Samhugur Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hélt til Grindavíkur í gær þar sem hún fundaði með fyrirtækjum í ferðaþjónustu og heimsótti önnur fyrirtæki í bænum. Hún segir mikilvægt fyrir sig sem ferðamálaráðherra að fara á svæðið til að heyra hljóðið í fólkinu og upplifa aðstæður á svæðinu.
Samhugur Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hélt til Grindavíkur í gær þar sem hún fundaði með fyrirtækjum í ferðaþjónustu og heimsótti önnur fyrirtæki í bænum. Hún segir mikilvægt fyrir sig sem ferðamálaráðherra að fara á svæðið til að heyra hljóðið í fólkinu og upplifa aðstæður á svæðinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Klara Ósk Kristinsdóttir klaraosk@mbl.is Ferðaþjónustufyrirtæki í Grindavík kalla eftir skýrara áhættumati frá stjórnvöldum og fyrirsjáanleika í efnahagsaðgerðum. Þetta kom fram á fundi sem fram fór á Sjómannsstofunni Vör um miðjan dag í gær.

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Ferðaþjónustufyrirtæki í Grindavík kalla eftir skýrara áhættumati frá stjórnvöldum og fyrirsjáanleika í efnahagsaðgerðum. Þetta kom fram á fundi sem fram fór á Sjómannsstofunni Vör um miðjan dag í gær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra, sat fundinn og hlustaði á sjónarmið þeirra Grindvíkinga sem starfa í kringum ferðaþjónustu á svæðinu. Hún segir fundinn hafa verið góðan og ánægjulegt að heyra hversu mikil samstaða ríkir um mikilvægi þess að byggja Grindavík upp aftur. „Það var meginstefið, sem mér þótti mjög ánægjulegt og gott að heyra.“

Að sögn Lilju voru fyrirtækin jafnframt með ákall um næstu skref og framhald á aðgerðum stjórnvalda sem renna úr gildi um næstu mánaðamót. Getur Lilja ekki greint frá því hvernig framhaldinu verður háttað að svo stöddu, en segir sitt ráðuneyti nú vinna að áframhaldandi aðgerðum í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Sem dæmi um aðgerðir nefnir hún samt sem áður tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki í anda þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin fór í þegar heimsfaraldur gekk yfir. Lilja segir áframhaldandi aðgerðir mikilvægar í ljósi þess að fyrirtækin hafi engar tekjur þar sem takmarkanir á starfsemi þeirra eru miklar.

Á sama tíma og fyrirtækin óskuðu eftir upplýsingum um framhaldið og næstu skref ræddu þau um framtíð Grindavíkur og ferðaþjónustu á svæðinu. „Þau vilja geta opnað aftur,“ segir Lilja og útskýrir að því sé mikilvægt að fá frekara áhættumat fyrir svæðið. Hún segir fyrirtækin kalla eftir því, en ítrekar að það sé í höndum almannavarna að gefa slíkt út.

„Fólk er tilbúið til að lífið haldi áfram og til að vinna með þessa áhættu sem er á svæðinu,“ segir Lilja og bætir við að því hafi fundurinn jafnframt verið nýttur í að leita leiða til að halda áfram. Aðspurð segir hún þar meðal annars hafa komið fram hugmyndir um að markaðssetja hættuna á svæðinu fyrir ferðamenn.

Hún segir mjög metnaðarfull áform uppi um að setja á fót svokallaða Kviku í Grindavík sem yrði einskonar jarðvangur á Reykjanesi og þannig staður þangað sem bæði innlendir og erlendir ferðamenn gætu leitað og fengið kynningu á því sem hefur verið að gerast á svæðinu. Segir Lilja fundarmenn hafa verið spennta fyrir hugmyndinni og einhuga um að undirbúa verkefnið vel, á meðan takmarkanir eru á ferðaþjónustu í bænum, svo hægt verði að fara strax af stað þegar Reykjanesskaginn leyfir.

Skaginn er kominn af stað

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir skjálftahrinu sem varð við Trölladyngju í gær til marks um að Reykjanesskaginn sé kominn af stað. „Skjálftarnir eru að segja okkur að aðrar gosreinar á svæðinu eru að vakna. Að því leytinu til eru þeir að segja okkur það að eldvirknin getur færst til. Ef við fáum eldvirkni á Trölladyngjureininni og síðan yfir í Krýsuvíkurreinina þá getur sú eldvirkni verið mun norðar en hefur verið hingað til,“ segir Þorvaldur og bætir við að þá séu eldvirknisvæðin komin mun nær stórhöfuðborgarsvæðinu. Hins vegar segir hann ekki gott að segja til um hvenær það getur orðið, það gæti verið á þessu ári eða á næstu hundrað árum.

Aðspurður segist hann ekki sannfærður um að skjálftahrinan við Trölladyngju hafi verið afleiðing af landrisi við Svartsengi. Hann segir þó vel mega vera að skjálftahrinan hafi verið hluti af þeirri spennulosun sem er á svæðinu og hreyfingum á plötuskilunum.