðum, ræður stundum haldnar. Þetta gat verið ögn þvingandi þegar ég kunni ekki á þetta, en vandist; ég er þakklátur fyrir. Með hækkandi aldri okkar allra og tilkomu kynslóðar barnanna, sem skildu ekki alltaf allt, breyttust siðir; að einhverju leyti veröld sem var.

Flutt til Uppsala, við Þóra og bráðlega bættust í hópinn Ragnhildur, Steinunn og Halla. Gaman þegar amma Pála og afi Steingrímur komu í heimsókn. Úr sínum stofum og venjum, frjálsari og nutu lífsins vel sýndist mér. Amma Pála kom oft, kom og frísetti mig svo ég gæti lokið doktorsvinnu með þriggja vikna vinnutörn að mestu aftengdur heimilisábyrgð; þökk sé Ingibjörgu Pálu, sem flutti svo hluta veislumatar alla leið til Svíaríkis. Svona tengdamæður eru ekki á hverju strái.

Hún vildi hafa reglu á hlutunum, var ákveðin og skoðanaföst. Hún vildi líta vel út og hafði stíl, var sigld og vel menntuð. Hún var trygg sínu fólki og náði það til tengdafjölskyldu hennar, vina, samstarfsfólks og margra annarra. Tryggð og tengsl og áhugi á fólki og ættartengslum var sannarlega hennar. Ingibjörg Pála sameinaði gamalt og það sem nýrra er. Hún lét veröld sem var ekkert á sig fá; áhugi hennar og framkoma við barnabörn, leikni hennar á farsímann og öll sú veröld sem hann opnaði henni eru til marks um lifandi áhuga hennar og færni. Vissulega hallaði undan undir það síðasta en hún handlék símann aðeins nokkrum dögum áður en hún sigldi áfram á þau mið sem bíða okkar allra.

Haukur Hjaltason

Það er svo gaman að fólki sem hefur einlægan áhuga á öðru fólki. Þannig var amma okkar Ingibjörg. Hún vildi vita hvernig dagurinn hefði verið, hvernig gengi, hvernig okkur liði, hvað væri fram undan. Hún hjó eftir nöfnum í blaðinu og útvarpinu og ætlaði einmitt að muna eftir að spyrja okkur hvort við þekktum til. Hún krafðist fulls nafns þegar við minntumst á nýjan vin. Hún spurði ekki bara spurninga heldur hlustaði líka vandlega á svör okkar og okkur fannst eins og hún léki sér að því að tengja fólk saman í huganum. Einlæg forvitni ömmu Ingibjargar, hreinskilni og sú óskipta athygli sem hún sýndi okkur gerðu að verkum að samband okkar við hana var dásamlegt vinasamband.

Í heimsókn á Ásvallagötu og síðar í Mörkina var alltaf fallegt um að litast. Stíll ömmu var klassískur en nútímalegur samtímis, kannski einmitt eins og hún sjálf. Hún var alltaf vel tilhöfð; neglurnar lakkaðar og varaliturinn skammt undan. Hún var matarunnandi og frábær kokkur en gætti alltaf hófs, vissi að stundin yrði önnur ef maður gleypti og svolgraði í sig. Amma Ingibjörg kom okkur þannig á sinn óþvingaða hátt í skilning um hve mikil sjálfsvirðing er fólgin í því að hugsa vel um sig.

Amma náði að verða 97 ára en það er ekki svo langt síðan okkur fór fyrst að finnast hún gömul. Alla tíð var hún dugleg að tileinka sér nýja tækni, sérstaklega ef tæknin færði hana nær fólkinu hennar, sem var víðsvegar um heiminn. Vel komin yfir nírætt notaði hún Facebook, Snapchat og Instagram og stillti símann á „hotspot“ þegar netsambandið var slæmt á tölvunni. Tjákn notaði hún óspart og eftir því sem þeirri notkun vatt fram læddist að okkur barnabörnunum sterkur grunur um að amma yrði að minnsta kosti 100 ára.

