Unnur Níelsína Jóhannsdóttir fæddist 13. ágúst 1927. Hún lést 22. desember 2023.

Foreldrar hennar eru þau Sveinbjörg Jónína Guðmundsdóttir, fædd 25. nóvember árið 1901 á Gullsteinseyri á Seyðisfirði, látin 1996, og Jóhann Benedikt Jónsson, skipstjóri frá Fáskrúðsfirði, en þau slitu samvistum.

Fósturfaðir hennar var Gísli Vilhjálmsson, f. 1891, látinn 1971, bóndi á Brekku í Mjóafirði. Sveinbjörg móðir Unnar og Jóhann faðir hennar eignuðust tvö börn, Unni og Níels, á undan Unni Níelsínu. Þau dóu bæði áður en hún fæddist.

Hálfsystkini Unnar eru Vilhjálmur Gíslason, fæddur 27. apríl 1933, Svanbjörg Gísladóttir, fædd 10. febrúar 1939, látin 30. júní 2017, Helga Jóhannsdóttir, Erna Jóhannsdóttir og Auðbjörg Jóhannsdóttir. Helga og Auðbjörg eru látnar.

Maki Unnar var Einari G. Guðmundsson í Norðfirði. Einar fæddist 22. nóvember 1919 og lést 6. ágúst 1998. Foreldrar hans voru þau Sesselja Sveinsdóttir og Guðmundur Grímsson frá Sandvík.

Unnur og Einar eignuðust sex börn:

1) Sveinbjörg, fædd árið 1949. Hún er gift Hilmari Guðbjörnssyni, f. 1950. Þau búa í Kópavogi. Dætur þeirra eru þrjár; Unnur, f. 1971 (látin), Sigrún Heiða, f. 1973, og Elín f. 1976. Barnabörnin eru sex talsins og eitt barnabarnabarn.

2) og 3) Sveinn Guðmundur og Sólveig Sesselja, fædd 1952. Maki Sveins er Stefanía Steindórsdóttir, f. 1952. Þau búa í Neskaupstað. Börn Sveins og Stefaníu eru: Guðrún Jónína, f. 1970, og Einar Sveinn, f. 1976. Barnabörnin eru fimm talsins og eitt langömmubarn.

Maki Sólveigar er Atli Dennis Wilson, f. 1950. Þau búa í Neskaupstað. Börn þeirra eru; Guðrún Linda, f. 1972, Unnur Ása, f. 1976, Ómar Dennis, f. 1982, og Guðmundur Karl, f. 1984. Barnabörnin eru 15 og barnabarnabörn fimm.

4) Gísli Svan, fæddur 1955. Maki hans er Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir, f. 1956. Þau eru búsett á Sauðárkróki. Börn þeirra eru: Einar Svan, f. 1981, Þráinn Svan, 1984, Áslaug Sóllilja, f. 1989, og Bryndís Lilja, f. 1990. Barnabörnin eru þrjú.

5) Vilberg, fæddur 1957. Hann býr á Flúðum. Börn hans eru: Lilja Dögg, f. 1976, Margrét Ósk, f. 1984, Svanbjörg, f. 1984, og Katla Hólm, f. 1986. Fósturdóttir með Arndísi Sigurðardóttur er Helga Rósa, f. 1985. Barnabörnin eru níu og eitt barnabarnabarn.

6) Níels, fæddur 1962. Maki hans er Oddný Stella, f. 1960. Þau búa á Akureyri. Börn þeirra eru: Egill Þór, f. 1984, Snorri Pétur, f. 1989, Hrefna Rut, f. 1991, og Unnur Stella, f. 2000. Barnabörnin eru þrjú talsins.

Útför fer fram í Norðfjarðarkirkju í dag, 4. janúar 2024, klukkan 14.

Móðir mín, Unnur Níelsína Jóhannsdóttir, er látin 96 ára að aldri. Þessi sterka, gáfaða kona er farin. Minningarnar þyrpast að og maður veit ekki hvar á að byrja. Ég man þegar hún sat með gítarinn og söng með okkur systrunum vinsæl lög þessa tíma og við sungum milliröddina en hún söng fyrstu rödd. Hún var í kirkjukór Norðfjarðarkirkju frá stofnun hans, en af því að hún gat sungið millirödd var hún sett í það að syngja þá rödd. En hún gat sungið allar raddir. Oft þegar ég heyri gömul lög sungin segi ég: Ég kann þetta lag, ég söng það með mömmu.

Móðir mín var sjómannskona og varð því að bera skyldur heimilisins meðan pabbi var fjarri, stundum mánuðum saman. Ein minning er sterk í huga mér. Ég vakna, líklega fjögurra ára gömul. Það er sumarnótt, allt er bjart. Ég fer fram og horfi út um opnar útidyrnar. Þarna er mamma fyrir utan. Svo stór og sterk að steypa stéttina fyrir framan útidyrnar. Hún horfir á mig og brosir til mín og allt er gott. Ég fer inn og sofna.

Hún var alltaf mikil handavinnu- og handverkskona. Það eru til mörg verk sem hún bjó til og var dugleg að gefa frá sér til ættingjanna.

