Uppbygging Íbúum fjölgar og uppbygging í ferðaþjónustu rennir fleiri stoðum undir greinina.
Uppbygging Íbúum fjölgar og uppbygging í ferðaþjónustu rennir fleiri stoðum undir greinina. — Ljósmyndir/Aldís Hafsteinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Íbúar Hrunamannahrepps urðu í fyrsta sinn 900 talsins í desember. Þar af búa um 500 íbúanna á Flúðum.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Íbúar Hrunamannahrepps urðu í fyrsta sinn 900 talsins í desember. Þar af búa um 500 íbúanna á Flúðum.

Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri Hrunamannahrepps segir þetta vera ánægjuleg tímamót.

„Við erum afskaplega kát með að íbúum hér er að fjölga. Við erum í fyrsta skipti komin yfir 900 íbúa og rétt náðum því marki í lok árs. Það segir manni að fólk horfir hingað í meiri mæli en áður. Það horfa margir til uppsveitanna núna og maður verður var við að margir sjá fyrir sér breytta búsetu og gætu ímyndað sér að búa annars staðar en í mestu hringiðunni. Og þar eru uppsveitir Árnessýslu mjög ákjósanlegur kostur.“

Hvar býr fólkið í hreppnum, þessir 900 íbúar?

„Hrunamannahreppur er svolítið sérstakur hvað það varðar að á Flúðum eru rétt rúmlega 500 manns. Þannig að ríflega helmingurinn býr á Flúðum. Svo eru velflestir búsettir á sveitabæjum hér í kring og í svona 10 km radíus í kringum Flúðir. Þar búa um 400 manns.“

Hvernig var íbúaþróunin á Flúðum í fyrra?

„Það fjölgaði meira í þéttbýlinu en í uppsveitum.“

Vantar fólk í alls kyns störf

Af hverju er fólk að leita í uppsveitir?

„Hér er heilmikla vinnu að hafa og okkur vantar fólk í alls kyns störf. Ferðaþjónustan er mjög öflug og það er margt í pípunum. Ég finn fyrir ríkum áhuga, sérstaklega í ferðaþjónustu, á að koma í frekari uppbyggingu. Meðal annars hafa hóteleigendur viðrað hugmyndir varðandi uppbyggingu á gististöðum og hótelum. Þannig að það er mjög gaman að verða vitni að því og fá að taka þátt í verkefnum sem eru full af bjartsýni og miklum möguleikum.

Stór hluti ferðamanna sem koma til Íslands fer Gullna hringinn og þar af leiðandi í uppsveitirnar og því fylgir mikil uppbygging. Þar með talið hjá okkur en það hefur til dæmis verið mikil uppbygging í Kerlingarfjöllum. Svæðið sem ferðamenn sækja er orðið mikið stærra og seglarnir sem ferðamenn skoða eru orðnir fleiri.“

Vegagerð myndi breyta miklu

Aldís nefnir einnig mikla uppbyggingu í Þjórsárdal á vegum Bláa lónsins sem dæmi um fjárfestingu í ferðaþjónustu.

„Og ef Hvammsvirkjun verður að veruleika með tilheyrandi vegtengingu yfir í Rangárvallasýsluna erum við að sjá gjörbreytt landslag hér upp frá. Við munum jafnframt upplifa að leiðirnar, ferðaleiðirnar, munu breytast. Það verður til nýr hringur og ég held að þeir sem eru framsýnir og duglegir að greina sviðsmyndir og sjá möguleika sjái að þetta er að verða reyndin. Um leið sjá þeir þá möguleika sem eru á uppbyggingu á ýmissi atvinnustarfsemi og þá ekki síst í ferðaþjónustu á þessu svæði.“

Verið að úthluta lóðum

Áttu þá von á því að það verði áframhaldandi íbúafjölgun?

„Já. Það er ekki spurning. Við erum einmitt núna búin að úthluta lóðum á Flúðum fyrir á sjötta tug íbúða, þar eru framkvæmdir annaðhvort hafnar eða eru við það að hefjast.