Síðasta ár tók hins vegar verulega að halla undan fæti. Lífið var þá einfalt í þeim skilningi að amma sinnti ekki öðru en grunnþörfum og svaf. Hún vildi þó alltaf spjalla þegar við komum til hennar. Hún lifði fyrir félagsskapinn og félagsskapurinn hélt henni gangandi. Félagsskapurinn var í senn grunnþörf og munaður. Þegar eitthvert okkar kom í heimsókn til hennar síðustu mánuðina og spurði hvernig hún hefði það svaraði hún: „Ég hef það gott núna þegar þú ert komin.“ Annað merki um félagslyndi hennar er hennar eigin upprifjun úr æsku: „Þegar ég var lítil fór ég alltaf að gráta þegar einhver gekk út úr herberginu sem ég var í.“ Kveðjutárin gengu í erfðir og það kom fyrir að við barnabörnin grétum þegar kom að því að kveðja eftir heimsókn hjá ömmu. Hún sagði þá það sama og afi hafði sagt við hana þegar hann fór út á land að vinna í landmælingum: „Við segjum ekki bless, við sjáumst bráðum.“

Okkur finnst skrýtið að segja bless við svona stórkostlega manneskju sem hefur yljað hjörtum okkar, og fótum, alla tíð, og við grátum. Kannski er bara betra að segja „sjáumst bráðum“.

Elín, Freyr, Halla, Ragnhildur og Steinunn.

Ingibjörg Pála var vinkona, samstarfskona og samferðakona okkar í lífinu til fjörutíu ára. Vandaðri manneskju er vart hægt að hugsa sér. Fyrstu kynnin urðu til við geðdeild Landspítalans á Kleppi haustið 1983. Þar vann þá stór hópur af samvinnufúsu fagfólki af bestu gerð. Ingibjörg setti okkur nýútskrifaða félagsráðgjafana inn í starfið og leiðbeindi. Hún hafði lært í Kaupmannahöfn og hafði mikla reynslu t.d. af geðverndarteymi fyrir börn við Heilsuverndarstöðina með Sigurjóni Björnssyni og fleiri brautryðjendum á sviði geðheilbrigðismála áður en hún hóf störf á Kleppi.

Samvinna, fræðsla og handleiðsla var mikils metin á þessum árum og þegar handleiðslunámi var komið á laggirnar í annað sinn, að tilstuðlan m.a. Sigrúnar Júlíusdóttur og Kristínar Gústavsdóttur, handleiddi Ingibjörg hóp hjúkrunarfólks og kom að uppbyggingu námsins.

Þegar við u.þ.b. sjö saman, félagsráðgjafar, sálfræðingar og geðlæknar, stofnuðum fjölskyldumeðferðarteymi var Ingibjörg einnig með. Við hittumst alla föstudaga eftir hádegi, tókum fjölskylduviðtöl og héldum erindi hvert fyrir annað upp úr hágæða fagbókum og greinum, ræddum vinnubrögð sem hæst bar í para- fjölskyldumeðferð og þerapíu.

Þegar brautryðjendaverkefnið Fjölskylduþjónusta kirkjunnar tók til starfa upp úr 1990 söðlaði Ingibjörg um og vann þar með Þorvaldi Karli Helgasyni og Benedikt Jóhannssyni til starfsloka.

Í kaffispjalli þegar Ingibjörg nálgaðist sjötugt sagði hún: „Ég hef aldrei unnið á betri stað en Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, ættir þú ekki að íhuga að sækja um þegar ég hætti?“ Þetta gerði undirrituð og var svo lánsöm að vinna með dásamlegu fólki á vegum kirkjunnar að málefnum fjölskyldna, handleiðslu djákna og presta auk fræðslu og feta þannig í fótspor Ingibjargar.

Eftir að Ingibjörg hætti að vinna bauð hún okkur vinkonum sínum úr fjölskyldumeðferðarteyminu heim í hlaðborð í hádeginu fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í herrans mörg ár. Minningarnar streyma um alls konar boð, t.d. jólaglöggsboð, hlátur og kímni yfir stóru og smáu.

