Guðmundur Jónsson fæddist 17. nóvember 1944. Hann lést 12. desember 2023.
Útför Guðmundar fór fram 22. desember 2023.
Þegar Guðmundur Jónsson í Björk er allur leita ýmsar minningar á hugann. Hann hefur verið hluti af tilverunni alla mína tíð. Við vorum nú sveitungar og oft lá leið hans í Litlu-Sandvík í ýmsum erindagjörðum að hitta afa eða pabba. Margvísleg voru verkefnin sem Guðmundur tók að sér. Ég man eftir honum lagfæra miðstöðvarkyndinguna í Litlu-Sandvík eftir að hitaveitan var lögð. Ég man eftir honum sem smið hjá Helga frá Súluholti hvort sem sett var ný klæðing á íbúðarhúsið eða byggt nýtt fjós. Hann var mjólkurbílstjóri hjá mjólkurbúinu eftir að smíðum lauk og eitt sinn hitti ég Guðmund í Björk í mjólkurhúsinu í Litlu-Sandvík að sækja mjólkina. Ég man eftir honum rekandi kindur foreldra sinna sem komu til böðunar í rjómaskálann við Sandvík. Þar man ég reyndar eftir honum að deila við föður minn um tilhögun rekstrar í baðið, bara einu sinni, en yfir Guðmundi ríkti einskonar innri ró, en jú auðvitað skildu þeir í vinsemd eftir snarpa senu og eflaust hefur Guðmundur haft rétt fyrir sér. Ógleymanlegt atvik en þetta var undantekningin því ég sá Guðmund aldrei aftur skipta skapi. Guðmundur í Björk var lengi gjaldkeri Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps og þar var ekki verið að flækja hlutina, hann fór á fund allra 70 félaga félagsins og rukkaði hvern og einn. Á aðalfundum félagsins tók Guðmundur alltaf til máls þegar dagskrá var langt komin og lagði fram tillögu að félagsgjaldi. Þegar ég var fluttur á Selfoss var það árvisst að hann kæmi og rukkaði þetta litla félagsgjald. Nú eru aðrir tímar og núverandi gjaldkeri lætur sér nægja að senda kröfu í banka. En það er margs annars að minnast og í minningunni stendur eftir þessi yfirvegaði og hjálpfúsi nágranni sem nú hefur haldið í sumarlandið.
Lýður Pálsson.