Frumkvöðull Teiknimyndin Steamboat Willie á fartölvuskjá. Höfundarréttur vegna persónanna í þessari teiknimynd er nú fallinn úr gildi.
Frumkvöðull Teiknimyndin Steamboat Willie á fartölvuskjá. Höfundarréttur vegna persónanna í þessari teiknimynd er nú fallinn úr gildi. — Ljósmynd/Brandon Bell/Getty Images
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Varla var liðinn sólarhringur frá því höfundarréttarvernd á upphaflegu útgáfunni af Mikka mús rann út í Bandaríkjunum þar til boðað var að tvær nýjar hryllingsmyndir með þessari ástsælu teiknimyndahetju yrðu framleiddar

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Varla var liðinn sólarhringur frá því höfundarréttarvernd á upphaflegu útgáfunni af Mikka mús rann út í Bandaríkjunum þar til boðað var að tvær nýjar hryllingsmyndir með þessari ástsælu teiknimyndahetju yrðu framleiddar.

Fyrsta teiknimynd Walts Disneys um Mikka, Steamboat Willie, kom út fyrir réttum 95 árum og samkvæmt bandarískum lögum rann höfundarréttarvernd á teiknimyndapersónunni, eins og hún birtist í þessari mynd, út um áramótin. Yngri útgáfur af Mikka, eins og þær birtust í teiknimyndum Disneys, njóta þó enn höfundarréttarverndar.

Þetta þýðir að allir geta nú fjölfaldað, deilt og endurnýtt með öðrum hætti upphaflegu útgáfuna af persónum sem birtust í Steamboat Willie, þar á meðal Mikka og einnig Minnie mús, vinkonu hans.

Þótt Disney-kvikmyndafyrirtækið hafi sagst ætla að reyna að vernda teiknimyndapersónurnar með öllum ráðum var almennt búist við því að tækifærissinnaðir kvikmyndagerðarmenn yrðu fljótir að nýta sér þessa stöðu og boða eigin endurgerðir – og það kom á daginn.

Þannig birti leikstjórinn Jamie Bailey myndskeið á YouTube um áramótin þar sem hann boðaði kvikmyndina Gildra Mikka músar. Þar mun grímuklæddur morðingi í Mikka-búningi ofsækja hóp ungra vina í skemmtigarði.

„Okkur langaði að skemmta okkur,“ segir Baily í myndskeiðinu. „Ég meina, þetta er Steamboat Willie-útgáfan af Mikka mús að myrða fólk. Það er fáránlegt. Við gripum þessa hugmynd á lofti og skemmtum okkur konunglega og það skín í gegnum myndina.“

Búist er við að myndin verði sýnd í mars.

Þá sendi kvikmyndagerðarmaðurinn Steven LaMorte, sem m.a. gerði árið 2022 myndina The Mean One þar sem teiknimyndapersónan Trölli gekk berserksgang, frá sér tilkynningu þar sem hann sagðist vera að vinna að hryllingsmynd með Mikka.

„Steamboat Willie hefur glatt margar kynslóðir en undir glaðlegu yfirborði hans liggja möguleikar á hreinræktuðum og klikkuðum hryllingi,“ segir LaMorge í tilkynningunni. Áformað er að hefja framleiðslu á myndinni í vor.

Bæði þessi boðuðu verk minna á myndina Winnie-the-Pooh: Blood and Honey, ódýra kvikmynd sem komst í fréttir á síðasta ári eftir að höfundarvernd á fyrstu bókum A.A. Milnes um Bangsímon rann út.

Sérfræðingar segja að Disney muni fylgjast grannt með þróun mála og senda lögmenn sína á vettvang ef minnsta tilefni gefst. Aðeins fyrstu svarthvítu útgáfurnar af Mikka eru nú án höfundarréttarverndar, ekki síðari útgáfur sem birtust meðal annars í myndum á borð við Fantasíu.

Og vörumerkjavernd þýðir, að kvikmyndir eða aðrar vörur, sem gætu afvegaleitt neytendur og látið þá telja að um sé að ræða efni frá Disney, gætu verið skaðabótaskyldar. „Við munum að sjálfsögðu halda áfram að verja rétt okkar varðandi yngri útgáfur af Mikka mús og önnur verk sem eru varin af höfundarrétti og munum bregðast við óheimilli notkun á Mikka og öðrum persónum,“ segir í yfirlýsingu frá Disney.

En LaMorte sagði í samtali við tímaritið Variety að hann hefði engar áhyggjur. „Við munum tryggja að enginn velkist í vafa um hvað við erum að gera,“ sagði hann. „Þetta er okkar útgáfa af persónum sem njóta ekki lengur höfundarréttarverndar.“

Steamboat Willy

Ein fyrsta talteiknimyndin

Kvikmyndin Steamboat Willie var þriðja teiknimyndin sem gerð var um Mikka mús en sú fyrsta sem komst í dreifingu vegna þess að Walt Disney, sem þá hafði séð The Jass Singer, fyrstu talmyndina, hafði einsett sér að framleiða eina af fyrstu teiknimyndunum með samræmdu hljóði. Ub Iwerks leikstýrði myndinni, sem var frumsýnd 18. nóvember 1928. Hún hlaut nánast einróma lof og var árið 1996 kosin besta teiknimynd allra tíma. Í henni stjórnar Mikki gufuknúnum fljótabáti og lendir í ýmsum hremmingum. Mikki og Minna tala ekkert í myndinni heldur rymja, skrækja og hlæja. Sá eini sem heyrist segja skiljanlegar setningar er skipspáfagaukurinn.