Á barnsaldri var Ingibjörg um árabil uppalin í Tukthúsinu við Skólavörðustíg, því faðir hennar var þar húsvörður og móðir hennar eldaði kauplaust ofan í fangana: „Þeir voru yfirleitt yndislegir við mig fangarnir, sérstaklega einn sem smíðaði eiginlega öll mín leikföng. Þeir höfðu bara lent í ógæfu.“

Hún spannaði fróðleik heillar aldar og meira til. Hjartans þakkir Ingibjörg og fjölskylda.

F.h. okkar Bjarneyjar Kristjánsdóttur,

Elísabet Berta.

Gengin er mikil heiðurskona sem gott var að kynnast. Fyrst var það gegnum langvarandi vináttu okkar við Einar, son þeirra Ingibjargar og Steingríms Pálssonar. Við urðum þess heiðurs aðnjótandi að vera oft boðin í áramótaveislur fjölskyldunnar á Ásvallagötu með fjölbreyttum kræsingum þar sem menningarleg fágun og reisn í bland við hlýlegt og gamansamt viðmót allra skóp ógleymanlegar stundir. Annar reglubundinn dagskrárliður var svo stutt innlit rétt áður en gamlárskvöld var hringt inn og staðan á fólkinu tekin með stuttu rabbi yfir kampavínsglasi. Þá og alltaf einkenndi Ingibjörgu vingjarnlegur áhugi á því sem fólk tók sér fyrir hendur hverju sinni. Og óhjákvæmilegt að drepa örstutt á hin samfélagslegu mál sem hún hafði allróttæka afstöðu til og kunni gjörla skil á. Hin síðari ár fluttu þessir viðburðir sig til við breyttar heimilisaðstæður en áfram tókst að halda í anda þessara samverustunda með Ingibjörgu, fjölskyldu og vinum.

Hún var öflug andlega og dugleg langt fram í allháa elli sem má marka af því að níræð flutti hún kveðju síns árgangs við útskriftarathöfn hjá MR. Og var enn að fram á þetta 97. æviár sitt á samfélagsmiðli að koma á framfæri boðskap náttúruverndar og betri heilsugæslu. Það er með miklu þakklæti og virðingu að við kveðjum Ingibjörgu Pálu og höfum ávallt í heiðri þær minningar sem hún skóp með okkur og fjölskyldu sinni, sem við sendum samúðarkveðjur. Stundum spyr maður sig við skrif eins og þessi, hvaða orð kemur þér fyrst í hug um manneskjuna sem nú er kvödd? Svarið er: Mannbætandi.

Stefán Jón og Guðrún.

Það hafði dregist í nokkra daga að ég skrifaði Ingibjörgu Pálu jólakort. En svo þegar ég hafði loksins gripið pennann til að pára nokkrar línur, þá hringdi Einar sonur hennar til mín og tilkynnti mér andlát hennar. Það var eins og þetta jólakort ætti að vera óskrifað. Það hafði nefnilega ekki brugðist í áratugi að Ingibjörg hringdi rétt fyrir áramót og þakkaði fyrir jólakveðjuna.

Satt að segja byggðist samband okkar og fjölskyldna okkar á föstum liðum. Þau Steingrímur komu heim til foreldra minna á jóladag allt frá því að Hildur, elsta barnið þeirra, var aðeins nokkurra ára gömul en hin tvö ófædd. Í minningunni kom Steingrímur jafnan fótgangandi vestan af Ásvallagötu 5 og inn í Snekkjuvog, hvernig sem viðraði. Ingibjörgu hefði ekki munað um að ganga líka, og hún gerði það seinni árin, en meðan börnin voru ung skipti fjölskyldan liði og hún tók strætisvagninn.

