Sigríður Sigurbergsdóttir fæddist í Reykjavík 12. mars 1937. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 25. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurbergur Pálsson, f. 1910, d. 1998, og kona hans Ingunn Kristrún Grímsdóttir, f. 1905, d. 1975. Systur Sigríðar eru: Pálína, f. 1940, og Bára, f. 1943, d. 2015.

Hinn 19. maí 1956 giftist Sigríður Birni Pálssyni, f. 6. nóvember 1933, d. 13. október 2001. Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1898, d. 1972, og kona hans Bjarnheiður Magnúsdóttir, f. 1902, d. 1981. Börn Sigríðar og Björns eru:

1) Sigurbergur, f. 1956, giftur Guðríði Vilhjálmsdóttur, f. 1955. Þeirra börn eru: 1a) Björn Logi f. 1991, giftur Sonju Báru Gunnarsdóttur, f. 1991, þeirra sonur er Hlynur f. 2021. 1b) Bjarnheiður, f. 1993. Auk þess á Sigurbergur dótturina 1c) Sigríði Birnu, f. 1986, gift Hafsteini V. Guðbjartssyni, f. 1981, og eiga þau börnin Steinar Breka, f. 2011, og Vigdísi Freyju, f. 2017. Fyrir á Guðríður dæturnar: 1d) Sigríði Sóleyju Guðnadóttur, f. 1975, gift Óla B. Jónssyni, f. 1976, og eiga þau dæturnar Hildi Björgu, f. 2004, og Guðnýju, f. 2007. Fyrir á Sigríður Sóley soninn Bergstein Ásgeirsson, f. 2001. 1e) Bergdísi Guðnadóttur, f. 1982, og á hún börnin Axel Örn Kjartansson, f. 2008, og Birtu Kamillu Egilsdóttur, f. 2016.

2) Birna Hugrún, f. 1957, gift Jóhannesi Jónssyni, f. 1944. Þeirra börn eru: 2a) Fura Ösp, f. 1975, 2b) Burkni Reyr, f. 1978, hans sambýliskona er Hrund Sverrisdóttir, f. 1975, þeirra börn eru Birnir Breki, f. 2006, og Emilía Ína, f. 2008. Fyrir á Hrund soninn Bjarmar Erni Waage, f. 1999. 2c) Jón Reyr, f. 1994, giftur Leinini Keanini, f. 1989, og eiga þau soninn Elías Kupa'a Reyr, f. 2023. 2d) Bjarki Reyr, f. 1996, hans sambýliskona er Katrín Hrefna Demian, f. 1996.

3) Steinn Logi f. 1959, giftur Önnu H. Pétursdóttur f. 1958. Þeirra börn eru: 3a) Steinn Logi, f. 1983, d. 2023. 3b) Ylfa Ýr, f. 1985, gift Örvari Geir Örvarssyni, f. 1979, og eiga þau börnin Kötlu Sólveigu, f. 2016, og Jökul Hrafn, f. 2018. Fyrir á Örvar soninn Emil, f. 2008. 3c) Perla, f. 1989, og er hennar sambýlismaður Gunnlaugur Snær Ólafsson, f. 1984. Fyrir á Gunnlaugur dótturina Snædísi, f. 2014.

Lengst af bjuggu Sigríður og Björn í Reykjavík. Sigríður lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og stúdentsprófi frá öldungadeild MH. Sigríður fór ung að vinna ýmis verslunarstörf svo sem í matvöruverslun og vefnaðarvöruverslun. Árið 1960 hóf hún störf á skrifstofu Bílavörubúðarinnar Fjaðrarinnar sem faðir hennar átti. Hún varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar faðir hennar dró sig í hlé. Árið 1988 keypti hún ásamt systrum sínum fyrirtækið af föður sínum og ráku þær það saman í nokkur ár eða þar til það var selt. Sigríður tók virkan þátt í margs konar félagsstörfum. Meðal annars má nefna að hún var valin til ýmissa trúnaðarstarfa á vegum Bílgreinasambands Íslands og sat þar í stjórn fyrst kvenna. Þá var hún virk í kvenfélagi og safnaðarfélagi Áskirkju og sat í sóknarnefnd kirkjunnar. Hún tilheyrði mörgum hópum, svo sem sundhópi, tveimur gönguhópum, saumaklúbbi, leikfimishópi og Kanaríeyjahópi. Þegar hún hætti að vinna tók hún að sér trúnaðarstörf í Thorvaldsensfélaginu og gegndi þar formennsku um tíma. Einnig var hún formaður Orlofsnefndar húsmæðra.