Svo ekki sé talað um alla basarana sem hún vann hluti og kökur á, ýmist fyrir Sjálfsbjörg eða Kvenfélagið og Slysavarnafélagið.

Hún var einstaklega æðrulaus og tók því sem að höndum bar. Það hefði líklega flestum brugðið við minna en það þegar við tvíburarnir, Sveinn og ég, fæddumst í janúar 1952. Það vissi enginn að von var á tvíburum. Þetta var að sjálfsögðu heimafæðing á neðri hæð Þiljuvallar 35. Það fæddist drengur, sem var mjög fínt, því fyrir á heimilinu var Sveinbjörg systir. En svo sagði læknirinn: Það er annað barn og síðan birtist ég.

Þetta var ekkert mál sagði hún mér. Við settum þig bara hinum megin í vögguna. Þú varst svo frek, sagði hún. Þú togaðir alltaf sængina af Sveini. Áttir þú bara eina sæng, sagði ég. Já, sagði hún. Ég vissi ekki að það kæmu tvö börn.

Seinustu fjögur árin bjó hún á Hjúkrunardeild HSA, Neskaupstað, þar sem henni var vel sinnt. En hún var þá komin í hjólastól. Afleiðingar af slysi, en hún datt á hnéð á skautum 14 ára gömul og braut það. Á þessum tíma var ekki mikið sem hægt var að gera til lækningar, svo hún átti alltaf eftir að eiga við heilsuleysi að stríða og hafði þetta atvik áhrif á allt hennar æviskeið.

Þrátt fyrir að síðustu árin væru stundum erfið var hún ávallt þakklát, jákvæð og bjartsýn og þakkaði mér og starfsfólki Hjúkrunardeildar HSA alltaf mikið fyrir allt.

Að lokum vil ég bara segja takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína fjölskyldu mamma mín.

Sólveig Sesselja
Einarsdóttir.

Hún tengdamóðir mín var alltaf svolítið á hraðferð, fannst mér. Hún átti erfitt með að sitja auðum höndum. Ef hún var ekki að sýsla í eldhúsinu við matargerð eða bakstur, þá var hún að vinna eitthvað í höndunum eða sinna barnabörnum. Hún söng í kirkjukórnum, var formaður Sjálfsbjargar í mörg ár og lék með leikfélaginu. Þegar ég kom fyrst til Neskaupstaðar sumarið 1975 þá starfaði hún í frystihúsinu og við yngri konurnar þóttumst góðar ef við næðum því að vera hálfdrættingar á við hana þegar kom að bónusnum.

Hún var af þeirri kynslóð sem hafði þurft að hafa verulega fyrir lífinu. Allur matur var nýttur vel og engu hent. Á borðum á Þiljuvöllum 35 var oftast nýveiddur fiskur, sem Einar tengdafaðir minn veiddi á trillunni sinni Gusti. Kartöflurnar komu úr hennar eigin garði og ég, stelpa vestan af Snæfellsnesi, var ekki vön því að borða svona mikið af kartöflum með mat en lærði fljótt að meta góðar kartöflur. Hún ræktaði rabarbara og gerði sultu og saft úr berjum og tók slátur. Gísli sonur hennar sagði stundum í gríni við börnin sín fjögur að hann væri nú alinn upp á fiski, kartöflum og rabarbaragraut og það hefði gert sér gott. Þegar við komum í heimsókn á sumrin þá stóð það heima að hún hafði eldað fiskibollur, því þær væru í uppáhaldi hjá syninum og já, þær voru góðar.

Það var hægt að ganga að því vísu að í þá fáu daga sem við, fjölskyldan að vestan, heimsóttum Neskaupstað, þá var haldin ein stórveisla á Þiljuvöllunum. Stofuborðið svignaði undan kræsingum; brauðterta, draumterta, peruterta og hvað þær kölluðust nú allar terturnar hennar Unnar. Kaffi og heitt súkkulaði og litla borðstofan fylltist af börnum og fullorðnum. Þetta var töfrum líkast því ekki hafði hún mikið vinnupláss í eldhúsinu sínu, svona miðað við kröfur dagsins í dag.

Hún saumaði föt á börnin og barnabörnin. Hún saumaði grímubúninga á börnin sín þegar þau voru lítil og prjónaði peysur, sokka og vettlinga. Stundum sat hún langt fram á nætur við saumaskapinn. Hún gleymdi aldrei neinum þegar kom að afmælum og jólum. Pósturinn færði börnunum pakka frá ömmu Unni í Neskaupstað og alltaf fylgdi með handskrifað jólakort til hvers og eins. Í pökkunum var yfirleitt eitthvað sem hún hafði sjálf prjónað eða málað.

Faðmlagið var alltaf þétt og hlýtt og það var gott að hitta hana. Síðast í sumar hittumst við stutta stund. Hún var farin að gleyma en það kom ekki að sök; við töluðum bara um æskuna hennar og sveitina.

Takk fyrir okkur, elsku Unnur.

Bryndís Þ.