Þar á meðal eru framkvæmdir við íbúðarhúsnæði í nýju hverfi, Byggð á Bríkum, þar sem munu verða á annað hundrað íbúðir. Í því hverfi einu yrðu jafn margir íbúar og búa nú á Flúðum, eða um 500 manns, þ.e.a.s. þegar hverfið er fullbyggt. Við erum þannig að tala um að íbúafjöldinn á Flúðum muni líklegast tvöfaldast að lágmarki á einhverju tímabili en við erum raunsæ með að það gerist líklega ekki á allra næstu árum.“

Ferðatengd þjónusta

Hversu algeng er fjarvinna meðal fólks sem sækir í hreppinn?

„Við höfum orðið vör við að fólk stundar fjarvinnu héðan enda sífellt einfaldara. Almennt er heilmikil uppbygging í farvatninu. Við erum einmitt núna að vinna með aðilum sem fengu vilyrði um stórt svæði miðsvæðis á Flúðum sem þeir hafa áhuga á að nýta í ferðatengdri þjónustu, mjög fjölbreyttri. Það eru komnir nýir eigendur á Hótel Flúðum sem keyptu gistiheimilið beint á móti, Grund. Þeir aðilar hafa einnig fengið byggingarleyfi fyrir 40 herbergjum til viðbótar. Einnig eru golfarar hér stórtækir og þar eru í gangi spennandi hugmyndir og garðyrkjan sem og annar landbúnaður er mjög öflug hér. Þannig að það er margt í gangi. Og það er ljóst að á þessum stöðum öllum er þörf fyrir tugi starfsmanna.

Þeir munu búa einhvers staðar og við ætlum að vera tilbúin að taka á móti því fólki sem þarf nauðsynlega nú þegar og mun þurfa á þá vinnustaði sem eru að bætast við.“

Mun breyta umferðinni

Þú nefndir Hvammsvirkjun? Hvaða vegtengingar verða til ef hún verður að veruleika?

„Það liggur fyrir að það verður vegur um Hvammsvirkjun yfir í Landsveit og yfir í Rangárþing ytra. Og ég er sannfærð um að við þá vegtengingu muni umferðin breytast hér í uppsveitunum. Það verður til nýr hringur.“

Hvernig þá?

„Það mun verða til nýr hringur vegna þess að fólk mun þá fara að skoða Kerið, Gullfoss og Geysi og koma svo hér niður Skeiða- og Hrunamannaveginn gegnum Flúðir til þess að fara niður í Þjórsárdal og svo niður í Landsveit og þar niður á Suðurlandsveginn aftur. Það er bjargföst trú mín að verði Hvammsvirkjun að veruleika munum við sjá miklu meiri áhrif af breyttri ferðaþjónustu og breyttum ferðavenjum fólks en við gerum okkur grein fyrir.“

Hvað felst í breyttum ferðavenjum?

„Miklu meiri umferð í gegnum Flúðir.“

Þannig að í staðinn fyrir að ferðamenn séu að gista annars staðar gisti þeir á Flúðum?

„Já. Við erum að markaðssetja svæðið þannig gagnvart ferðamönnum að þeir geti komið og dvalið lengur í uppsveitum. Komið og verið hér í þrjá til fjóra daga og keyrt út frá gististöðunum sem eru hér, í staðinn fyrir, eins og margir velja, að gista á höfuðborgarsvæðinu. Það eru auðvitað langflestar gistinætur á höfuðborgarsvæðinu.

Algengt er að fólk sé að gista þar en taki þrjár til fjórar dagsferðir austur fyrir fjall og geri sér ekki grein fyrir að það getur, og það er miklu nær lagi, gist hreinlega í uppsveitunum og sótt þaðan þessar miklu perlur íslenskrar náttúru og verið þar með nær þeim öllum,“ segir Aldís. Innviðirnir séu mjög sterkir og vel hægt að þjónusta fleiri íbúa. Nóg sé af heitu vatni.