En tveimur dögum fyrr, á Þorláksmessu, héldu Ingibjörg og Steingrímur árlega veislu þar sem hópur Hafnarstúdenta og fleiri snillinga var saman kominn; fyrsta Þorláksgildið var reyndar óundirbúið og samanstóð aðeins af foreldrum mínum og þeim hjónunum. Áratugum síðar, eftir að faðir minn var látinn, fóru Ingibjörg og Steingrímur að bjóða okkur Finnu til þessa fræga fagnaðar ásamt móður minni. Þannig hélt þetta áfram allt þar til Steingrímur lést, og reyndar í breyttu formi allt fram á þennan dag með Einari og Evu konu hans.

Það var alls ekki öruggt að árlegir fundir yrðu fleiri en þessir tveir, á Þorláksmessu og jóladag. Og við þetta eina símtal milli jóla og nýárs bættist kannski aðeins eitt eða tvö. En það nægði okkur til að vináttan yrði órofin.

Ingibjörg Pála var fáguð í framkomu og einlæg. Hún hafði enga þörf fyrir að láta ljós sitt skína, en engum dulist þó hve leiftrandi snjöll hún var og hve mikið hún hafði fram að færa. Vinmörg var hún í samræmi við það. Ég minnist þess hve margar lofræður voru fluttar á níræðisafmæli hennar þar sem vinir og fyrrverandi samstarfsmenn voru saman komnir hjá Þóru dóttur hennar og tengdasyninum Hauki.

Ég bjó í fáein ár á Ásvallagötu með fjölskyldu minni. Þá mætti ég þar oft þeim hjónum. Hún sporlétt og alltaf glöð í bragði og einstaklega hlý í viðmóti. Hann mikilúðlegur á reiðhjóli sínu með sitt volduga skegg. Maður hafði áhyggjur af honum í hálku því að hann jók hraðann að eigin sögn eftir því sem hálkan var meiri.

Ég minnist nú með þakklæti þessara góðu hjóna, eins ólík og þau voru. Hvort á sinn hátt höfðu þau með trygglyndi sínu og velvild mótandi og dýrmæt áhrif á okkur sem yngri vorum.

Baldur Hafstað.

Það sem snertir okkur mest í þessu jarðlífi er samferðafólkið, nánasta fjölskylda, vinir, samstarfsfólk og allir þeir sem hafa áhrif á líf okkar og það gerði hún Ingibjörg Pála svo sannarlega. Hún var svo margt í senn. Hún var góður vinur, hún var samferðakona í störfum til fjölda ára og handleiðari okkar margra sem minni reynslu höfðum. Þar miðlaði hún þekkingu sinni og fagmennsku af hlýju en jafnframt dálitlum strangleika því öguð vinnubrögð voru það veganesti sem hún umfram allt vildi hafa að leiðarljósi.

Kveðjustund er nú upprunnin en minningin mun lifa um ókomin ár meðal allra þeirra sem hana þekktu. Ég var svo lánsöm að vera samstarfskona hennar sem félagsráðgjafi á geðdeild Landspítala á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og var hún jafnframt handleiðari minn en handleiðsla í starfi er hugsuð sem efling fyrir starfsmanninn, aukning á starfsgleði hans og gæðum vinnubragða og ekki síst til að fyrirbyggja kulnun. Löngu eftir að Ingibjörg var komin á eftirlaun tók hún að sér handleiðslu fyrir Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og fengum við fjögur, sem þá störfuðum þar, að njóta stuðnings hennar og fagmennsku. En vinkonan Ingibjörg verður ekki síst minnisstæðust. Minningar um dásamlega gestrisni þegar hún ár eftir ár bauð okkur nokkrum vinkonum og starfssystrum heim til sín á aðventunni og við nutum veitinga sem voru á svo háu plani að það hvarflaði að manni að ávextirnir sem á borðum voru hefðu verið tíndir í aldingarðinum Eden. Á heimavelli nutu sín jafnframt vel fleiri eiginleikar í fari hennar eins og glaðværð og gamansemi ásamt hófstilltri kímnigáfu þegar rætt var um menn og málefni. Og forvitnin var aldrei langt undan. Að vita meira og leita þekkingar þegar fólk á í hlut. Forvitnin er sá drifkraftur sem er hvað mikilvægastur þegar ævistarfið hefur falist í því að vinna með og fyrir fólk. Mér hlýnar um hjartarætur þegar ég hugsa til Ingibjargar sem nú hefur kvatt okkur en skilið svo margt eftir, til að minnast, til umhugsunar og til eftirbreytni.

