Ásgeir Þór Torfason fæddist í Reykjavík 29. maí 1959. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 19. desember 2023.

Foreldrar hans voru Torfi Hafsteinn Baldursson, f. 29. mars 1937, d. 9. mars 1975, og Guðbjörg Anna Pálsdóttir, f. 30. ágúst 1937, d. 22. apríl 2022.

Ásgeir var næstelstur í hópi fjögurra systkina, hin eru Ingibjörg, f. 1958, Freyja, f. 1961, og Ragna Sigríður, f. 1971.

Ásgeir kynntist ungur eftirlifandi sambýliskonu sinni, Ragnheiði Þóru Halldórsdóttur, f. 6.1. 1960. Foreldrar hennar voru Halldór Magnús Þorkelsson, f. 25. apríl 1921, d. 1. júní 2008, og Gunnlaug Eygló Sigfúsdóttir, f. 28. júlí 1930, d. 11.1. 2019.

Allan sinn búskap bjuggu Ásgeir og Ragnheiður í Keflavík og héldu þau heimili lengst af í Hrauntúni 10. Barn þeirra er Halldór, f. 17.1. 1983, búsettur í Keflavík.

Ásgeir ólst upp í Reykjavík fram að unglingsárum og fluttist þá til Keflavíkur þar sem hann lauk grunnskólagöngu. Síðar lauk hann námi til vélastjóraréttinda. Hugurinn stefndi snemma á miðin og aðeins 14 ára gamall hóf hann feril sinn sem sjómaður. Sjómennskuna stundaði hann eins lengi og heilsan leyfði, en Ásgeir greindist með krabbamein árið 2022. Ásgeir var mikið náttúrubarn, hafði gaman af hvers kyns útivist, naut margra sumarleyfa í laxveiðum og ferðalaga innanlands með fjölskyldunni.

Útför Ásgeirs fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 4. janúar 2024, kl. 13.

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Hulda Ólafsdóttir)

Elsku bróðir minn, nú ertu lagður af stað í þínu hinstu sjóferð, þar sem sjórinn er spegilsléttur og sólin skín. Ég minnist þín með ást, kærleik og hlýju, mér þótti svo ofurvænt um þig, ég sakna þín. Með tár í hjarta kveð ég þig að sinni.

Elsku hjartans Ragga mín og Halldór, mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Þín systir,

Ragna Sigríður.