Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Oddur Arnþór Jónsson barítón og Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran verða einsöngvarar á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu 4. til 6. janúar. Á efnisskrá eru óperettutónlist, valsar og polkar undir stjórn Mirians Khukhunaishvilis.
Frá hausti 2021 hefur Álfheiður Erla verið fastráðin við Leikhúsið í Basel í Sviss. „Ég var send í Suzuki-söngnám fjögurra ára, söngurinn hefur verið líf mitt og yndi frá fyrsta söngtímanum og síðan þá var ég staðráðin í að starfa sem söngkona,“ segir hún. Álfheiður Erla söng í ýmsum kórum, útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz 2013 og eftir stúdentspróf fór hún í framhaldsnám í Hanns Eisler-tónlistarháskólanum í Berlín í Þýskalandi, þar sem hún lauk bakkalár- og meistaranámi.
Álfheiður Erla var í hlutverki Mjallhvítar í óperunni Schneewittchen eftir Wolfgang Mitterer 2019. Það var fyrsta hlutverk hennar í óperuhúsinu í Berlín og síðan hefur hún haslað sér völl á óperusviðinu en hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2021. Stærstu hlutverk hennar til þessa eru Gilda í Rigoletto eftir Verdi, engillinn í St. Francois d'Assise eftir Messiaen og einsöngshlutverk í Einstein on the Beach eftir Philip Glass. „Það er mikil gæfa að starfa í óperuhúsi og á tónleikasviðum með framúrskarandi kollegum,“ segir hún. „Ekkert jafnast á við lifandi samspil hljómsveitar og söngs og að fá að syngja fjölbreytta tónlist fyrir tónleikagesti.“
Söngur og dans
Þetta eru fyrstu Vínartónleikar Álfheiðar Erlu en hún hefur áður sungið með Sinfó, flutti hátíðlegar aríur eftir Händel og Mozart á aðventutónleikunum 2020. „Ég hlakka til að bæta fleiri spennandi hlutverkum í verkefnabankann og fylgja eftir Poems, nýútkominni plötu okkar Viktors Orra Árnasonar.“
Oddur Arnþór er sjálfstætt starfandi söngvari og hefur búið í Salzburg í Austurríki síðan 2009. „Ég hef aldrei verið fastráðinn, alltaf verið í lausamennsku,“ segir söngvarinn, sem var í Flataskóla í Garðabæ þegar hann hóf ferilinn í Skólakór Garðabæjar undir stjórn Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur.
„Ég hætti að syngja þegar ég fór í mútur en byrjaði síðan aftur þegar ég var í Verslunarskóla Íslands og kór skólans var endurvakinn,“ heldur Oddur Arnþór áfram. Þaðan lá leiðin til Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur í Söngskólanum í Reykjavík. „Hún hafði þau áhrif á mig að ég hélt áfram söngnámi og ákvað að leggja söng fyrir mig.“
Hann stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng í Mozarteum-tónlistarháskólanum í Salzburg og útskrifaðist 2014. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem söngvari ársins fyrir hlutverk Michaels í Brothers, óperu Daníels Bjarnasonar á Listahátíð sama ár. Hann hefur sungið fjölda óperuhlutverka heima og erlendis og fengið ýmsar viðurkenningar, meðal annars í Austurríki, Þýskalandi og á Spáni. „Það hefur gengið mjög vel hjá mér og það er alltaf skemmtilegt að koma heim og syngja.“
Oddur Arnþór söng á Vínartónleikum í Noregi 2020 en þótt hann hafi ekki sungið á Vínartónleikum hérlendis hefur hann nokkrum sinnum tekið þátt í þeim. „Ég er líka samkvæmisdansari og þegar ég var unglingur dansaði ég á nokkrum Vínartónleikum með Sinfó.“