Ég votta hennar nánustu fjölskyldu og vinum og öllum þeim sem hún snerti við með lífi sínu mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning hennar.

Rannveig

Guðmundsdóttir.

Heiðurskona hefur kvatt á 98. aldursári, kær vinkona og starfsfélagi. Ingibjörg Pála var heilsteypt og vönduð manneskja og gæfa að kynnast henni og mannkostum hennar. Við fylgdumst að í hálfa öld. Fyrir það er ég ævarandi þakklát og ekki síst aldursmuninn sem leyfði mér að njóta reynslu hennar og „foreldramyndugleika“ bæði í lífi mínu og starfi.

Ljúfar minningar koma upp í hugann. Við kynntumst fyrst sem félagsráðgjafar á Kleppsspítala sumarið 1969 þegar ég leysti af vinkonu okkar og kollega, Kristínu Gústavsdóttur, og fyrir alvöru sumarið 1972 þegar ég kom heim frá námi í Svíþjóð og tók við starfi Kristínar sem þá var einmitt að flytja þangað. Ingibjörg saknaði Kristínar mjög og orðaði það þannig að við Kristín hefðum „mæst í loftinu“ og það hefði verið lán. Ingibjörg hafði þá sjálf þegar stundað sitt nám í Kaupmannahöfn og öðlast reynslu hér heima.

Ingibjörg var í hópi frumkvöðla í félagsráðgjöf á Íslandi, fyrst á sviði geðheilbrigðisþjónustu barna og síðan á Kleppsspítala. Með okkur tókst vinátta, gagnkvæm virðing og áhugi á klínískri félagsráðgjöf, hjóna- og fjölskyldumeðferð og faghandleiðslu. Varðandi siðfræði meðferðarstarfsins kom maður ekki að tómum kofunum hjá Ingibjörgu. Hún hafði óvenju sterka vitund um siðagildi og fagmennsku, en líka um pólitískt samhengi, mannréttindi, jöfnuð og réttlæti. Hún var fljót að sjá muninn á réttu og röngu og finna hvað var viðeigandi og óviðeigandi. Þar var enginn afsláttur gefinn. Eftir ráðslag með henni þurfti stundum að axla eigin ábyrgð með rökum út frá margslungnum gildum og sjónarhornum – en þá var líka alltaf stuðningurinn vís. Ófáir ungfélagsráðgjafar nutu handleiðslu Ingibjargar og mörg minnast þeirrar áhrifaríku reynslu enn í dag.

Ingibjörg var stundum efins gagnvart framkvæmd nýrra hugmynda en hreifst líka auðveldlega með í leikinn og lagði gott til mála. Þar eru minnisstæð fyrstu uppeldisnámskeiðin okkar tveggja hér á landi fyrir foreldra unglinga. Við héldum þau á 8. áratugnum að kvöldlagi í þröngum húskynnum Geðverndarfélagsins í Hafnarstræti og höfðum meðferðis kaffibrúsa og jólaköku handa þátttakendum! Aðeins „fyrirmyndarforeldrar“ sóttu námskeiðin! Lengi minntumst við þeirra með gleði og þakklæti fyrir viðtökurnar.

Við bjuggum á sömu slóðum í Vesturbænum og áttum óteljandi gæðastundir, oft eftir kvöldgöngu, yfir léttvínsglasi eða tebolla í nánu spjalli um lífið og tilveruna. Fallega klukkan hennar Ingibjargar sló alltof oft og hátt – til miðnættis! Á Ásvallagötunni kynntist ég líka funheitu súkkulaði með rjóma og lögg af koníaki útí. Við Ingibjörg hringdumst alltaf á um hádegið á aðfangadag, bara til að „taka stöðuna“ og segja gleðileg jól. Ég sakna hennar djúpt og fann missinn sárt um þessi jól.

