Stórfjölskyldan Helgi og Kristín ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum á Tenerife árið 2022.
Stórfjölskyldan Helgi og Kristín ásamt börnum, tengdabörnum og barnabörnum á Tenerife árið 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Kristjánsson fæddist 4. janúar 1954 á fæðingardeildinni í Reykjavík, en ólst að mestu upp í Garðinum fram til sex ára aldurs, þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. „Á þeim árum var Garður frekar fámennt samfélag fólks, þar sem lífið snerist allt um sjósókn og verkun á fiski

Helgi Kristjánsson fæddist 4. janúar 1954 á fæðingardeildinni í Reykjavík, en ólst að mestu upp í Garðinum fram til sex ára aldurs, þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. „Á þeim árum var Garður frekar fámennt samfélag fólks, þar sem lífið snerist allt um sjósókn og verkun á fiski. Fjaran og bryggjan var aðalleiksvæðið okkar og mikið frjálsræði hjá krökkum. Þegar við flytjum til Reykjavíkur um 1960 þá breytist þetta talsvert hjá mér og leiksvæðin verða önnur, en samt var farið oft með strætó á höfnina að fylgjast með skipum og bátum, en aðallega togurum sem þá voru allnokkrir í Reykjavík.“

Fjölskyldan flutti fyrst í Lönguhlíð 19 og skólaganga Helga byrjaði í sex ára og sjö ára bekk í Ísaksskóla, síðan átta og níu ára bekk í Hlíðaskóla. Síðan flutti fjölskyldan í Álfheima 44 og þá var farið í Langholtsskóla og skyldunáminu lokið seinna frá Vogaskóla.

Á sumrin var Helgi sendur í sveit til lengri eða skemmri dvalar. Í fyrstu var það að Stóru-Gröf í Skagafirði og seinna að Höskuldsstöðum á Skagaströnd en 13 og 14 ára var Helgi á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi. Eftir það vann hann eingöngu á sjó næstu 20 árin.

„Ég hafði alltaf mikinn áhuga fyrir sjómennsku og ég held að ég hafi mjög ungur verið ákveðinn í því að verða sjómaður og skipstjóri. Ég fór á sjóvinnunámskeið hjá æskulýðsráði Reykjavíkur þegar ég var 12 ára þar sem Hörður Þorsteinsson og Sigurður Óskarsson kenndu ungum strákum ýmsa vinnu við veiðarfæri. 14 ára kunni ég orðið að splæsa saman víra og tóg, ásamt því að gera við og bæta trollnet. Með þessa þekkingu fékk ég árið eftir pláss hjá Ragnari Franssyni skipstjóra á síðutogaranum Jóni Þorlákssyni frá Reykjavík og síðar á skuttogaranum Karlsefni frá Reykjavík. Ég var með Ragnari þar til ég fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík, um haustið 1972, að undanskildum skólatíma í gagnfræðaskóla og þremur mánuðum sem ég fór á fraktskipið Hofsjökul, sem sigldi með frystar sjávarafurðir til Bandaríkjanna.“

Eftir að Helgi útskrifaðist af 3. stigi Stýrimannaskólans árið 1975 með fiskimanna- og farmannapróf lá leiðin aftur á sjóinn. „Þá réðst ég sem háseti og síðar stýrimaður á nótaskipið Gísla Árna frá Reykjavík, hjá Eggert Gíslasyni, frænda mínum. Ég var á því skipi í tæplega eitt ár, en þá þróuðust málin þannig að ég hitti Ragnar Thorsteinsson og tókum við tal saman sem endaði á því að hann réði mig sem skipstjóra á skuttogarann Karlsefni, sem var í eigu útgerðar með sama nafni.

Þetta var talsvert átak fyrir 22 ára mann að taka við skipstjórn á stórum togara með 24 menn um borð, sem flestir voru nokkrum árum eldri en ég. Þarna var ég skipstjóri næstu 13 árin, eða til ársins 1988 þegar ég sótti nýjan frystitogara í eigu Sjólastöðvarinnar til Noregs. Sjólastöðin hafði keypt Karlsefni ári áður og lagt því síðan til að fá leyfi fyrir hinu nýja skipi. Skipið hét Haraldur Kristjánsson, en var seinna skírt Helga María og heitir það enn 35 árum síðar.

