50 ára Þórður er borinn og barnfæddur Skagamaður og hefur búið á Akranesi mestalla tíð fyrir utan 12 ár í Lúxemborg. Hann er viðskiptafræðingur að mennt frá Bifröst og er með löggildingu í verðbréfamiðlun

50 ára Þórður er borinn og barnfæddur Skagamaður og hefur búið á Akranesi mestalla tíð fyrir utan 12 ár í Lúxemborg. Hann er viðskiptafræðingur að mennt frá Bifröst og er með löggildingu í verðbréfamiðlun. Þórður er viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu hjá Kviku eignastýringu. Hann var áður hjá Auði Capital en svo sameinaðist það Virðingu sem sameinaðist síðan Kviku árið 2017. Þar áður starfaði hann hjá Kaupþing Bank Luxemborg.

Þórður er fyrrverandi Íslandsmeistari í golfi, hreppti titilinn 1997, en svo fór hann til Lúxemborgar 1999 og þá minnkaði keppnisgolfið. Hann varð síðan formaður Golfklúbbsins Leynis á Akranesi 2011 þegar heim var komið og gegndi þeirri stöðu í níu ár.

„Ég er frímúrari en annars hefur golfið átt félagsmálapakkann gegnum tíðina. Það er líka helsta áhugamálið. Við erum góð hjónagrúppa sem spilum reglulega saman, alveg átta, níu hjón. Það er helsta golfið manns í dag ásamt því að spila með gömlu Leynisfélögunum.“

Önnur áhugamál Þórðar eru almenn íþróttaástundun og skotveiðar. „Ég fer á rjúpu, hreindýr og gæs. Svo kviknaði síðasta sumar áhugi hjá mér á fjallgöngum.“

Fjölskylda Eiginkona Þórðar er Elín Dröfn Valsdóttir, f. 1976. Hún hefur í 11 ár rekið gjafavöruverslunina @home. Börn þeirra eru Emilía Björg, f. 1997, Katrín Sól, f. 2000, Gabríel Þór, f. 2004 og Ísak Davíð, f. 2008. Eitt barnabarn er komið, Manuel Þór, f. 2020, sonur Emilíu og Hafþórs Péturssonar, og annað barnabarn er á leiðinni. Foreldrar Þórðar eru hjónin Ólafur Grétar Ólafsson, f. 1948, var umboðsmaður Sjóvár í rúm 40 ár, og Dóra Guðmundsdóttir, f. 1952, vann verslunarstörf, lengst af í apóteki. Þau eru búsett á Akranesi.