Félagsráðgjafahópurinn á Kleppi var samstilltur, fyrsti frumkjarninn sem kynti eldana kringum hugmyndafræði fjölskyldumeðferðar og handleiðslu. Við nutum fjarhandleiðslu Kristínar og Karls Gustafs með sannri velþóknun Ingibjargar. Við kölluðum okkur „GG og Ingibjörg“! Hún var aldursforsetinn og þroskaður leiðtogi fyrir okkur yngri „geðdeildargellurnar“ (GG). Þá var margt sprellað, oftast með faglegu ívafi, en eitt sinn sóttum við Ingibjörgu á límúsínu til Keflavíkur með freyðivíni og söng, ásamt óvæntri stórafmælisveislu í Skólabæ. Allt í samráði við Steingrím sem beið heimkomu sinnar elskuðu frá Uppsalaheimsókn til barna og barnabarna. Steingrímur var alltaf bakhjarlinn og seint verða þökkuð öll þau veisluboð sem hann bjó þessum hópi. Hann var líkt og ósýnilegur huldumaður sem galdraði fram gómsæta rétti og fágæti grænmetis og framandi ávaxta – sem enginn skildi hvaðan komu!

Við Þorsteinn þökkum Ingibjörgu Pálu ómetanlega vináttu og tryggð, og sendum fjölskyldu hennar einlægar samúðarkveðjur.

Meira á www.mbl.is/andlat

Sigrún Júlíusdóttir.

Ég minnist Ingibjargar Pálu með þakklæti í huga fyrir frábært samstarf er leiðir okkar lágu saman á upphafsárum Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Hún var góð manneskja, velviljuð og nærgætin og fagleg vinna hennar til fyrirmyndar í hvívetna. Hún var skyldurækin og samviskusöm og ávallt vel undirbúin í viðtölum við fólk og skilningsrík á aðstæður fólks. Ingibjörg kom með mikla reynslu sem félagsráðgjafi á Landspítalanum og það var mikil blessun fyrir þessa nýju fámennu stofnun. Mér fannst ávallt gott að vinna með henni og aldrei taldi hún sig vita meira og betur en við hin. Þar kom vel í ljós viðhorf hennar til samstarfs og samtals við fjölskyldur þar sem allir voru jafnir og skiptu máli við að bæta líðan allra.

Starfshandleiðsla presta og síðar djákna var fljótlega tekin upp og einnig þar reyndist reynsla hennar af Landspítalanum og fagleg vinna traustur grunnur að góðri og mikilvægri þjónustu fyrir starfsfólk kirkjunnar. Í þessu brautryðjendastarfi öllu nutum við tryggrar handleiðslu Kristínar Gústavsdóttur fjölskyldufræðings.

Ingibjörg sagði mér stundum sögur af því þegar hún var barn. Þá bjó hún í fangelsinu á Skólavörðustíg þar sem faðir hennar var fangavörður. Þau deildu eldhúsinu með föngunum og það voru þeir sem kenndu henni að lesa. Hún var reyndar líka nágranni tengdamóður minnar, nöfnu hennar, sem bjó þá í næsta húsi og rifjaði upp þegar þær sátu saman og dingluðu fótunum eins og glaðir krakkar gera.

Það var ógleymanlegt að heimsækja hana á Ásvallagötuna þar sem hún og Steingrímur bjuggu í áratugi. Heimilið bar vott um nægjusemi þar sem menntir og listir voru meira virði en að hafa vítt til veggja. Hún kvaddi að lokum þetta listskreytta heimili sitt og gladdist þegar eitt barnabarnið flutti þar inn. Þá var hún orðin ekkja en síðustu árin bjó hún í Mörk í návist Hildar dóttur sinnar.

Ingibjörg var ekki aðeins nákvæm og vandvirk í sínu fagi heldur lagði hún mikið upp úr því að vanda mál sitt og ígrunda vel hvað væri sagt og ritað. Hún hafði ákveðnar skoðanir en lét þær ekki í ljós háum rómi en þegar hún tók til máls lagði ég við hlustir. Jafnan var stutt í hlátur og glaðværð. Í svo mörgu miðlaði hún af visku sinni og kunnáttu og reyndist mér góður kennari þessi fáu ár sem við áttum samleið.