Árin á Karlsefni standa alltaf upp úr í mínum huga, okkur gekk vel þótt það hafi verið aðeins basl í byrjun. Á vetrum vorum við á veiðum fyrir erlenda markaði, aðallega Þýskaland þar sem við settum tvisvar sölumet á fiski. Einnig var landað í Englandi, en yfir sumarmánuði var landað í Reykjavík. Útgerðin var til fyrirmyndar, öll samskipti við Ragnar Thorsteinsson opin og hreinskiptin, sem er nauðsynlegt í samstarfi milli útgerðarmanns og skipstjóra. Þarna kynntist maður mörgum frábærum mönnum sem seinna fóru með mér yfir á Harald og voru þar til margra ára.“ Þegar Helgi var á Karlsefni stundaði hann þriggja anna nám við Tækniskóla Íslands í útgerðartækni.

Árið 1989 hætti Helgi á Haraldi Kristjánssyni, fór í land og réðst sem útgerðarstjóri hjá Sjólastöðinni til ársins 1994, að hann söðlaði aftur um og fór í þriggja mánaða verkefni sem útgerðarstjóri hjá nýstofnuðu fyrirtæki í Namibíu, Seaflower Whitefish. „Ég vann síðan hjá Íslenskum sjávarafurðum í um fjögur ár, en fór þá með Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði að sækja skip til Írlands og undirbúa fyrir veiðar á kolmunna og síld. Skipið hét Hoffell og ég var skipstjóri þar í eitt ár, en Bergur Einarsson var fyrsti stýrimaður og tók síðar við skipinu.“

Eftir þetta tímabil starfaði Helgi hjá Skipatækni hf. í um þrjú ár, sem sölustjóri fyrir þjónustu við ýmis skipasmíðaverk, aðallega erlendis, í Kína og víðar. Árið 2003 keypti Helgi hlut í fyrirtækinu Naust Marine sem aðallega var í hönnun á rafbúnaði fyrir vindur í togurum. „Næstu 17 árin var vinnan að mestu fólgin í því að sækja sjávarútvegssýningar heima og erlendis, ásamt því að heimsækja togaraútgerðir sem voru í hugleiðingum um vindukaup í skip. það voru t.d. útgerðir í Japan, Argentínu, Hollandi, Chile, Rússlandi og Bandaríkjunum ásamt Íslandi. Til að komast nær kaupendum stofnaði Naust Marine söluskrifstofu í Seattle, sem ég stýrði um tíma þegar ég bjó þar.

Árið 2003 keypti ég einnig handfærabát sem var í svonefndu „dagakerfi“. Ég nýtti allan minn frítíma á sumrin til að stunda sjóróðra á þessum bát frá Arnarstapa á Snæfellsnesi. Síðan hef ég endurnýjað tvisvar og er nú með sama bátinn síðan 2007. Frá 2019 hef ég verið eingöngu í trillubransanum, eftir að ég seldi minn hlut í Naust Marine og fór á eftirlaun.“

Fjölskylda

Eiginkona Helga er Kristín Þórunn H. Helgadóttir, f. 24.12. 1954, sjúkraliði. „Við kynntumst á árunum þegar ég var í Stýrimannaskólanum og giftum okkur 9.4. 1977. Við búum í Brekkubyggð 22 í Garðabæ, en þangað fluttum við með þrjár dætur 9.4. 1982.“ Foreldrar Kristínar voru Helgi Salómonsson, f. 25.10. 1915, d. 22.7. 1981, og Kristín Þórunn Kristinsdóttir, f. 6.9. 1921, d. 26.3. 1955.

Börn Helga og Kristínar eru 1) Aníta Björk sérkennari, f. 1.3. 1974, maki: Jón Valgeir Björnsson byggingaverkfræðingur; 2) Hrafnhildur hjúkrunarfræðingur, f. 29.12. 1977, maki: Sindri Freyr Jónsson rafvirkjameistari; 3) Fjóla Kristín mannauðssérfræðingur, f. 25.5. 1981, maki: Þorgrímur Ingason viðskiptastjóri. Barnabörnin eru sjö í aldursröð: Helgi Snær, Róbert Orri, Hrafn Ingi, Freyja, Kristín, Emma og Júlíana.

Alsystir Helga er Guðmunda, en sammæðra systkin í aldursröð eru Jóna Sigrún, Hjörtur, Ingibjörg Halla og Sigurður. Samfeðra systkin í aldursröð eru Ómar, Katrín, Bryndís, María Guðbjörg, Þorsteinn og Guðríður. Fósturdóttir föður Helga er Ása Gígja.

Foreldrar Helga voru Ágústa Sigurðardóttir afgreiðslukona, f. 17.6. 1933, d. 7.11. 2012, og Kristján Karl Pétursson vélvirki, f. 16.10. 1931, d. 11.5. 1979. Fóstri Helga var Hjörtur Frímann Guðmundsson leigubílstjóri, f. 15.7. 1918, d. 4.10. 2009.