Útför Sigríðar fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 4. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Sigríður Sigurbergsdóttir tengdamóðir mín lést á jóladag. Kynni mín við Siggu hófust árið 1979 þegar ég kynntist syni hennar og vorum við alltaf nánar. Ég gat treyst henni fyrir mínum málum og hún mér fyrir sínum.

Kraftmeiri konu hef ég sjaldan kynnst. Hún átti fleiri áhugamál en margur annar. Hún fór í sund á morgnana, þar á eftir beint í leikfimi, svo kannski göngu og gat endað á golfi.

Sigga hélt fjölskyldunni ávallt vel saman og helst urðu allir að mæta í boðin sem þær systur héldu og ekki vel liðið að sleppa því að koma og því var vel við hæfi þannig lagað séð að fjölskyldan náði öll að koma saman á jóladag til að kveðja elsku Siggu.

Sigga og Bjössi heimsóttu okkur oft þegar við bjuggum í Þýskalandi. Þar hafði ég yfirumsjón með fatainnkaupum fyrir hana. Það þurfti að fara í búðirnar þar sem réttu stærðirnar fengust og nógu mikið af flottum vinnufötum. Helst eitthvað rautt. Hún dressaði sig alltaf vel upp í Þýskalandi og þar skiptu undirfötin líka miklu máli. Sigga vildi alltaf vera fín.

Einnig voru þau Bjössi dugleg að fara í hjólaferðir út í skóg með krakkana í Þýskalandi. Eftir eina slíka, mjög langa, sá dálítið á Siggu minni því afturendinn hafði ekki þolað svona langa ferð. Ákafinn var alltaf svo mikill og viljinn til að gleðja börnin.

Þegar Sigga byrjaði í Thorvaldsensfélaginu hætti hún ekki fyrr en ég var líka gengin í félagið. Þar starfaði hún af miklum metnaði. Hún var formaður félagsins í sex ár og bar hag þess ávallt fyrir brjósti. Ég veit að mér er óhætt að segja að hún hafi verið mikils metin af öllum félagskonum.

Sigga var frábær kona sem öllum líkaði við, hún var hreinskiptin og mjög ákveðin kona sem stóð sig vel í öllu sem hún tók sér fyrir hendur.

Guð blessi Siggu mína á himnum.

Anna H. Pétursdóttir.

Nú árið er liðið í aldanna skaut var reynt að syngja um hver áramót í Sæviðarsundi með misjöfnum árangri. Nú er ævi þín liðin elsku amma með öllu betri árangri, enda elja þín og atorka slík að þú hefur ferðast um heim allan, rekið stórfyrirtæki og alið af þér stórfjölskyldu, allt með miklum sóma, svo eitthvað sé upptalið. Gleði og þakklæti er það sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til þín núna. Þú hafðir einstakt lag á að gleðja fólkið í kringum þig með ákafri útgeislun sem hreif alla viðstadda.

Ég man eftir prins póló-kössunum í Fjöðrinni sem voru geymdir í enn stærri kassa sem var svo stór að ég gat ekki lyft honum. Og litla kælinum á skrifstofunni sem alltaf innihélt nokkrar tegundir af gosi. Þetta var fjársjóður fyrir ungan pilt í ævintýraleit. Ekki skemmdi fyrir ef það hitti svo á í hádeginu að þú byðir á Tommaborgara eða í súpu á Aski. Þá var hátíð í bæ. Fyrst ég er farinn að tala um mat, sem var okkar sameiginlega áhugamál, þá má ég til með að minnast og þakka þér sérstaklega fyrir ofnbakaða brauðið með osti og þykkum sneiðum af smyglskinku sem þú gafst mér oft þegar ég var í heimsókn hjá þér. Enn fremur þakka ég þér fyrir allar skálarnar sem ég hef fengið hjá þér af sveppasúpunni í gegnum árin. Ein stór ráðgáta er hvernig þér tókst að galdra fram þessa veislu fyrir bragðlaukana eins og hendi væri veifað. En ég veit að aldrei aftur á ég eftir að smakka eins góða súpu.

Þú réðst mig til þín í vinnu í Fjöðrinni, með skóla, þegar ég var átta ára. Ég man að þetta var ákveðið samningsferli þar sem þú bauðst mér út að borða og ræddir við mig um verkefnið sem mér yrði falið og kaup og kjör. Ég held að þú hafir boðið mér eina kók og eitt prins fyrir hvern kassa af klemmum sem ég setti saman og var ég fljótur að ganga að þeim kjörum. Ég þakka þér fyrir traustið sem þú sýndir mér þegar þú réðst mig til vinnu. Einnig þakka ég fyrir sparkið í rassinn þegar þú rakst mig fyrir að vera að fíflast í vinnunni meira en að vinna. Það var þörf lexía. Ég fékk annan séns hjá þér síðar og stóð mig betur þá. Ekki satt?