Guð blessi minningu Ingibjargar Pálu og vaki yfir börnum hennar og fjölskyldum.

Þorvaldur Karl Helgason.

Mikil heiðurskona, sem hefur lifað fallegu og farsælu lífi, er fallin frá í hárri elli.

Leiðir okkar lágu saman á nýstofnaðri Geðverndardeild fyrir börn 1963 í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Þar voru saman komnir sérfræðingar á sviði barna og fjölskyldna sem unnu metnaðarfullt brautryðjendastarf. Ingibjörg hafði numið sálfræði í Kaupmannahöfn og nýttist kunnátta hennar vel í starfinu.

Ingibjörg var heilsteyptur persónuleiki og aðalsmerki hennar voru vönduð vinnubrögð og gott málfar. Hún fékk verkefni sem tengdust meðferðarstarfi og síðar réttindi félagsráðgjafa. Við störfuðum seinna saman á Kleppsspítala.

Ingibjörg var fáguð í framkomu, virtist við fyrstu kynni hlédræg en leyndi á sér og var í rauninni óhrædd við að láta skoðanir sínar í ljós á mönnum og málefnum. Hún hafði ekki þörf fyrir að láta á sér bera, var góður hlustandi og leikin við að láta aðra njóta sín og naut sín vel í klínískri vinnu félagsráðgjafa og í handleiðslustörfum.

Ingibjörg var skemmtileg blanda af að hafa gömul gildi í hávegum en vera líka opin fyrir nýjungum, t.d. var hún lagin við að nota snjallsíma og fylgdist á þann hátt af miklum áhuga og gleði með barnabörnum og ættingjum sem bjuggu erlendis.

Uppeldisaðstæður Ingibjargar voru sérstakar, faðir hennar var yfirfangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og móðir hennar matráðskona þar. Þarna bjó hún með fjölskyldunni nokkur bernskuár og átti góðar minningar um fanga sem smíðuðu leikföng og lásu fyrir hana. Reynslan af að umgangast fangana lagði kannski grundvöll að því fordómaleysi og umburðarlyndi sem hún sýndi fólki og í starfi sínu sem félagsráðgjafi.

Árið 1936 flutti fjölskyldan að Ásvallagötu 5 og þegar þau Steingrímur fóru að búa bjuggu þau á hæðinni fyrir ofan æskuheimilið og nutu góðs af því að hafa afa og ömmu á neðri hæðinni. Ingibjörg kynntist Steingrími í Kaupmannahöfn þar sem bæði voru við nám. Þau urðu fyrir miklum áhrifum af danskri menningu og siðum, samhent um að halda veislur og nutu sín sín vel í hlutverki gestgjafa. Vinsælust var árvissa veislan á Þorláksmessu þar sem boðið var upp á alíslenskan mat og drykk. Vinirnir lögðu sitt af mörkum, mikið var sungið, ljóð voru flutt og ræður haldnar. Gestir fluttu allskyns fróðleik og uppákomur, þar var mikil stemning og glatt á hjalla. Það var alltaf notalegt í fallegu stofunni á Ásvallagötu, hún var í sérstökum litum sem vinur þeirra Svavar Guðnason listmálari hafði ráðlagt. Stofan var málverk.

Ingibjörg var kjarkmikil í ellinni og var fallegt að fylgjast með hvernig hún hugsaði um Steingrím síðustu árin. Síðar flutti Ingibjörg í Mörkina þar sem þær mæðgur fengu fallegar íbúðir hlið við hlið og áttu nokkur góð ár saman. Það var mikið áfall þegar Hildur dó 2021.

Ingibjörg hafði ljúft viðmót og fallegt bros sem enginn gleymir.

Við Karl Gustaf og börn okkar sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og þakklæti fyrir einlæga vináttu og tryggð öll árin.

Meira á www.mbl.is/andlat

Kristín Gústavsdóttir.