Þú varst nú reyndar ekki par hrifin þegar ég keyrði inn í Fjöðrina á Pontiacnum, en eftir að hafa ausið ríkulega af skömmum yfir mig, síðan smá umhugsun, sagðirðu að þú hefðir reyndar lengi verið að hugsa um að fá rennihurð og nú væri upplagt tækifæri. Svo kom rennihurðin.

Fjölskylduferðin til Kanarí var alveg stórkostleg og það var gaman að fylgjast með drottningunni í nýlenduríkinu sínu vísa okkur um með stolti og gleði. Þó að margt sé eftirminnilegt úr þeirri ferð þá er ekkert sem slær út morgunleikfimina á sundlaugarbakkanum, þar sýndir þú okkur þína bestu og liprustu takta, í takt við tónlistina og stöku hláturroku sem frá þér kom reglulega.

Takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar amma mín. Hvar sem þú ert nú niðurkomin þá er morgunljóst að þar er skemmtilegra nú en það var áður en þú komst þangað og ekki ósennilegt að þú sért að blása til gleði akkúrat í þessum töluðum orðum.

Burkni.

Hún amma í Sævó var öðruvísi en aðrar ömmur. Í stað þess að vera heima að prjóna eða baka var hún framkvæmdastjóri í Bílavörubúðinni Fjöðrinni. Hún átti fyrirtækið með systrum sínum, Pöllu og Báru, og ég var svo heppin að fá að vinna með þeim í nokkur sumur. Sú reynsla gaf mér innsýn í líf ömmu í vinnunni sem stjórnaði fyrirtækinu af mikilli elju og átti ekki í nokkrum vanda með að segja körlunum fyrir verkum.

En það var amma í vinnunni, og svo var það amma heima. Hún og afi áttu fallega rautt og hlýlegt heimili. Þar voru alltaf bestu jólin, afi setti Mahaliu Jackson á plötuspilarann, rjúpnalyktin lá í loftinu, pakkarnir voru í hrúgu undir litlu jólatré og afi var búinn að stilla upp kvikmyndavélinni til að festa allt á filmu. Afi var oft í löggubúningi því hann var á leið á vakt. Þetta var afar hátíðlegt, mikil spenna og mikil gleði. Amma gat slappað af á jólunum, lesið bækur og spilað en þegar ekki voru jól var hún oftast á mikilli ferð. Hún átti hraðskreiða bíla sem hún var treg að lána en keyrði hratt og var tekin þrisvar af löggunni meðan ég var með henni í bíl. Hún fékk hins vegar engar sektir því hún var útsmogin og gat auðveldlega talað sig út úr þessum vandræðum.

Þegar hún var ekki að þeysast um götur Reykjavíkur var hún oft í útlöndum, en þau afi fóru árlega til Kanarí í partíferð með vinum sínum. Það var líka farið til Taílands, keyrt um Bandaríkin, farið til Kína og um allt í Evrópu. Hún var dugleg að heimsækja börn og barnabörn um allan heim og kom oft með mömmu til New York þegar ég bjó þar. Það voru ævintýralegar heimsóknir og í eitt skipti fór hún heim með heljarinnar glóðarauga eftir að hafa faðmað götur borgarinnar.

Ömmu fannst best að hafa mikið að gera. Þegar þær systur seldu fyrirtækið hellti hún sér í góðgerðarmál og var meðal annars formaður Thorvaldsensfélagsins, var í Orlofsnefnd húsmæðra og var í sóknarnefnd Áskirkju. Á tímabili var konan komin með þrjá farsíma til að halda þessu öllu gangandi. Hún ræktaði líka fjölskylduna af krafti, fannst gaman að halda boð og fannst ekkert betra en að komast í gott partí. Amma naut lífsins vel, það var stutt í grínið, hún hló hátt, hreyfði sig mikið og var rosalega góð í leikfimi. Hún var eina amman í vinahópnum sem gat staðið á haus og var reglulega í leikfimissýningum, bæði hér heima og erlendis. Síðustu mánuði hefur hún spurt mikið um afa þar sem hugurinn var farinn að leita meira í gamla tíma. Nú hefur hún eflaust fundið hann og þau geta leitað nýrra ævintýra saman.

Amma, þú varst frábær fyrirmynd ungra kvenna og sýndir að okkur eru allir vegir færir. Þú hvattir mig áfram í mínu lífi, fannst mikilvægt að mér gengi vel en lagðir líka mikla áherslu á að það væri gaman og að lífið væri skemmtilegt. Þú sýndir mér hvernig á að lifa. Fyrir það er ég endalaust þakklát. Takk fyrir allt.

Fura.